Ítalía – Napolí – Capri

2D8BBB68-AF62-4270-A22D-344BA7ADAB1D

Ég var að koma heim eftir dásamlega vikudvöl á Ítalíu, en ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að fara til Napolí á vegum EASO ECPO – European Coalition for People Living with Obesity og halda fyrirlestur á ráðstefnu um mína vegferð að heilbrigðum lífsstíl.

Á ráðstefnunni voru prófessorar, læknar, rannsakendur og allskonar fagfólk sem vinnur að málefnum tengdum heilbrigði og sjúkdómum, þar með talið offitu sem er skilgreindur sem langvinnur krónískur sjúkdómur af WHO – World Health Organisation.

E6135180-12B5-4CC0-9418-DC19BF0BB9C9

Þegar ég fékk boð um að fara í þessa ferð var ég ekki lengi að ákveða að lengja dvölina og skoða mig aðeins um á Ítalíu. Ég hef farið þrisvar sinnum til Ítalíu áður, en aldrei komið til Napolí eða verið þar í kring svo það var tilvalið að nýta ferðalagið til þess að njóta í leiðinni.

IMG_7236

Ég dvaldi á hóteli við höfnina í Napolí og hafði útsýni til allra átta, þvílík fegurð á einum stað! Ítalía er engri lík þegar kemur að byggingarlist og það er stórkostleg upplifun að skoða allar fallegu stytturnar og byggingarnar í Napolí.

IMG_7465

Ótrúleg smáatriði og þvílík listaverk!

IMG_7468

Ég naut þess í botn að rölta um borgina, en ég viðurkenni þó að það var erfiðara en ég hélt að ganga um í 32 stiga hita og 65% raka, það er vel heitt í Napolí á þessum tíma árs.

IMG_7708

Ég var algjörlega heilluð af Galleria Umberto I byggingunni sem hönnuð var af Emanuele Rocco og byggð á árunum 1887-1891. Galleríið er verslunarmiðstöð með búðum og kaffihúsum en á efri hæðunum eru líka íbúðir og skrifstofur.

IMG_7773

Virkilega glæsileg bygging.

IMG_7668

Hversu falleg!

IMG_7681

Gólfið er eitt stórt listaverk….stjörnumerkin eru flísalögð í hring í miðjunni og að sjálfsögðu tók ég mynd af mínu stjörnumerki.

IMG_7679

Það er auðvelt að standa þarna inni í langan tíma og bara horfa.

IMG_7663

Áður en ég fór af stað í ferðalagið hafði ég frétt af því að besta pizza í heimi fengist í Napolí á hinum margrómaða stað L’Antiga Pizzeria da Michele.

IMG_7619

Þar sem ég er mikill pizzu aðdáandi gat ég ekki látið staðinn framhjá mér fara og beið í röð í tvo klukkutíma til þess að komast að, en röðin er alla daga allt árið um kring svo ég vissi vel af biðinni áður en ég kom á staðinn.

IMG_7650

Staðurinn er frægur fyrir það að Julia Roberts hafi borðað þar í myndinni Eat Pray Love og sést hérna fyrir neðan á neðstu myndinni til hægri með eigendum og kokkum staðarins við tökur á myndinni.

IMG_7652.jpg

Pizzan var geggjuð og ég skil það vel að hún hafi fengið tilnefninguna besta pizza í heimi! Ég gef henni 5 stjörnur af 5 mögulegum og já…biðin var þess virði!

IMG_7661

Ég fór lika í dagsferð til eyjunnar Capri sem tók ekki nema 50 mínútur að fara til með ferju frá höfninni í Napolí.

IMG_7820

Að koma til Capri er eins og að ganga inn í fallegt málverk. Þessir litir, ég meina hversu blár getur himinninn orðið!

IMG_7818

Fegurðin er engri lík!

img_7819.jpg

Ég get svo sannarlega mælt með ferð til Capri ef þið eruð að ferðast á þessum slóðum Ítalíu. Og frá Napolí er hægt að fara á Amalfi ströndina og til fallegra eyja allt í kring.

IMG_7808

Bella Ítalía!

IMG_7806

Ég er ennþá bara að meðtaka það að ég hafi eytt deginum þarna í síðustu viku…talandi um að draumar rætist!

IMG_7828

Napolí er æðisleg borg en hún er örugglega ekki allra – það er mikið af fólki, rusli, mikill hávaði, mengun og skítugar götur. Þrátt fyrir dásamlega fegurð er einnig hægt að sjá mikið af byggingum í niðurníðslu.

Ég held að það sé eitt af því sem mér fannst svo magnað við borgina, andstæðurnar og fjölbreytileikinn.

IMG_7482

Ég upplifði aldrei að ég væri ekki örugg þarna en ég fer líka einstaklega varlega þegar ég ferðast ein erlendis, það er bara þannig að maður fer ekki hvert sem er ein að kvöldlagi og það er aldrei of varlega farið.

IMG_7480

Það er eitthvað við þessar fallegu smábátahafnir, þær eru eitthvað svo dásamlegar!

858188E3-1A6B-4195-B4AB-649C6B0CE6C9

Á toppi þessa lúxus hótels hérna á myndinni að ofan – Eurostars Hotel Exelsior borðaði ég með ráðstefnugestum kvöldverð og ég verð að segja að útsýnið var gjörsamlega sturlað! Það var komið myrkur svo það var ekki hægt að taka góðar myndir en trúið mér…þetta var geggjað.

E490A042-E6A5-4711-87C1-E31C11B8DB32

Hótelið sem ég bókaði sjálf til að lengja dvölina á Ítalíu var heldur ekki af verri endanum, það heitir Grand Hotel Santa Lucia, og ég held bara að það sé fallegasta hótel sem ég hef nokkurn tímann gist á.

IMG_7095

Herbergið var glæsilegt með stórfenglegu útsýni. Hérna getið þið séð útsýnið að kvöldlagi yfir kastalann sem var beint á móti hótelinu.

IMG_7597

Þetta var útsýnið frá hótelherberginu mínu, ég fór mjög oft út á svalirnar bara til þess að horfa og njóta fegurðarinnar.

IMG_7591

Bellissimo!

IMG_7446 3

Það eru einhverjir töfrar þarna á Ítalíu, það er engin spurning.

IMG_7541

Algjör draumur…

5DE0005C-A5EE-47BD-B26B-96593938E553

Einn morguninn þegar ég var á rölti eftir strandlengjunni, sá ég þessar fallegu skútur og ákvað að stoppa til að taka mynd.

9EC99836-B394-46BB-ACC7-BD54921F7C22

Þegar ég ætlaði að taka myndina tók ég eftir því að það var búið að skrifa upphafsstafina mína á stein með hjarta í kring. Alveg ótrúleg tilviljun verð ég að segja því það var ekki búið að skrifa á neina aðra steina! Bara þennan eina stein og það voru mínir stafir – BI Bjargey Ingólfsdóttir.

Ég stóð þarna góða stund og horfði á steininn. Ég hugsaði hvaða grín er nú þetta! En ég ætla að túlka þetta þannig að stafirnir og hjartað séu skemmtileg skilaboð til mín.

Af hverju?

Síðastliðin ár hef ég lært að treysta á það sem hjartað mitt segir mér. Ég er með stórt hjarta og enn stærri drauma. Ég fæ oft allskonar hugmyndir og áður fyrr þorði ég ekki að framkvæma þær, var alltaf með einhvern fyrirvara á hlutunum. Að ég væri ekki nógu góð í hinu eða þessu til þess að láta verða af því og fann endalausar afsakanir til þess að eltast ekki við draumana. Mína drauma.

Í dag veit ég betur og þori að taka áhættur. Það hefði verið ótrúlega auðvelt að segja – nei takk… þegar mér var boðið að fara til Ítalíu og halda fyrirlestur á ensku um mitt líf og mína vegferð fyrir framan fullan sal af fólki sem ég hef aldrei hitt. Fólki sem eru sérfræðingar á sínu sviði.

En ég sagði já án þess að hika. Og auðvitað hugsaði ég eftirá hvað ég væri eiginlega búin að koma mér út í! Þetta var stór áskorun, en ég tók henni. Ég ákvað að fylgja hjartanu og eltast við draumana. Það er nefninlega þannig að ef maður hlustar á hjartað sitt þá vísar það manni veginn og þarna var ég komin alla leið til Napolí þar sem þessi skilaboð biðu mín.

Ég átti að fara í þessa ferð, hún var mín staðfesting á því að ég er að gera rétt.

Hlusta á hjartað mitt og eltast við draumana.

IMG_7505 2.jpg

Það sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri og ferðast alla leið til Napolí á Ítalíu.

Ótrúleg ferð í alla staði, ferðin sem ég átti að fara í til þess að fá staðfestingu á því að ég á að halda minni vegferð áfram…

IMG_7708

Borða – biðja – elska….og treysta!

IMG_7738

Undirskrift Bjargey

 

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s