Útipottar fá nýtt útlit

Ég elska að gefa gömlum hlutum nýtt líf, en í gegnum tíðina hef ég frískað upp á allskonar húsgögn. Núna hins vegar tók ég gamla steypta útipotta og gaf þeim smá upplyftingu. Það tók alls ekki langan tíma og gjörbreytti útliti þeirra með litlum tilkostnaði.

Hér má sjá hvernig pottarnir litu út fyrir upplyftingu:

Ég byrjaði á því að fara í Slippfélagið og fá ráðleggingar um framkvæmdina og kaupa efnið í verkið.

Fyrsta skrefið var að hreinsa burtu sumarblómin sem voru búin að syngja sitt síðasta og ég þreif pottana með volgu vatni og smá uppþvottalegi. Leyfði þeim að þorna vel áður en ég byrjaði að grunna.

Ég notaði vatnsþynntan akrýlgrunn – Kópal Magna sem ég fékk í Slippfélaginu.

Ég fór eina umferð af grunni á pottana og leyfði þeim að þorna og standa í 6 klst. áður en ég málaði þá í litnum sem ég hafði valið.

Næst fór ég eina umferð yfir pottana með gráum lit – Hjörva 30 – utanhús akrýlmálningu og leyfði þeim að þorna aftur í 4 klukkutíma.

Liturinn sem ég notaði er númer: NCS S 8000-N

Ég fór svo aðra umferð með málningunni og leyfði þeim að standa í nokkra klukkutíma inni áður en ég fór með þá út í garð og setti í þá fallegt haustlyng.

Ég er virkilega ánægð með útkomuna en það er alltaf jafn skemmtilegt að geta nýtt gamla hluti og gefið þeim smá upplyftingu í stað þess að kaupa nýtt.

Það kom mér líka á óvart hversu einfalt þetta var – þrífa, grunna og mála. Tilbúið!

Pottarnir njóta sín vel úti á palli núna með haustplöntunum mínum.

Sjáið þessa dásamlegu litadýrð!

Leave a comment