Besta útgáfan af sjálfri mér

Fyrir tveimur árum síðan tók ég ákvörðun um að hætta í megrun. Kannski ekki stórar fréttir fyrir alheiminn en mjög stór ákvörðun fyrir sjálfa mig.

Ég ákvað að hætta þeirri sjálfspíningu að vera alltaf með samviskubit yfir hverjum einasta munnbita, hætta að svelta mig, og ekki bara svelta mig með því að sleppa því að borða mat heldur hætta að svelta mig af kærleika til sjálfrar mín.

IMG_3029

Ég var nefninlega mjög góð í að skammta mér lítið af öllu, mér fannst ég ekkert sérstaklega þurfa á því að halda að gefa sjálfri mér tíma, næra sálina eða líkamann. Ég hafði bara nóg að gera í öðru, hugsa um fjölskylduna og börnin mín þrjú, vinnuna og heimilið. En svo kláraðist bara orkan fyrir fullt og allt. Maður getur nefninlega ekki vanrækt sjálfa sig til lengdar, það fer eitthvað að gefa sig. Og ég missti heilsuna harkalega.

Ég var gjörsamlega búin á því á líkama og sál.

Og hvað hefur maður að gefa í því ástandi? Nefninlega mjög lítið. Eiginlega bara ekki neitt. Og að vera alltaf búinn á því er hreint út sagt glatað ástand.

En hvað varð til þess að ég ákvað að hætta að spá í kílóum, hitaeiningum, detoxi, átaksnámskeiðum, einkaþjálfun, að sleppa sykri, kolvetnum og hinu og þessu?

Af því EKKERT af þessu virkar ef þú elskar ekki sjálfan þig!

Ég er lifandi sönnun þess að þetta virkar ekki ef hugurinn fylgir ekki með. Ég hef prófað allt. Fjöldan allan af námskeiðum, fjarþjálfun, alla heimsins kúra, danska kúrinn, Herbalife, LKL matarræðið, Carb Nite, farið þrisvar sinnum í stranga einkaþjálfun með tilheyrandi niðurskurðar matarræði að ógleymdum föstum, fastað í tvær vikur, fasta tvo daga í viku, fasta ákveðið marga klukkutíma á dag…..nefndu það ég hef prófað það! Ekki gleyma OA og matarfíkninámskeiðum því það hlaut bara að vera að ég væri matarfíkill með öll þessi aukakíló.

En hvar var hugurinn minn á meðan þessum hamagangi stóð? Hann var mjög upptekinn af því að vera með það skráð og skjalfest hvað ég mátti ekki borða, hvað ég mátti alls ekki gera og hvernig ég ætti að haga mér í þessu ferli, ég þurfti að missa kíló og þau áttu að fara hratt, helst í gær. Ég spáði ekkert í því hvers ég þarfnaðist. Bara hvað ég mátti ekki fá. Og hvað gerðist þegar ég steig daglega á vigtina?

Ég varð fyrir vonbrigðum.

Vonbrigði dag eftir dag….mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Vonbrigði með töluna á vigtinni, vonbrigði með sjálfa mig. Af hverju gerðist aldrei neitt? Ég píndi mig áfram með þurra salatið og detox te, próteinstykki og hrökkbrauð með gúrku. En þó að ég gerði “allt rétt” gerðist mjög lítið og sjálfsmyndin varð alltaf verri og verri því það hlaut bara að vera að ég væri svona ömurleg fyrst að ég gat ekki haldið mér í kjörþyngd eins og “allir aðrir”.

IMG_3867

Einn dag var ég að skoða gamlar myndir, ég fann mynd af sjálfri mér þar sem ég var “sæt og fín” var nýlega búin að léttast um 13 kg eftir að ég átti fyrsta barnið, stolt af sjálfri mér fyrir að hafa staðið mig svo vel í átakinu. Fólk hrósaði mér á þessum tíma fyrir árangurinn og útlitið. En ég fór að gráta þegar ég sá þessa mynd. Því hjartað mitt var svo brotið á þessum tíma, ég var búin að vera svo virkilega vond við sjálfa mig. Ég hamaðist á hlaupabrettinu í ræktinni og hamraði því inn í hausinn á mér að ég yrði að grennast. Því ef ég væri feit ætti ég jú enga ást skilið. Ég stóð fyrir framan spegilinn daglega og sagði sjálfri mér hversu ömurleg ég væri að vera svona feit.

Hjartað mitt var brotið, ég var kvíðin og ég sá enga leið út úr vanlíðaninni nema grennast því þá yrði auðvitað allt svo bjart og fallegt.

Rúmum tíu árum síðar kom svo að deginum örlagaríka.

Ég tók ákvörðun um að hætta í megrun.

Ég var búin að fá nóg. Þegar upp er staðið þá skiptir talan á vigtinni litlu máli ef þú ert hvort sem er alltaf óánægð með sjálfa þig. Ég tók ákvörðun um að vera til staðar fyrir sjálfa mig hér og nú og elska sjálfa mig nákvæmlega eins og ég var – þó ég væri tæp 120 kg.

Ég ákvað að hætta að spá í því og einbeita mér að því að læra að þykja vænt um sjálfa mig burt séð frá því hvað ég væri mörg kíló.

En hvað gerðist þegar ég veitti sjálfri mér athygli, skoðaði hvers ég þarfnaðist og veitti sjálfri mér þá ást og kærleika sem ég átti skilið? Ég áttaði mig á því að ég vildi ekki vera svona þung og langaði til að vera heilbrigð á líkama og sál. Ég leitaði mér hjálpar og ég fór að léttast og núna 2 árum síðar er ég 35 kílóum léttari en 100 kílóum léttari á sálinni.

Þetta gerðist ekki á einni nóttu og er búið að vera mikið ferðalag. Ég byrjaði á því að leita mér faglegrar hjálpar. Það var erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég þyrfti að fá hjálp til að ná að léttast því ég var jú vissulega búin að reyna allt.

Ég fór í Heilsuborg og skráði mig í prógram þar sem heilt teymi af frábæru fagfólki tók á móti mér, Erla Gerður offitulæknir, þjálfarar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og sérfræðingar í hollustu og heilbrigðum lífsstíl.

Í Heilsuborg lærði ég allt upp á nýtt.

Ég hélt til dæmis þegar ég byrjaði í Heilsuborg að ég borðaði allt of mikið. Það kom hins vegar í ljós að ég borðaði allt of lítið og var í rauninni með næringarskort þó ég væri að burðast með 50 aukakíló.

Ég fékk ómetanlega hjálp og hún Maríanna í Heilsuborg sem hjálpaði mér með matarræðið er algjör snillingur. Hún hjálpaði mér að gera matseðla og skammaði mig þegar ég var að borða of lítið! Þegar ég hafði enga trú á því að ég myndi ná þessu þá var það hún sem hvatti mig áfram.

Ég var mjög veik á þessum tíma enda með marga fylgifiska í farteskinu, vefjagigt, slitgigt, hryggskekkju, brjósklos, endómetríósu, vanvirkan skjaldkirtil og að glíma við afleiðingar af áfallastreitu. En sama hversu erfitt það var fyrir mig að mæta, þá gerði ég það samt. Ég gerði bara eins mikið og ég gat í hvert skipti. Ég fékk til dæmis að skipta yfir í auðveldari þjálfun þegar það var of erfitt fyrir mig að fylgja hinum.

Það var svo þegar árið var hálfnað að ég upplifði algjört vonleysi. Allt sem hafði byrjað svo vel gekk ekki eins og ég hefði viljað. Vigtin var stopp og heilsan virkilega slæm. Ég átti erfitt með að hreyfa mig vegna verkja og andlega heilsan hrundi. Ég var komin með erfiðar hugsanir um að kannski væri líf fjölskyldu minnar bara betra án mín. Þá leitaði ég til Erlu Gerðar læknis og spurði hana hvort það væri eitthvað hægt að gera. Eitthvað meira til að hjálpa mér út úr þessum vítahring offitu, verkja og vanlíðan.

Það var þá sem hún sagði mér frá aðgerðinni magaermi – bariatric sleeve og að kannski væri það ákjósanlegur kostur í stöðunni með tilliti til þeirra sjúkdóma sem ég væri að glíma við. Það er jú erfiðara að léttast þegar maður er alltaf verkjaður, stirður, á erfitt með svefn og í andlegu ójafnvægi.

Ég ákvað að skoða þann möguleika en vildi samt ekki fara í aðgerð nema allt annað væri fullreynt fyrst. Ég vildi klára árið í Heilsuborg og ef ekkert hefði breyst að sex mánuðum liðnum ætlaði ég að sækja um að komast í aðgerðina. Ég tók mér svo góðan tíma í að hugsa málið og hélt áfram að vinna í heilsunni á öllum sviðum.

Haustið 2016 hitti ég síðan Erlu Gerði lækni aftur og bað hana um að sækja um fyrir mig að fara í aðgerðina. Ég vissi að ég þyrfti meiri hjálp og hún stóð mér til boða. Eftir nokkra mánuði fékk ég svo símtal um að ég gæti komið í aðgerðina á LSH í febrúar 2017 sem ég gerði. Það voru þung skref að taka en ég veit það í dag að það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir sjálfa mig um ævina.

Ég hef öðlast nýtt líf.

Ég áttaði mig í rauninni ekki á því hversu ólík ég væri orðin sjálfri mér með öll þessi aukakíló og það er að vissu leyti erfitt fyrir mig að skoða gamlar myndir af mér. Persónulega finnst mér breytingin vera mjög mikil.

Hérna er ég í sumarfríi í Frakklandi 2016

IMG_5668.JPG

Og rúmu ári síðar í fríi á Spáni 2017

IMG_5193 (2)

Mér finnst ég ekki vera sama manneskjan!

Hérna er ég á Spáni 2015

IMG_8193 (3)

Og svo á Spáni 2017

IMG_4942 (2)

Í dag set ég sjálfa mig í fyrsta sæti því ég hef lært að heilsan skiptir öllu máli.

Ef ég hef ekki tíma fyrir heilsuna mína í dag, hef ég enga heilsu á morgun.

Ég set athyglina mína á það hvers ég þarfnast hverju sinni, góða næringu, hvíld, hreyfingu, að skapa eitthvað, tjá mig, umvefja mig þeim sem mér þykir vænt um eða vera ein með sjálfri mér. 

Og þegar ég fór að hlusta á sjálfa mig, hvað það væri sem ég þarfnaðist hverju sinni fór mér að líða miklu betur á líkama og sál.

Það sem gerðist þegar mér fór að líða betur er að þá langaði mig líka að hreyfa mig, borða hollari mat og verða besta mögulega útgáfan af sjálfri mér.

Það hvetur mig áfram að líða betur og líta betur út því núna veit ég að ég vil ekki verða svona þung aftur. Bara það að skoða gamlar myndir hvetur mig áfram í að halda mínu ferðalagi áfram í átt að heilbrigðara lífi.

Ég veit það núna að megrun virkar aldrei nema þá til að skerða lífsgæði mín og valda vanlíðan. 

Í dag vel ég að gera vel við sjálfa mig og næra líkama og sál því ég á það skilið.

IMG_8195.jpg

Ég vel að vera besta útgáfan af sjálfri mér og ég er sátt við sjálfa mig nákvæmlega eins og ég er.

P.s. Ég er löngu búin að henda vigtinni.

Undirskrift Bjargey

5 thoughts on “Besta útgáfan af sjálfri mér

  1. Þú ert æðisleg! Gaman að fylgjast með þér í gegnum þetta ferli. Uppfull af jákvæðni og þvílíkt dugleg.

    Like

  2. Gott að lesa Bjargey, og frábært að þér líður svona vel 🙂 Ég er alltaf þakklát fyrir það sem þú gerðir fyrir mig þegar ég kom til þín á sínum tíma. Gangi þér sem allra best og kærar kveðjur. Helga G.

    Like

  3. Flott grein og vel skrifuð Bjargey mín. Ótrúlega flott hjá þér og þú ert falleg sama hvaða tala er á vigtinni. Stolt af þér…you go girl♥

    Like

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s