Steypiboð

Á dögunum hittumst við nokkrar af konunum í fjölskyldunni og héldum lítið steypiboð eða Baby Shower fyrir Lindu okkar. Þegar ég átti mín börn var þessi hefð ekki þekkt á Íslandi en á síðustu árum hefur það verið vinsælt að halda steypiboð og gleðja verðandi móður með skemmtilegri samverustund og gjöfum.

Eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri er að skipuleggja og halda veislur svo mér fannst það ótrúlega gaman að fá að halda boðið heima. Að sjálfsögðu var Royal Copenhagen stellið tekið fram til að gera borðið huggulegt og ég skreytti borðið með ferskum blómum.

Skreytingarnar voru mjög einfaldar, fánalengja í loftið og nokkrar blöðrur. Það þarf ekki mikið til að skapa skemmtilega stemningu.

Kökuna fallegu keypti ég hjá Sylvíu vinkonu minni í dásamlegu kökubúðinni hennar í Garðabæ, Bake Me a Wish. Súkkulaðikaka með smjörkremi og saltkaramellufyllingu.

Gullfalleg kaka og himnesk á bragðið!

Það var yndislegt að eiga þessa samverustund saman og fagna því að lítill strákur sé á leiðinni, en reyndar eru þeir tveir því mágkonur mínar eiga báðar von strákum í sumar.

Við ákváðum að panta okkur mat frá Tokyo Sushi sem er alltaf jafn góður. Það er líka mjög gott úrval hjá þeim af sushi þar sem ekkert er hrátt sem hentar vel fyrir þær sem eru ófrískar.

Þegar maturinn er augnakonfekt þá þarf mjög lítið að skreyta borðið sjálft.

Eitt af því sem slær alltaf í gegn í veislum hjá okkur er ostasalat og kex.

Ég ætla að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift af ostasalati sem tekur ekki nema nokkrar mínútur að búa til.

OSTASALAT

1 Mexíkóostur

1 Hvítlauksostur

1 dós 18% sýrður rjómi

Vínber – magn eftir smekk

AÐFERÐ

Skerið Mexíkóostinn og Hvítlauksostinn í litla bita. Skerið vínber í tvennt og takið steina úr ef þarf. Blandið öllu saman með sýrða rjómanum og setjið í kæli. Berið fram með kexi að eigin vali.

Þetta hefur verið skrítið ár fyrir okkur veisluglaða fólkið að geta ekki haldið veislur og boð við skemmtileg tilefni. Annað hvort hefur ekki verið hægt að halda veislur eða bara með mjög fáum gestum. En núna fer vonandi allt að birta til þar sem bólusetningar ganga vel og afléttingar á samkomutakmörkunum framundan.

Ég er allavega farin að plana fertugs afmælið mitt á næsta ári með mikilli tilhlökkun og svo er ferming yngri dótturinnar framundan í ágúst. Við mæðgur erum að sjálfsögðu byrjaðar að skipuleggja veisluna og getum ekki beðið eftir því að bjóða í eina almennilega veislu með fullt af fólki sem okkur þykir vænt um.

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s