
Það er alltaf gaman að hafa ljúffengan eftirrétt eftir góða máltíð og eitt af því sem mér finnst mjög skemmtilegt að bera á borð um hátíðar og á öðrum tyllidögum eru ístertur. Þær eru hinn fullkomni eftirréttur.
Ístertan sem ég ætla að gefa ykkur uppskrift af núna er sæt og mjög ljúffeng en þegar ég var búin að smakka hana vissi ég að hún yrði að heita Konfekt ísterta þar sem hún er eins og stór konfekt moli og fullkominn eftirréttur.
Uppskrift
Botn
- 3 eggjahvítur
- 80 g púðursykur
- 80 g kelloggs kornflögur
Þeytið eggjahvítur þar til þær eru léttar og loftmiklar og bætið púðursykri við. Stífþeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn saman. Myljið kornflögurnar aðeins og bætið þeim varlega saman við marengsinn með sleikju.
Ég set bökunarpappír í botninn á smelluformi, sjá á myndinni hér að neðan. Þá er auðvelt að ná tertunni úr forminu þegar hún er tilbúin. Setjið marengsinn í formið ofan á bökunarpappírinn og bakið við 150 gráður á blæstri í 30 mín.
Ís – uppskrift
- 3 eggjarauður
- 50 g púðursykur
- 2 tsk vanilludropar
- 3 dl þeyttur rjómi
- 1 plata Galaxy Caramel súkkulaði
Næst er að búa til ísinn sem er lítið mál. Fyrst er að þeyta eggjarauður saman með púðursykri. Bæta síðan vanilludropum við, Galaxy Caramel súkkulaði í litlum bitum og þeyttum rjóma. Blanda rólega saman og hella blöndunni yfir botninn þegar hann er búinn að kólna aðeins. Setjið í frysti á meðan þið búið til kremið.

Krem
- 1 plata Galaxy Caramel súkkulaði
- 50 g íslenskt smjör
- 100 g flórsykur
- 4 eggjarauður
Þeytið saman eggjarauður og flórsykur. Bræðið saman við lágan hita smjör og Galaxy Caramel súkkulaði, hrærið vel og þegar það er bráðið vel saman blandið því við eggjarauðurnar og flórsykurinn sem þið eruð búin að þeyta.
Þá er hægt að hella súkkulaðinu yfir ísinn sem er búinn að vera aðeins í frysti. Gott er að frysta hana í nokkra klukkutíma áður en hún er borin á borð. Ég skreytti hana með litlum páskaeggjum og ferskum blómum en það er best að gera skreytinguna bara rétt áður en hún er borin á borð.
Þá er ekkert annað eftir en að njóta og ég óska ykkur öllum gleðilegra páska!