Fermingarblað Morgunblaðsins

Í Fermingarblaði Morgunblaðsins sem kom út á dögunum birtist viðtal við mig um fermingarundirbúning og veisluhöld. Hægt er að skoða PDF útgáfu blaðsins hér:

Fermingarblað Morgunblaðsins 2020 

IMG_0522

Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að lesa viðtalið þá er það í heild sinni hér:

Hvað starfar þú við í dag?

Ég starfa sjálfstætt við heimasíðuna mína Bjargey & Co. þar sem ég fjalla um ferðalög, matargerð, veisluhöld og heimilishald ásamt því að deila persónulegum hugleiðingum.

Ég held námskeið og fyrirlestra, en síðastliðin ár hef ég farið með konur í endurnærandi ferðir erlendis og haldið sjálfstyrkingarnámskeið í ferðunum. Ég held fyrirlestra á Íslandi og erlendis um mína vegferð að betri heilsu ásamt því að starfa í sjálfboðaliðastarfi fyrir Evrópusamtökin EASO ECPO.

Síðastliðið haust gaf ég út Hamingjubók sem er dagbók fyrir alla sem vilja huga að andlegri og líkamlegri heilsu. Nú er ég nýbúin að gefa út Draumabók sem er fyrir alla þá sem vilja sjá drauma sína verða að veruleika og er með Draumasmiðjur sem eru ný námskeið fyrir allan aldur.

IMG_4923 copy 

Hvað getur þú sagt mér um ferminguna sem þú hélst síðast?

Bryndís Inga dóttir okkar fermdist vorið 2018 og við héldum fermingarveislu í Safnaðarheimilinu Borgum við Kópavogskirkju. Við mæðgur skemmtum okkur vel saman við að undirbúa stóra daginn en hún vissi nákvæmlega hvernig skreytingar hún vildi hafa og svo hjálpaði ég henni að útfæra þær og skreyta. Í veislunni buðum við upp á hlaðborð af margskonar gómsætum snittum frá Tertugalleríi Myllunnar ásamt kjúklingavængjum frá Tokyo Sushi og heimagerðum kjötbollum. Við vorum síðan með kökuhlaðborð, kransatertur sem við skreyttum sjálfar, fermingartertu frá Tertugalleríi ásamt marengs, súkkulaðitertum og bollakökum.

2018-03-25 17.37.55

Við notuðum mikið af persónulegum munum sem til voru heima til þess að skreyta salinn og hengdum upp skemmtilegar myndir af Bryndísi Ingu frá fæðingu fram að fermingu.

IMG_0359

Við létum prenta fyrir okkur kort hjá Prentagram með myndum af henni sem við settum á borðin, en inn í kortin gátu gestirnir skrifað kveðju eða heilræði til hennar.

IMG_0287

Það var einlæg ósk hjá fermingarbarninu að hafa myndavegg þar sem hægt væri að taka skemmtilegar myndir og það vakti mikla lukku meðal gesta og skapaði skemmtilega stemningu.

Fermingardagurinn og veislan var frábær en við reyndum að hafa daginn eins afslappaðan og hægt var og njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum. 

Er  mikilvægt að gera kostanaðaráætlun að þínu mati?

Já það skipti mig máli að setja það niður hvernig veislu við vildum halda og hvað það kostaði. Við byrjuðum að spara fyrir veislunni ári áður en hún var haldin. Við höfðum ekki aðstöðu heima til þess að hafa veisluna þar og ákváðum að kaupa veitingar til þess að létta undir með okkur við veisluhöldin.

 Hvað skiptir mestu máli því tengt?

Að setja niður helstu kostnaðarliði og áætla kostnað við þá. Það getur verið mjög misjafnt hvað fermingarveislur kosta enda þarf að taka það inn í reikninginn hvað er boðið uppá og hvar veislan er haldin. Síðan þarf auðvitað að gera áætlun í samræmi við það fjármagn sem maður hefur til þess að halda fermingarveislu. Gott er líka að nota kostnaðaráætlunina við að forgangsraða hvað skiptir máli og hvað það er sem fermingarbarnið vill leggja áherslu á.

Hér er dæmi um kostnaðaráætlun fyrir fermingarveislu:

Tékklisti fyrir fermingu

2018-03-25 17.36.56

 Hvað getur þú sagt mér um Draumabók?

Draumabók er hugmynd og draumur sem ég ákvað að láta verða að veruleika. Draumabók varð til hjá mér og yngri dóttur minni Hrafnhildi Elsu á meðan hún þurfti að vera heima í veikindaleyfi í langan tíma eftir slys og við þurftum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera heima á meðan hún komst ekki í skólann. Í Draumabók er hægt að skrifa niður drauma og hugmyndir sem auðveldar okkur að sjá draumana fyrir okkur myndrænt með því að teikna, lita og líma í bókina ljósmyndir og úrklippur. Í Draumabók eru nokkrir listar sem hægt er að fylla út eins og til dæmis Stóri draumalistinn þar sem hægt er að setja niður 100 drauma. Að mínu mati er enginn draumur of stór og ég segi það alltaf að draumarnir okkar rætast ef við trúum á þá.

Engin ein Draumabók verður eins þar sem eigandi hennar skapar myndrænt efni sjálfur til þess að sjá drauma sína fyrir sér og setja niður hugmyndir og markmið. Með bókinni fylgja skemmtilegir límmiðar sem ég hannaði sjálf og á þeim eru hvetjandi orð og setningar sem hægt er að líma í bókina. Bókin getur orðið eins konar minningabók en mitt markmið er að hver og einn búi til sína persónulegu Draumabók og leyfi hugmyndafluginu og sköpunargleðinni að njóta sín.

 Er þetta eina bókin sem þú hefur gefið út?

Ég gaf út Hamingjubók fyrir nokkrum mánuðum en hún er dagbók fyrir alla sem vilja hugsa vel um andlega og líkamlega heilsu. Í Hamingjubók getur þú skrifað niður daglega hvernig þér líður og hvaða tilfinningar þú upplifir. Þú getur skrifað niður hvað það er sem þú ert þakkát/ur fyrir og hver verkefni dagsins eru. Í dagbókina er einnig hægt að skrifa niður hreyfingu, næringu og svefn og þannig hefur þú yfirsýn yfir þína heilsu og getur sett þér markmið ef það er eitthvað sem þú vilt breyta eða gera betur. 

IMG_8292 3 

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

Fjölskyldan mín og að hafa góða heilsu.

Að eiga tíma með börnunum mínum og eiginmanni og skapa með þeim minningar er það sem gefur mér hamingju og lífsfyllingu. Það skiptir mig líka miklu máli að láta gott af mér leiða og starfa við það sem mér þykir skemmtilegt, skapandi og gefandi.

 Hvað mælir þú með að sleppa sem almennt er gert fyrir fermingar?

Ég mæli með því að fólk hafi ferminguna eins og það vill hafa hana með sínu barni. Þetta er dagur fermingarbarnsins og það á ekki að þurfa gera allt eins og aðrir eða fylgja einhverjum tískustraumum. 

IMG_0372

 Er eitthvað sem ætti að huga að á fermingartímabilinu sem er vanalega ekki gert?

Ef ég ætti að gefa einhver ráð út frá minni reynslu er að fá eins mikla aðstoð og hægt er frá fjölskyldu og vinum við undirbúning eða borga fyrir þjónustu eins og aðstoð í veislunni og þrif. Þetta er stór dagur í lífi fermingarbarnsins og fjölskyldunnar og ég held að enginn njóti sín vel á fermingardeginum ef álagið hefur verið of mikið rétt fyrir stóra daginn. Ég hef lært af reynslunni í gegnum tíðina og mun líklega aldrei gleyma undirbúningi fyrir eins árs afmæli frumburðarins þar sem ég var að byrja að baka tilraun númer þrjú af afmæliskökunni klukkan tvö um nótt daginn fyrir afmælisveisluna sjálfa. Allt átti að vera svo fullkomið og ég gerði auðvitað allt sjálf. Í dag hika ég ekki við að kaupa tilbúnar veitingar og aðstoð til þess að auðvelda mér lífið og njóta betur í veislunni sjálfri.

IMG_1052_Fotor_Fotor 

 Hlutir eins og ferming er leið fyrir fjölskylduna að koma saman, leggur þú áherslu á leiki eða eitthvað þannig í veislum?

Í rauninni bara að skapa stemningu þar sem fermingarbarninu og gestunum líður vel. Í fermingu Bryndísar Ingu vorum við með kort á borðunum með myndum af henni sem við settum á borðin, en inn í kortin gátu gestirnir skrifað kveðju eða heilræði til hennar.

Mér finnst það skipta miklu máli að huga að smáfólkinu sem kemur í veislur en við vorum með litlar litabækur og liti fyrir krakkana til að taka á borðin til sín sem stytti þeim stundir í veislunni og það var mjög vinsælt hjá þeim að kíkja á poppbarinn og sækja sér popp en það getur verið erfitt fyrir börn að bíða eftir því að mega fá sér að borða og þá er poppið snilld til þess að stytta biðina.

 Hvernig veitingar er gaman að bjóða upp á í veislum sem þessum að þínu mati?

Það sem fermingarbarninu og fjölskyldu þess langar að bjóða uppá! Eitt það skemmtilegasta við fermingarveislur er hvað þær eru fjölbreyttar og misjafnar eins og þær eru margar. Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar fermingarbarnið hefur skoðanir á því hvað á að bjóða uppá eins og uppáhaldsmatinn sinn eða kökuna.

IMG_1024_Fotor 

Hvaðan kemur áhugi þinn á eldamennsku og veisluréttum

Ætli hann komi ekki bara út frá því að ég hef mikla ástríðu fyrir góðum mat og kökum og finn ákveðna útrás fyrir sköpunargleðina með því að búa til mínar eigin uppskriftir. Það er ákveðin hugleiðsla fyrir mig að elda og baka og mér finnst það mjög skemmtilegt. Að halda veislur er ákveðið áhugamál og mér finnst fátt skemmtilegra en að hugsa um liti, blóm, þema, skreytingar og skipuleggja hvaða veitingar ég ætla að bjóða uppá í næstu veislu. Ég deili þessu áhugamáli mínu svo með öðrum á heimsíðunni minni www.bjargeyogco.com. 

Ég las á síðunni þinni að þú hafir upplifað áföll og veikindi sem hafa fengið þig til að hugsa lífið öðruvísi – getur þú sagt mér hvað gerðist hjá þér?

Já ég hef upplifað áföll í lífinu sem höfðu bæði áhrif á mína andlegu og líkamlegu heilsu. Auk þess þá hugsaði ég ekki nógu vel um sjálfa mig og setti fjölskylduna og vinnuna í fyrsta sæti. Eftir langvarandi álag og veikindi þá missti ég heilsuna og þurfti að byggja mig upp frá grunni eftir að hafa hreinlega örmagnast.

Hvernig byggðir þú upp þína eigin heilsu og hverjir hjálpuðu þér mest í því?

Ég fór í gegnum mikla sjálfsvinnu og endurhæfingu. Það sem hjálpaði mér mest var að læra að setja sjálfa mig og heilsuna í fyrsta sæti því ég vil vera til staðar fyrir börnin mín og fjölskylduna en það get ég ekki gert nema hafa heilsu tll þess. Ég byrjaði að skrifa daglega í auða stílabók hvernig mér leið, hvaða tilfinningar ég væri að upplifa og hvað ég væri þakklát fyrir. Ég veitti því athygli hvað ég borðaði, hvaða hreyfingu ég stundaði og hvernig svefninn væri. Ég tók alla þessa þætti í gegn hjá mér, en með því að setja lítil markmið í einu og gefa mér góðan tíma til þess að breyta algjörlega um lífsstíl lærði ég að elska sjálfa mig skilyrðislaust og öðlaðist betri heilsu. 

131C8AB1-62AB-4D21-82F3-910E3FA0EF77

Þessi dagbók fylgdi mér í mörg ár og varð svo að Hamingjubók sem ég gaf út í fyrra. Það hjálpaði mér ótrúlega mikið að læra að gefa sjálfri mér tíma fyrir mig og heilsuna mína, því á meðan ég hef heilsu get ég unnið að skapandi verkefnum, látið draumana mína rætast og hugsað vel um þá sem mér þykir vænt um. Ég vildi að aðrir myndu njóta góðs af minni reynslu af því að öðlast betri heilsu og lífsgæði með sjálfsvinnu og því gaf því út Hamingjubók til þess að aðrir gætu nýtt sér hana, bæði í forvarnarskyni til þess að hugsa vel um líkama og sál og einnig fyrir þá sem þurfa að byggja sig upp og vilja betri heilsu og líðan.

Verkefni lífsins koma til allra að margra mati, samt erum við eitthvað svo vanmáttug fyrir því. Mætti kenna þetta atriði betur í skólum landsmanna að þínu mati? Kannski til fermingarbarna?

Já við megum alltaf bæta okkur í því að ræða það opinskátt við börnin okkar um að lífið er allskonar og það er ekki alltaf auðvelt. Það skiptir miklu máli að við leyfum börnum að upplifa allar tilfinningar, líka þær sem eru erfiðar eða sárar og að þau upplifi samþykki fyrir því að tjá sig um sína líðan og fái að vera þau sjálf.

Ég veit það sjálf sem foreldri þriggja barna að það er auðvelt að spyrja hvernig var í skólanum í dag? En kannski er stundum betra að spyrja, hvernig leið þér í skólanum í dag?

Fermingarbörn eru á aldri þar sem þau eru að læra á sjálfa/n sig, líkaminn breytist, þau upplifa kannski að áhugamálin séu að breytast og þau mótast sem einstaklingar. Það er mikilvægt hlutverk okkar foreldra, skóla og samfélagsins í heild sinni að leyfa þeim að vera þau sjálf, hafa frelsi til þess að tjá sig svo þeim geti liðið vel og látið alla sína drauma rætast.

Hvar er hægt að skoða og kaupa bækurnar þínar? 

Ég er með vefverslun www.bjargeyogco.is þar sem hægt er að kaupa Hamingjubók og Draumabók og fá þær sendar heim, einnig fást þær í verslunum Lín Design á Smáratorgi, í Kringlunni og á Glerártorgi á Akureyri.

2C182ED9-D916-4676-9765-6BD1ABBA51B1

Undirskrift Bjargey

 

 

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s