Hugur og hjarta

Ég verð að segja að síðastliðin tvö ár hafa verið ótrúlega lærdómsrík fyrir mig og ég held hreinlega að ég hafi lært meira um sjálfa mig á þessum tveimur árum heldur en öllum öðrum árum samanlagt. Án þess að gera lítið úr neinum lærdómi því lífið er vegferð og við erum sífellt að læra, vaxa og dafna.

Það er svo magnað að sjá og upplifa hvað gerist þegar ég leyfi því að gerast sem á að gerast…

Elsku líf – vertu velkomið með allri gleðinni, sorginni, verkefnum og áskorunum.

Þegar ég komst í hreina tengingu við sjálfa mig, hug og hjarta gerðust töfrarnir. Það tók mörg ár fyrir mig að ná þessari tengingu og það var sjálfsvinna sem ég er svo þakklát fyrir að hafa leyft mér að fara inn í. Það var erfitt og ég get ekki lýst því hversu oft mig hefur langað að stimpla mig út og segja ég get ekki meir. Ekki meiri sársauka.

Ég hef fundið það hversu eflandi og styrkjandi það er að horfast í augu við erfiðar tilfinningar og leyfa mér að upplifa. Leyfa mér að finna og segja við sársaukann ég sé þig ég skil hvaðan þú ert að koma og ég er tilbúin að samþykkja án þess að dæma.

Að viðhalda hreinni tengingu er og verður alltaf áskorun. Og það er skemmtilegt verkefni því að vera samkvæmur sjálfum sér, heiðarlegur og að elska sig skilyrðislaust er ólýsanlegt frelsi.

Vera. Vera til staðar. Viðurkenna það sem er.

Það sem fór að gerast hjá mér þegar ég hætti að setja athyglina á að laga eitthvað sem ég taldi vera brotið og sjá fegurðina í öllu því sem ég taldi vera bresti eða ókosti fóru töfrarnir að gerast. Það sem ég taldi mína helstu veikleika hafa síðan í raun reynst vera mjög miklir styrkleikar.

Því þegar ég er tengd við hjartað mitt og stend með sjálfri mér – gerast allir þeir hlutir sem ég vil að gerist, ég næ markmiðum mínum, mér líður vel á líkama og sál og draumarnir rætast.

Ég horfi yfir síðastliðið ár og ég sé hugrekki, kærleika, traust og frelsi.

Ég leyfði mér að vera ég sjálf.

Ég trúði á draumana mína, að mínar hugmyndir og hugsjón væru þess virði.

Ég leyfði mér að taka áhættu.

0E7A5E30-7CB4-4ABB-93E2-17666EF25E25

Það var ekkert alltaf auðvelt og ég þurfti alveg að rökræða við sjálfa mig nokkrum sinnum að það væri nú kannski bara betra að ég væri ekki að vinna svona mikið, ég ætti nú ekkert að vera þvælast út um allan heim með bókina og minn boðskap – hver myndi líka nenna að hlusta á konu frá Íslandi sem örmagnaðist og tók ábyrgð á eigin heilsu.

Konu sem ruggaði bátnum svo hressilega að hún vissi ekki hvort sjóveikin yrði þess virði fyrr en hún synti í land.

Það væri kannski bara betra að vera meira heima að þvo þvott og hugsa um alla aðra í fjölskyldunni sem þyrftu á mér að halda. Þessar hugsanir voru þarna og samviskubitið reyndi að komast upp á yfirborðið.

En það var fullt af fólki sem vildi hlusta. Það var uppselt á öll námskeiðin og ég hélt fyrirlestra fyrir mörg hundruð manns. Ég var beðin um að kynna Hamingjubók og segja mína sögu. Mér var boðið til Glasgow, Brussel, Ítalíu, Barcelona og Kaupmannahafnar og ég var beðin um að halda fyrirlestra um mína vegferð, taka þátt í málstofum og ráðstefnum með heilbrigðisstarfsfólki og stjórnmálamönnum.

Ég hef alltaf sagt börnunum mínum að þau geti orðið allt sem þau ætla sér. Það sem ég hef lært á minni vegferð er að með því að sýna þeim hvernig ég læt ekkert stoppa mig er ég á sama tíma fyrirmynd. Ef ég get allt sem ég ætla mér þá geta þau það líka. Svona fyrir utan það hversu gott þau hafa haft af því að læra að þvo sinn eigin þvott…

 

Við eigum öll einstaka sögu. Mín saga hefur hjálpað mörgum að sjá ljós í myrkrinu og finna styrk til að taka skrefið í átt að skilyrðislausri ást.

Um leið og ég var tilbúin að opna mig og gaf minni sögu rödd gerðust töfrar. Í tengingu við hjartað fann ég mig. Ég vissi ekki einu sinni að ég hefði verið týnd fyrr en ég horfði í augun á mér og elskaði án þess að dæma.

Undirskrift Bjargey

Leave a comment