
Þegar við fluttum í húsið okkar fyrir 4 árum síðan var eldhúsið alveg ónothæft. Þar var rúmlega 50 ára gömul innrétting sem var bæði fúin og lúin og komnar í rakaskemmdir. Við þurftum að rífa út allar innréttingar og gólfefni, múra og flota uppá nýtt, draga í nýtt rafmagn og setja inn nýja innréttingu og tæki. Ég hef áður sýnt ykkur myndir úr eldhúsinu, en svona leit það út þegar við keyptum húsið:
Og hin hliðin fyrir breytingar:
Það er auðvitað stórt verkefni að gera upp eldhús frá grunni en þetta tókst bara mjög vel til og tók styttri tíma en við bjuggumst við. Eldhúsið sjálft er ekki mjög stórt, en trúið mér í fyrstu íbúðinni okkar var eldhúsið 3 fm svo þetta er mjög stórt miðað við það! Það er á langtíma planinu að opna milli stofu og eldhúss en það var of mikil framkvæmd fyrir okkur að fara út í þegar við keyptum húsið svo við reyndum að hafa þetta sem einfaldast.
Og hin hliðin eftir breytingar:
Ég er mjög hrifin af hvítum innréttingum í eldhúsum því mér finnst þær stílhreinar en samt sem áður er hægt að lífga upp á þær með litríkum hlutum. Ég elska viðarborðplötur og finnst þær gefa hlýju. Ég er mjög hrifin af svona skandinavísku útliti, hvítt blandað saman með fallegum við og grænar plöntur fá að fljóta með.
Ég er mjög hrifin af því að hafa krukkur í öllum stærðum og gerðum uppi á borðum og því er tilvalið að nota fallega bakka undir þær. Það sem mér finnst svo mikil snilld við svona fallega bakka er að þeir ramma inn hlutina sem maður raðar á þá svo þeir njóta sín betur. Svo er endalaust hægt að raða á þá í mismunandi útfærslum sem hentar manneskjum eins og mér einstaklega vel, en ég er alltaf að breyta og bæta.
Vikumatseðill sparar tíma og peninga. Svo er hann líka bara fallegt skraut í eldhúsinu.
Ég eyði miklum tíma á hverjum degi í eldhúsinu og því vil ég hafa það vel skipulagt. Það skiptir mig máli að hafa líka fallegt í kringum mig þar alveg eins og í stofunni eða á öðrum stöðum í húsinu.
Borðkrókurinn okkar er lítill en mikið notaður. Við máluðum vegginn við borðið svartan í fyrra og okkur finnst það koma virkilega vel út. Ég var alltaf svo hrædd við að nota svartan lit á veggi en ákvað svo að prófa og sé alls ekki eftir því.
Ég vona að þið hafið haft gaman að því að kíkja í smá innlit í eldhúsið okkar og kannski fengið smá innblástur eða hugmyndir að uppröðun eða skreytingum.