Hverjir eru þínir draumar?

IMG_4364

Ég er 35 ára, er búin að vera í sambandi í 20 ár með mínum besta vini og sálufélaga. Við vorum ekki nema 15 ára þegar við byrjuðum að vera saman og spáðum lítið í framtíðina þá en vissum samt alltaf að vildum ekki án hvors annars vera. Tíminn leið, við fórum í menntaskóla og háskóla, eignuðumst 3 börn á 5 árum á meðan við vorum í námi, komum okkur upp heimili og lögðum hart að okkur í daglegu lífi til að láta allt ganga upp og láta drauma okkar rætast.

Það hefur ekkert alltaf verið auðvelt. Það er basl að mennta sig, vinna, ala upp börn og sjá um heimilið. Ég hef líka glímt við langvarandi veikindi og það getur verið mikið álag á alla fjölskylduna. Lífið er allskonar, suma daga er sól og sæla á meðan aðra daga er dimmt og kalt.

Tölfræðin segir okkur að um helmingur para skilja og mestar líkur eru á skilnaði fyrsta árið eftir að parið eignast barn. Engan er að undra, það tekur á að hugsa um ósjálfbjarga einstakling allan sólarhringinn, svefnlausar nætur, grátur, veikindi og mikil vinna. Fjárhagsleg ábyrgð og hvernig á að skipta verkum? Álag leiðir til bresta í sambandinu og kannski er orkan einfaldlega af of skornum skammti til þess að leita leiða til þess að sambandið gangi upp.

Aðrir skilja seinna, kannski eru börnin orðin stærri og aðstæður aðrar. Ástæðurnar geta verið margskonar, ólíkar skoðanir og áherslur á því hvernig lífið eigi að vera. Margir tala um að þroskast í sitthvora áttina og þar fram eftir götunum.

Ég hef oft verið spurð að því hver sé lykillinn að góðu sambandi. “Rífist þið aldrei?” “Eru alltaf bara rauðar rósir og rómantík?” “Hvernig farið þið að þessu?” Hahaha einmitt!  En jú við erum ennþá mjög ástfangin, viljum ekki án hvors annars vera og það er fullt af rósum og rómantík. En það er líka margt annað og við höfum oft rætt það hvað gerir samband okkar svona sterkt.

IMG_5050

Við erum bestu vinir og styðjum hvort annað í því sem við viljum taka okkur fyrir hendur. Ég hef minnkað við mig vinnu og tekið á mig ábyrgð á börnum og heimili á meðan hann var að klífa metorðastigann og ná sínum markmiðum á vinnumarkaði. Hann hefur sleppt verkefnum og tækifærum til þess að ég hafi haft tíma til að sinna mínu námi og vinnu. Við höfum stutt hvort annað til að ná okkar markmiðum og til að láta drauma okkar rætast. Þá þarf maður líka stundum að fórna einhverjum draumum líka, það er ekki hægt að gera allt á sama tíma – trúið mér ég hef reynt það!

En það er eitt sem ég myndi telja lykilatriði í okkar sambandi til þess að vera hamingjusöm og líða vel saman. Það er að við gleymum ekki sjálfum okkur. Við höfum aldrei gleymt því að vera við sjálf og við reynum ekki að breyta hvort öðru. Það getur bæði átt við stór atriði eða smá, hann vill horfa á Top Gear á meðan ég vil horfa á Fixer Upper, hann vill pizzu með pepperoni og lauk en ég með skinku og ananas. Hann vakir lengi og vaknar snemma, ég fer snemma að sofa og vakna seint. Hann horfir á bíómyndir með krökkunum en ég les fyrir þau, hann elskar að fara með þeim út í fótbolta á meðan ég elska að fara með þeim í sund.

Stærri atriðin sem ég á við eru að við höfum ólíkar skoðanir á lífinu sjálfu. Hann vill hafa mikið að gera, vinna mikið, vera með stór markmið og fara þangað hratt á meðan ég vil reyna að einfalda lífið, slaka á og njóta augnabliksins. En hvernig förum við þá að því að vera hamingjusöm saman?

Ég má vera ég og hann má vera hann.

Hann fer í vinnuferðir, ég fer í verslunarferðir. Hann fer að veiða, ég fer út með vinkonum. Ég ræð hvað er í matinn þegar ég elda, hann ræður þegar hann eldar. Við leyfum hvoru öðru að vera við sjálf. Við gerum líka mjög margt saman, ferðumst, förum út að borða, eyðum nánast öllum okkar frítíma saman með krökkunum, brjótum saman þvottinn á kvöldin og spjöllum. Við erum dugleg við að fá pössun þegar við viljum komast út bara við tvö.

Ég myndi segja að ef maður er ekki hamingjusamur með sjálfan sig hefur maður lítið að gefa í sambandi.

Sjáðu til, þú þarft að vökva blóm til að þau blómstri.

IMG_3867

Stundum þarf maður að minna sig á að hugsa um sjálfan sig. Þó maður sé í sambandi með börn og heimili þá má ekki gleyma að sinna sjálfum sér, hlaða batteríin og næra sjálfan sig.

Hver eru þín áhugamál? Hvað langar þig að gera í lífinu? Ef þig langar að klífa fjöll, gerðu það þá! Ef þig langar að kíkja í bæinn með vinkonum gerðu það þá! Ef þig langar á dansnámskeið en honum ekki, farðu þá ein!

Njóttu þess að vera þú sjálf og gera það sem þig langar til. Ekki skilja til þess að njóta lífsins. Ef þú þráir frelsi, frelsaðu þá hjarta þitt! Ef manneskjan sem þú deilir lífinu með heldur þér niðri, leyfir þér ekki að njóta lífsins, leyfir þér ekki að láta drauma þína rætast þá er hún ekki þess virði að eyða ævinni með.

Ertu nokkuð að gleyma þér?

Hlustaðu á hjarta þitt.

Hverjir eru þínir draumar?

IMG_4534

Undirskrift Bjargey

 

2 thoughts on “Hverjir eru þínir draumar?

  1. Svo mikið rétt hjá þér Við hjónin erum buin að vera saman í 52 ár eða síðan ég var 16 og hann 17 og erum alltaf jafn hamingjusöm.En eins og þú segir þá þarf að hlúa að blóminu svo það dafni.

    Like

Leave a comment