
Ég hef bakað töluvert magn af skinkuhornum í gegnum tíðina, þau eru bara svo góð! En ég ætla að deila með ykkur minni uppáhalds uppskrift.
Deigið:
- 1 kg. hveiti
- 220 gr. smjör
- 2 msk. sykur
- 500 ml. mjólk
- 8 tsk. þurrger
- 1 tsk. salt
- 1 egg til penslunar
Fylling:
- 2 dósir beikonsmurostur
- Niðurskorin skinka
Aðferð:
Setjið hveiti, sykur, salt og þurrger í hrærivélaskál. Bræðið smjörið við vægan hita og bætið svo mjólkinni útí. Hitið blönduna þannig að hún sé vel volg en alls ekki of heit. Hellið svo yfir þurrefnin og hnoðið í hrærivélinni. Þegar deigið er tilbúið er hægt að byrja strax að móta hornin, það þarf ekki að hefa deigið en það má ef þú vilt.
Skiptið deiginu í 4 hluta. Hnoðið og fletjið út hvern hluta fyrir sig, skerið með pizzahníf í 8 hluta. Setjið fyllinguna fyrir miðju á hverjum þríhyrning. Rúllið deiginu svo upp og mótið hornin, penslið með egginu og setjið á bökunarplötu. Bakið við 190-200 gráður í um 10 mínútur, en fylgist vel með því ofnar geta verið mismunandi, hornin eru tilbúin þegar þau hafa stækkað og eru orðin fallega gyllt.
Auðvelt er að frysta hornin, mér finnst þæginlegt að setja slatta af þeim í frysti og eiga til að hita upp þegar það koma gestir eða til að gefa krökkunum í nesti í skólann.
Njótið vel!