
Í lok febrúar varð ég 37 ára og ákvað að halda upp á afmælið mitt og skemmtileg tímamót í mínu lífi. Lífið fer þó ekki alltaf eins og maður hefur planað og ég var búin að vera meira og minna veik frá áramótum, fékk örugglega bara allar flensur sem voru að ganga og var alltaf að fá hita. Varð svo kannski góð í nokkra daga og svo byrjaði ballið á nýjan leik. Í febrúar náðu þessi veikindi svo nýjum hæðum þar sem ég fékk svo heiftarleg gallsteinaköst að ég endaði tvo daga í röð á bráðamóttökunni. Daginn eftir afmælið mitt fór ég svo í bráðaaðgerð þar sem gallblaðran var tekin.
Ég náði því ekki að halda upp á afmælið eins og til stóð á afmælisdaginn sjálfan og var búin að fresta veisluhöldum þegar ég vissi í hvað stefndi. Sama dag og ég fór í aðgerðina fékk ég svo háan hita og ömurlega flensu, mér leið hræðilega í nokkra daga en ég var auðvitað líka að jafna mig eftir skurðaðgerð og ég get ekki sagt að það hafi verið auðvelt að vera með flensu á sama tíma. En þegar ég var að verða góð af flensunni var ég komin með ennis og kinnholusýkingu og fór á sýklalyf. Til þess að toppa það fékk ég sýkingu í kviðarholið og skurðinn eftir aðgerðina svo það tók við enn lengra tímabil veikinda þar sem ég var að berjast við þessar sýkingar.
Eftir rúmlega tveggja mánaða ömurleg veikindi get ég með sanni sagt að ég var alveg búin að fá mig fullsadda af öllum þessum veikindum og ég var tilbúin í næsta tímabil í mínu lífi sem er töluvert meira spennandi og skemmtilegra en fyrstu tveir mánuðir ársins voru hjá mér.
Ég byrjaði á því að halda upp á afmælið mitt og bauð nánustu fjölskyldu og vinkonum heim í afmælis gleði.
Það var ótrúlega gaman að vera með smá veislu til þess að fagna því að þessu leiðinlega tímabili væri lokið og að nýtt og spennandi upphaf væri handan við hornið.
Það er sjaldan einhver lognmolla í mínu lífi og nýverið bauðst mér spennandi tækifæri sem ég ákvað að taka fagnandi. Eins og margir vita sem fylgjast með mér hérna á blogginu og hinum miðlunum mínum, hef ég komið að námskeiðum í Heilsuborg fyrir fólk sem er að leita leiða til að bæta sína heilsu og lífsgæði. Ég held fyrirlestra á þessum námskeiðum og deili minni reynslu og vegferð í átt að betra og heilbrigðara lífi.
Mér bauðst að taka þátt í ótrúlega spennandi verkefni þessu tengdu, en það er á vegum samtaka sem heita EASO – The European Association for the Study of Obesity. Þetta eru samtök fagfólks sem vinna að málefnum tengdum offitu og innan þessara samtaka eru sjúklingasamtök European Coalition for People Living with Obesity (EASO ECPO) og ég sit í Patient Council sem talsmaður fyrir Íslands hönd.
Við sem sitjum í sjúklingaráði vinnum að margvíslegum verkefnum en það stærsta er að vera talsmenn fólks sem glímir við offitu en rödd okkar þarf að heyrast og er gríðarlega mikilvæg inn í þessa stóru baráttu. Fyrsta skemmtilega verkefnið mitt er að fara á stóra Evrópuráðstefnu í lok apríl – 26th European Congress on Obesity sem haldin er í Glasgow að þessu sinni. Ég mun svo deila betur með ykkur þessu skemmtilega verkefni þegar að því kemur eftir nokkrar vikur.
Ég ætla því að taka sumarið með trompi og vera á Sumardaginn fyrsta í Glasgow að njóta lífsins með eiginmanninum, en við ætlum að fara út þremur dögum áður en ráðstefnan byrjar og fagna sumrinu saman í þessari dásamlegu borg.
Það hefur alltaf verið draumur minn að halda fyrirlestra og námskeið og deila minni reynslu eins og ég hef nú þegar fengið að gera með minni vinnu í Heilsuborg og á námskeiðunum mínum sem ég hef haldið í samstarfi við Gaman Ferðir. Og þessi draumur varð bara enn stærri við það á fá þetta nýja starf hjá EASO.
Að sjálfsögu vildi ég því að afmæliskakan mín yrði sannkölluð draumakaka og snillingarnir hjá Tertugalleríi Myllunnar sáu til þess að hún fengi þessa fallegu skreytingu og bragðið var draumi líkast!
Afmælistertan var ekki bara dásamlega falleg heldur var hún líka svakalega bragðgóð eins og allar tertur frá Tertugalleríinu eru, en tertan var með karamellu og Daim fyllingu sem passar svo ótrúlega vel með marsípaninu. Og þessar tertur eru svo frábærar við hvaða tilefni sem er, veislur og tímamót af öllu tagi. Hægt er að fá mismunandi fyllingar, stærðir og lögun, þannig að það er auðvelt að finna réttu tertuna.

Veisluborðið skreytti ég með lifandi blómum og svo voru veitingarnar sjálfar fallegasta skrautið.
Í afmælinu bauð ég líka upp á mínar allra uppáhalds snittur frá Tertugalleríinu. Þær eru svo ótrúlega flottar og virkilega bragðgóðar. Að mínu mati eru þær alveg ómissandi á veisluborðið. Þegar maður hefur smakkað þær einu sinni er bara ekki aftur snúið!

Hversu girnilegar og fallegar!
Ég valdi að sjálfsögðu mínar uppáhalds snittur fyrir afmælið, en það eru:
- Rækju kokteilsnitta
- Vegan hvítlauks hummus kokteilsnitta
- Laxasnitta
- Tapas snitta með tapas skinku og Camembert osti
- Tapas snitta með hunangsristaðri skinku og piparosti
- Vegan Tapas snitta med tómat og basil hummus
Þessar snittur eru hver annarri betri og algjört sælgæti!

Þessar Tapas snittur með hunangsristaðri skinku, piparosti og döðlum eru himneskar og bráðna í munni!
Það var að sjálfsögðu skálað!
Og mikið borðað….
Ég veit fátt skemmtilegra en að halda góða veislu þegar tilefni er til og þá er sko boðið upp á eitthvað gott!
Í desert var ég með dásamlegar kræsingar frá Tertugalleríinu, afmælistertuna fallegu, hjúpuð jarðaber, glæsilega kransakörfu og kransabita með jarðaberi.

Kransakökurnar frá Tertugalleríinu eru svakalega góðar, og því eru allir sammála sem smakkað hafa þær í veislum hjá okkur. Við vorum með þær í fermingarveislunni hennar Bryndísar í fyrra og ég var með þessa fallegu kransakörfu og kransablóm í afmælisveislunni.
Tertugallerí býður upp á ótrúlega gott úrval af hátíðlegum kransakökum sem henta við öll tilefni, en hérna er hægt að skoða þær nánar:
Tertugallerí – Kransakökur
Veislan var alveg yndisleg og ég var svo glöð að geta kvatt leiðinlegt veikinindatímabil og skálað fyrir nýjum og spennandi verkefnum og bjartari tímum framundan með mínum nánustu.
Draumar rætast nefninlega ef maður trúir á þá!