
Ég átti alltaf eftir að setja uppskriftina góðu að Humarsalatinu með hvítvíns- og eplasósunni hérna inn á bloggið en ég gaf þessa uppskrift í sjónvarpsþættinum Fasteignir og heimili á Hringbraut fyrr í sumar þegar hún Sjöfn kom og heimsótti mig á pallinn í sól og blíðu.
Hér getið þið horft á þáttinn í heild sinni:
Fasteignir og heimili á Hringbraut
Humarsalat í hvítvíns- og eplasósu
- 1 kg stór humar, látið þiðna fyrir eldun
- klettasalat
- 3 hvítlauksgeirar
- íslenskt smjör
Hvítvíns- og eplasósa
- 3 epli, skorin í bita
- 1 dl. hvítvín
- 2 dl. rjómi
- 1 1/2 tsk. dijon sinnep
- 2 msk. fljótandi humarkraftur
- salt og pipar eftir smekk
Meðlæti í salatið
- klettasalat
- spínat
- avókadó
- pistasíukjarnar
- græn epli
- olífuolía
- himalaya salt
Byrjið fyrst á sósunni. Gott að nota stóra pönnu og byrja á því að setja eplin í bitum á miðlungs hita með klípu af íslensku smjöri. Setjið svo hvítvínið útá og leyfið þessu að malla þar til eplin hafa brúnast aðeins og eru orðin frekar mjúk.
Bætið síðan saman við rjómanum, dijon sinnepi og humarkraftinum og leyfið sósunni að krauma þar til hún verður þykk og djúsí. Hellið sósunni í skál og maukið hana með töfrasprota þannig að hún verði silkimjúk. Geymið hana í skálinni.
Setjið vel af íslensku smjöri og 3 smátt skorna hvítlauksgeira útá pönnuna og hækkið hitann. Takið humarinn úr skelinni og setjið á vel heita pönnuna. Steikið í stutta stund þar til hann er fulleldaður, um það bil 3 mínútur hvora hlið. Setjið næst sósuna aftur út á pönnuna og smakkið til, getið sett salt og pipar eða bætt við rjóma ef þarf, allt eftir ykkar smekk.
Þegar sósan er tilbúin er ekkert annað eftir en útbúa salatið en humarinn er borinn fram með fersku salati, með spínati, avókadó, pistasíukjörnum og grænum eplabitum sem sett er í stóra skál eða á disk. Smá ólívuolía sett yfir ásamt örlitlu himalaya salti.
Humarsalatið er síðan borið fram með snittubrauði, grænu pestói og þeyttu smjöri og ísköldu hvítvíni fyrir þá sem það kjósa.
Njótið vel!