
Af hverju ertu alltaf svona ógeðslega happý?
Um daginn fékk ég þessa spurningu frá lesanda. Þessi spurning fékk mig til að hugsa. Hún fékk mig til að hugsa um það hvers vegna sumum finnst allt erfitt og leiðinlegt á meðan öðrum finnst lífið almennt skemmtilegt og sjá það jákvæða í stað þess neikvæða.
Til að svara spurningunni þá er ég í fyrsta lagi ekkert alltaf ógeðslega happý.
Ég hef farið í gegnum dimma dali og upplifað mikinn sársauka. Sársauka í hjartanu og verki í líkamanum. Ég vildi ekki dvelja þar, því það var vont. Ég vildi eitthvað meira og betra. Ég vildi frelsi. Að vera frjáls undan erfiðum hugsunum, verkjum og vanlíðan.
Ég valdi vellíðan og fór í ferðalag.
Það var ekki alltaf auðvelt, það komu tímar sem ég hélt að ég myndi hætta við og fara til baka. Ég valdi ekki sjúkdómana sem ég er að glíma við, en ég get valið hvernig viðhorf mitt er til þeirra og hvort ég takist á við áskoranirnar sem þeir færa mér daglega með jákvæðu hugarfari eða með neikvæðni og biturð.
Mér leið eins og ég stæði á fjallstindi og ég gat valið um að taka áhættu, stökkva og fara í frelsið eða labba bara niður aftur og vera í myrkrinu.
Fyrst ákvað ég bara að vera.
Vera hér og nú og til staðar fyrir sjálfa mig. Ég þurfti ekki að stökkva fyrr en ég væri tilbúin.
En það sem gerðist þegar ég var til staðar og hlustaði á hjartað mitt þá fékk ég svörin sem ég leitaði að.
Ég get notað minn innri styrk til að gera allt sem mig dreymir um.
Enginn draumur er of stór. Ég get náð betri heilsu, fengið draumastarfið og notið lífsins með þeim sem mér þykir vænt um.
Ég ætla að segja þér leyndarmál.
Þú getur breytt öllu sem þú VILT breyta.
Við getum breytt öllu sem við viljum með jákvæðni og trú á eigin getu.
Ef þú getur hugsað það – þá getur þú það!
Jákvæðar hugsanir og væntumþykja í garð okkar sjálfra auðveldar okkur að gera þær breytingar á lífinu sem við viljum.
Hvers vegna?
Ef okkur þykir vænt um okkur sjálf viljum við að sjálfsögðu koma vel fram við okkur og hugsa vel um líkama og sál.
Því meiri innri styrk sem við höfum, þeim mun auðveldara er að standa við sett markmið. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að efla okkar innri styrk og setja athyglina á styrkleika okkar og hvernig við getum notað þá okkar til að gera líf okkar betra.
Þú getur valið hamingju.
Það er ALLTAF þitt val.
Enginn annar en þú sjálf/ur gerir þig hamingjusama.
Það eykur hamingju okkar að umvefja okkur fólki sem gefur okkur gleði og ást en hamingjan kemur alltaf að innan, beint frá hjartanu.
Það er ekki hægt að kaupa sér hamingju. Þú færð hana heldur ekki að gjöf nema þú ákveðir að gefa þér hana sjálf/ur.
Það eina sem ég raunverulega á er ég sjálf.
Það eina sem ég raunverulega þarf er ég sjálf.
Sama hvort það gengur vel eða illa er ég sú eina sem ég get raunverulega treyst á. Ég get fengið styrk, kærleika og allt sem ég þarfnast frá sjálfri mér.
Ég þarf ekki að bíða eftir því að einhver annar gefi mér það sem ég þarf.
Þakklæti fylgir ofurkraftur
Að vera þakklát, fyrirgefa og vera til staðar fyrir sjálfa þig og aðra hér og nú gefur þér ofurkrafta. Ef það heldur ekkert aftur af þér getur þú allt sem þú ætlar þér.
Að dvelja í fortíðinni eða í neikvæðum tilfinningum heldur okkur föstum.
Frelsaðu hjartað þitt, það er val.
Gríptu tækifærið þegar það gefst!
Tækifæri eru til þess að grípa þau! Að hika er það sama og að tapa. Það er í lagi að taka áhættu. Mistök eru til að læra af þeim.
Gjafmildi gefur þér meira til baka en þú heldur!
Því meira sem þú gefur því meira færðu til baka. Þetta á við um kærleika og veraldlega hluti. Ég get sagt ykkur það að enginn varð fátækur af því að gefa svo mikið.
Það kostar ekkert að gefa bros eða hlýju en þú munt fá það margfalt til baka.
Ekki gleyma að gefa sjálfum þér ást og allt sem þú þarfnast.
Jákvæðni eykur líkurnar á að við náum markmiðum okkar!
Þú skapar þitt líf með hugsunum þínum og gjörðum. Jákvætt hugarfar hjálpar okkur að setja athyglina á það góða í lífi okkar.
Líðan okkar endurspeglar í raun hugarfar okkar og viðhorf.
Ef okkur líður vel og við erum í jafnvægi er auðvelt að takast á við hindranir eða áskoranir. En ef okkur líður illa og við erum í ójafnvægi er erfitt að takast á við hindranir og okkur finnst þær jafnvel óyfirstíganlegar. Þannig geta smámunir orðið að stórum vandamálum ef við erum neikvæð.
Hugarfar okkar hefur allt með það að gera hvort við séum hamingjusöm eða ekki.
Enginn getur gert þig hamingjusaman nema þú sjálfur.
Minntu sjálfan þig á það daglega að
þú ert fullkominn eins og þú ert.
Að upplifa sanna gleði, ást og hamingju er val.
Hvað ætlar þú að velja?
Glæný námskeið í Heilsuborg:
Heilsa og hamingja – þín leið!