Dimmt og hljótt…

Svefnherbergið er sá staður á heimilinu sem ég vil hafa afslappaðan og alls ekki mikið af hlutum þar inni. Ég vil hafa veggina dökka og einfalda litapallettu sem skapar notalegt andrúmsloft.

Við erum búin að hafa dökkan lit í svefnherberginu í rúm tvö ár og eftir að hafa prófað að vera með dökkan lit viljum við ekki nota ljósa liti þar því það er svo ótrúlega kósý að vera með dimmt í herberginu.

Við máluðum svefnherbergið á dögunum og völdum litinn MISTUR frá SLIPPFÉLAGINU en hann uppfyllti allar óskir okkar!

Dimmur á kvöldin og nóttunni en svo fagur í dagsbirtunni.

Við erum með fataskápa á heilum vegg í svefnherberginu en mér finnst líka mjög gott að hafa fataslá fyrir þau föt sem ég nota mest.

Ég var síðan að eignast þennan fallega svarta Wishbone stól frá Carl Hansen & Son en mig hefur dreymt um að eignast svona stól í mörg ár og keypti hann loksins í Epal á dögunum.

Við ákváðum að mála bæði loft og veggi í sama lit og okkur finnst það koma mjög vel út í svefnherberginu.

Dimmt og fallegt!

Litur: MISTUR frá Slippfélaginu

Við erum með dökkar gardínur en svo er hægt að draga frá og leyfa dagsbirtunni að flæða um herbergið.

Það má segja að svefnherbergið sé eins og nýtt en það hefur fengið algjöra yfirhalningu frá A-Ö síðan í vor en þá fengum við okkur nýtt rúm frá Betra Bak sem er stillanlegt og með himneskum dýnum!

Rúmið kom með gráum rúmgafli og þá fannst mér liturinn á veggjunum ekki lengur passa við svo ákvörðun var tekin um að mála.

Kristalsvasinn er frá Frederik Bagger og fæst í Líf & List en stráin keypti ég í Garðheimum.

Ég fór líka í leiðangur að leita að nýju rúmteppi og féll algjörlega fyrir þessu fallega nýja teppi frá Lín Design sem heitir Hrísey.

Það koma púðar í stíl sem ég varð auðvitað að eignast líka! Mynstrið í þeim og teppinu er svo fallegt. Teppið er svo dásamlega mjúkt og notalegt viðkomu og leggst vel og fallega yfir sængurnar.

Virkilega vandað og fallegt sett af rúmteppi og púðum frá Lín Design en ég er ótrúlega ánægð með hvað það gerir mikið fyrir herbergið. Að hafa fallega búið um finnst mér alveg setja punktinn yfir i-ið í svefnherberginu og gera það svo kósý.

Ég vil taka það fram að ég er í samstarfi við Slippfélagið, Lín Design og Garðheima en allar vörur sem ég sýni ykkur eru valdar af mér sjálfri og færslan er ekki kostuð auglýsing.

Ég vona að þið hafið haft gaman að innlitinu og kannski fengið einhverjar hugmyndir og innblástur.

Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að gera fallegt heima og hef verið að taka eitt og eitt rými fyrir í einu síðan í sumar og núna er ég að vinna í stofunni sem er bæði búin að fá nýjan lit á veggi og ný húsgögn.

Það verður gaman að sýna ykkur stofuna í næsta pósti en þangað til þá getið þið fylgst með ferlinu á Instagram – Bjargeyogco.

Leave a comment