
Nú fer að líða að fermingum og margir að skipuleggja og leita að hugmyndum fyrir stóra daginn. Fyrir tveimur árum fermdist Bryndís Inga elsta dóttir okkar og við héldum fermingarveislu í sal og buðum upp á snittur, smárétti og kökuhlaðborð. Fermingardagurinn hennar var yndislegur og veislan mjög skemmtileg.
Það er ekki langt í næstu fermingu í okkar fjölskyldu, en Hrafnhildur yngri dóttir okkar fermist eftir eftir ár, vorið 2021. Við mæðgur erum byrjaðar á hugmyndavinnu fyrir fermingarveisluna, hvaða liti hún vill hafa í skreytingum og hvaða veitingar við munum setja á veisluborðið.
Það er að mörgu að huga þegar kemur að skipulagningu á fermingarveislu og ég ætla að deila með ykkur nokkrum atriðum sem mér finnst gott að hafa í huga við skipulag og undirbúning.
Gestalisti
Staðsetning – salur
Veitingar
Kostnaðaráætlun
Skreytingar
Boðskort
Föt og hárgreiðsla
Myndataka
Kerti, gestabók, servíettur, sálmabók, kortakassi
Gestalisti
Í upphafi skipulagningar er gott að gera gestalistann. Þá er hægt að sjá fyrir sér áætlaðan fjölda gesta og velja staðsetningu fyrir veisluna hvort sem það er í heimahúsi eða í sal. Marga sali þarf að bóka langt fram í tímann svo ég mæli með því að gera það um leið og dagsetning liggur fyrir. Þegar salir eru skoðaðir er gott að fá allar upplýsingar um það hvað er innifalið varðandi þjónustu og þrif. Einnig er gott að fá að vita hvenær þú færð salinn afhentan til þess að geta skreytt, dekkað upp borðin og borið fram veitingar.
Þegar kemur að því að ákveða veitingar í fermingarveisluna er gott að skoða hvernig eldhúsaðstöðu salurinn býður uppá ef veislan er haldin í sal. Stundum er ekki aðstaða til þess að hita mat og þá er ekki gott að vera með veitingar sem þarf að hita áður en þær eru bornar fram. Einnig er gott að skoða hvort hægt sé að geyma veitingar í kæli fyrir veisluna ef þess þarf.
Veitingar
Fermingarveislur eru eins fjölbreyttar og þær eru margar sem er það skemmtilega við þær og margir kjósa að leyfa fermingarbarninu að velja veitingar sem boðið er uppá. Algengt er að bjóða upp á smárétti sem geta verið mjög fjölbreyttir og þá er gott að miða við að fólk sé að borða um 12-14 bita á mann þegar magn er áætlað. Það er að sjálfsögðu meðaltal, sumir borða fleiri á meðan aðrir borða færri.
Við buðum upp á margskonar snittur í síðustu fermingu frá Tertugalleríi Myllunnar – laxa, vegan, tapas skinku, hvítlauks hummus og roastbeef. Snitturnar voru hver annarri betri og við vorum virkilega ánægð með gæðin og bragðið. Við vorum einnig með kjúklingavængi frá Tokyo Sushi og litlar kjötbollur sem við gerðum sjálf og einnig brauðtertur ásamt kökuhlaðborði frá Tertugalleríi Myllunnar.
Það magn af veitingum sem kláraðist í 120 manna veislu hjá okkur var:
700 snittur
300 kjúklingavængir
300 litlar kjötbollur
Það gerir um 11 bita á mann af smáréttunum og svo brauðtertur, kransabitar, tertur og kökur. Það sem kláraðist af tertuhlaðborðinu hjá okkar var:
Tvær stórar 35 manna brauðtertur
Fermingarterta 40 manna
Kransakaka
50 kransabitar
Súkkulaðiterta 40 manna
Tvær franskar súkkulaðitertur
Tvær marengstertur
40 bollakökur
Það er gott að hafa í huga varðandi veitingarnar að ef maður ætlar að baka sjálfur eða með aðstoð vina og ættingja er alltaf gott að byrja tímanlega og setja í frysti. Einnig ef maður ætlar að panta veitingar að gera það tímanlega því til dæmis Tertugallerí Myllunar lokar fyrir pantanir á ákveðnum dögum ef þeir geta ekki afgreitt meira magn þann dag. Margar veisluþjónustur anna ekki eftirspurn á fermingartímabilinu og það væri leiðinlegt að lenda í því að ákveða einhverjar veitingar en ekki geta fengið þær afgreiddar ef maður er of seinn að panta.
Kostnaðaráætlun
Ég myndi alltaf mæla með því að gera kostnaðaráætlun. Við upphaf skipulagningar er þá hægt að fara yfir áætlaðan kostnað við hvern lið fyrir sig og taka síðan saman áætlaðan heildarkostnað. Ég mæli líka með því að byrja spara fyrir fermingarveislunni að minnsta kosti ári fyrir veisluhöldin en það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hvers og eins hvað hentar í þeim efnum.
Hér er dæmi um kostnaðaráætlun með skálduðum tölum, en engin ein kostnaðaráætlun verður eins þar sem engin ein fermingarveisla er eins og gestafjöldi ekki sá sami. Það er líka mjög misjafnt hvaða veitingar eru í boði og þar af leiðandi er engin föst tala varðandi verð á veitingum. Sumir gera veitingarnar sjálfir á meðan aðrir kaupa tilbúið. Þetta fer bara allt eftir áhuga, tíma og hvað hentar fólki varðandi veitingar í veislunni.
Verð á veislusölum er til dæmis mjög misjafnt og sumir hafa tækifæri til að halda veislu í heimahúsi eða hafa aðgang að ódýrum og jafnvel ókeypis veislusölum. Stundum er hægt að fá hluti lánaða í stað þess að kaupa nýtt og ef þú hefur einhvern til að aðstoða við þjónustu í veislunni gæti verið hægt að sleppa við kostnað þar.
Dæmi um kostnaðaráætlun miðað við 120 manna veislu í sal með aðkeyptum veitingum – þú getur bætt inn eða tekið út til að gera þína eigin:
Fermingarfræðsla, ferming og fermingarferðalag: 25.000 kr.
Salur: 80.000 kr.
Þjónusta í sal, þrif og dúkar: 50.000 kr.
Skreytingar: 20.000 kr.
Fatnaður: 25.000 kr.
Myndataka: 35.000 kr.
Hárgreiðsla: 10.000 kr.
Veitingar: 350.000 kr.
Nammibar: 10.000 kr.
Boðskort, gestabók, sálmabók, kortakassi, servíettur: 30.000 kr.
Samtals: 635.000 kr.
Fermingargjöf er síðan ekki inn í þessarri kostnaðaráætlun en þú getur bætt henni við miðað við áætlaðan kostnað í hana.
Skreytingar
Fyrir fermingarveislu dótturinnar fyrir tveimur árum þá föndruðum við skreytingar sjálfar að mestu leyti og keyptum eitthvað tilbúið skraut líka. Á borðunum vorum við með litla sprittkertastjaka sem ég keypti í IKEA og límdi á blúnduborða sem ég fékk í Föndru. Ég spreyjaði krukkur með Rosegold spreyji frá Slippfélaginu og setti í þá gerviblóm og gerði á þá slaufu með silkiborða sem ég fékk í Söstrene Grene. Kortakassinn er heimatilbúinn úr hringlaga pappagjafaöskju sem ég spreyjaði með sama spreyji og krukkurnar.
Við völdum nokkrar skemmtilegar myndir af fermingarbarninu og prentuðum á kort hjá Prentagram og röðuðum þeim á borðin. Við settum penna á borðin svo fólk gat skrifað inn í kortin kveðju til fermingarbarnsins ef það vildi.
Fermingarkertið keyptum við hjá nunnunum í Karmel klaustrinu í Hafnarfirði ásamt sálmabókinni sem þær skreyttu svo fallega. Við gerðum líka myndavegg og skreyttum með blöðrum og pom poms. Við notuðum mikið af skrauti sem til var heima eins og blómavasa, gerviblóm, kerti og kertastjaka. Gestabókina fengum við hjá BH hönnun ásamt boðskortunum í ferminguna sem ég mæli með að senda út að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir fermingu. Það er líka gott að gera viðburð á Facebook og bjóða í veisluna þar, þá er auðvelt að sjá hverjir ætla að mæta.
Það er auðvelt fyrir mig að missa mig í skreytingum þar sem það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, en mér fannst ég svolítið toppa sjálfa mig þegar ég eyddi tveimur kvöldstundum í að líma fallega merkta miða frá BH hönnun yfir kókflöskur og setja á þær gyllt papparör og silkiborða. En fallegar voru þær!
Hárgreiðsla og fatnaður
Dóttir mín var svo heppin að eiga dásamlega hæfileikaríka frænku sem greiddi henni og farðaði, en ég mæli með að panta tíma í slíkt tímanlega ef þið ætlið ykkur á hárgreiðslustofu.
Myndatöku þarf einnig að panta með góðum fyrirvara en margir fara líka í myndatöku á öðrum degi en fermingin sjálf.
Bryndís Inga valdi sér fallegan blúndukjól fyrir ferminguna og Nike strigaskó sem við keyptum um tveimur mánuðum fyrir stóra daginn. Fermingarfötin er gott að kaupa tímanlega en alls ekki of löngu fyrir fermingardaginn sjálfan því krakkar á þessum aldri stækka hratt.
Nammibar var á óskalista dömunnar fyrir veisluna og það fannst okkur setja skemmtilegan svip á veisluna og vekja mikla lukku meðal gesta. Við notuðum allskonar krukkur sem við áttum til heima og settum í þær nammi ásamt gylltum súkkulaðikossum sem voru merktir í sama stíl og boðskortin, gestabókin og kókflöskurnar. Skeiðarnar fengum við í Partýbúðinni og svo skreyttum við krukkurnar með silkiborðum og blómum. Við höfðum líka popp á nammibarnum sem hentaði vel fyrir litla krakka sem höfðu kannski ekki náð aldri í að fara beint á barinn!
Við settum upp blöðrur og silfurborða á einn vegg í veislusalnum til þess að búa til skemmtilegt svæði til að taka myndir. Það sló algjörlega í gegn og margir nýttu sér tækifærið til þess að taka myndir af sér með fermingarbarninu. Við vorum ekki með neinn búnað til að taka myndir eða selfie ljós en það getur verið sniðugt að leigja svoleiðis græjur ef fólk hefur áhuga á því. Blöðrurnar og bakgrunnurinn sem við notuðum var úr Partýbúðinni.
Eitt af því sem mér finnst oft gleymast þegar fólk heldur veislur er að huga að börnunum sem koma í veisluna. Við vorum með litlar litabækur og liti í krukkum sem krakkarnir gátu tekið á borðið til sín og litað og teiknað. Það vakti mjög mikla lukku en einnig er hægt að útbúa smá krakkahorn með leikföngum ef aðstaða er til þess.
Ég vona að þessi samantekt sé gagnleg ef þú ert að skipuleggja fermingarveislu, en mestu máli skiptir auðvitað að hafa gaman og njóta samverunnar á þessum stóra degi. Ef það eru einhver ráð sem ég get gefið þá er það að gefa sér nægan tíma í undirbúning og vera tímanlega með allt tilbúið sem þarf að græja fyrir veisluna. Einnig að fá hjálp við undirbúninginn, og aðstoð á fermingardaginn sjálfan, en við vorum með ómetanlegan stuðning fjölskyldu á fermingardaginn sem aðstoðaði við að skreyta salinn, sækja veitingar og bera á borð. Nú er eitt ár í næstu fermingu svo það er ekki seinna vænna en að byrja að skipuleggja!