
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af bestu kanilsnúðum í heimi. Eva frænka mín kenndi mér að baka þessa snúða þegar ég var lítil og hafa þeir verið í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum síðan.
Uppskrift
- 600 gr. hveiti
- 125 gr. sykur
- 125 gr. smjörlíki
- 5 tsk. þurrger
- 2 egg
- 3 tsk. kardimommudropar
- 3 dl. mjólk
- Fyllingin er bráðið íslenskt smjör og kanilsykur
Aðferð
Blandið saman í hrærivélaskál öllu nema smjörlíkinu og mjólkinni. Bræðið smjörlíkið í potti og bætið mjólkinni saman við þannig að það verði volg blanda. Hrærið rólega og hellið smjörlíkinu/mjólkinni saman við. Hnoðið svo kröftuglega í hrærivélinni í ca. 1 mínútu. Deigið verður frekar blautt og teygjanlegt, stráið hveiti yfir og leyfið að hefast í 45 mín.
Hnoðið svo uppúr hveiti og skiptið deiginu í 2 helminga. Fletjið annan helminginn út fyrst og bræðið smjörklípu sem þið hellið yfir deigið. Stráið vel af kanilsykri yfir og rúllið upp. Skerið svo í c.a. 12 bita og setjið á bökunarplötu. Bakið við 180 gráður í 15-20 mín.
Það er ótrúlega gott að bræða rjómasúkkulaði og setja yfir snúðana.
Verði ykkur að góðu!