
Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að leggja á borð og skreyta. Það er líka svo gaman að njóta þess að borða góðan mat á fallega skreyttu borði.
Jólin eru tími til að njóta og ég nýt þess að gefa mér tíma í að gera fallegar borðskreytingar um hátíðarnar. Þessa borðskreytingu gerði ég um daginn fyrir jólablað Húsa & híbýla en mig langar að sýna ykkur fleiri myndir svo hægt sé hægt að skoða smáatriðin betur en sjást í blaðinu.
Hugmyndin var að hafa skreytinguna frekar látlausa en jólalega samt sem áður og ég sleppti því til dæmis að hafa dúk á öllu borðinu, en hátíðaborðið sjálft myndi ég alltaf hafa með hvítum dúk.
Grenilengjan og skrautið á servíettunum er úr Pier og einnig dúkurinn og tauservíetturnar. Hreindýrin eru frá House Doctor og ég keypti þau í A4 fyrir jólin í fyrra, en þau eru ennþá til og ég sá þau til dæmis fyrir nokkrum dögum í versluninni Fakó.
Diskarnir eru sænsk hönnun og heita Cult design en ég keypti þá í Majubúð. Glösin eru úr Casa, litlu kertastjakarnir úr Tiger og stóru kertin úr Ikea.
Einfalt og stílhreint.
Kom ekki smá jólastemning með þessum myndum?