
Ég ákvað að prófa mig áfram með nýja uppskrift í vikunni, en tilefnið var fyrsti saumaklúbbur vetrarins. Ég var lengi búin að hugsa um að búa til eitthvað gott úr nýja súkkulaðinu frá Nóa Síríus með saltkringlum og sjávarsalti en það er alveg hrikalega gott!
Þessi terta er mjög ljúffeng og fékk 5 stjörnur frá dómnefndinni (saumaklúbbnum)!

Marengs:
3 eggjahvítur
2 dl sykur
2 dl salthnetur
3 dl saltkringlur
Þeytið eggjahvítur og bætið svo sykri saman við og stífþeytið.
Hakkið salthnetur og saltkringlur saman í matvinnsluvél í hæfilega stóra bita.
Setjið blönduna varlega saman við marengsinn með sleif.
Mótið tvo hringi á bökunarpappír og bakið með blæstri í 45 mín. við 130 gráður.

Fylling:
Stór rjómi
1 plata Nóa Síríus rjómasúkkulaði með saltkringlum og sjávarsalti
Þeytið rjómann og saxið súkkulaðið í litla bita. Blandið saman og setjið á milli marengsbotnanna.
Karamellusósa og skraut:
1 poki Nóa Rjóma töggur
1 dl rjómi
Örlítið sjávarsalt
Bræðið saman í potti við vægan hita Rjóma töggur, rjóma og sjávarsalt. Kælið karamelluna örlítið áður en þið hellið henni yfir kökuna.
Skreytið að vild með saltkringlum, súkkulaðibitum og salthnetum.
