Súkkulaði og hugleiðsla

IMG_6315_Fotor
Omnom Chocolate Reykjavík styrkir súkkulaðihugleiðsluna mína með því að gefa öllum konum sem koma á námskeiðin mín ljúffengt súkkulaði til að njóta.

Já ef hægt er að finna einhverja fullkomna tvennu þá er það líklega þessi, súkkulaði og hugleiðsla! Eða súkkulaði og kaffi? Súkkulaði og ísköld mjólk?

Hver sem smekkurinn er þá held ég að allir sannir súkkulaðiunnendur muni elska þessa hugleiðslu! Súkkulaðihugleiðsla. Hana hef ég stundað í mörg ár en komst ekki að því að hún væri viðurkennd aðferð við að hugleiða fyrr en ég las bókina Núvitund eftir Mark Williams og Danny Penman.

Núvitund er sú vitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi, á þessu augnabliki, að því sem er, eins og það er, án þess að dæma.

Í súkkulaðihugleiðslunni beinum við athyglinni að súkkulaðinu sjálfu, bragðinu sem við finnum, áferðinni og hvaða áhrif súkkulaðið hefur á líkama okkar. Hvað gerist í huganum þegar súkkulaðimolinn bráðnar í munni og hvað finnum við gerast í líkama okkar?

IMG_6324_Fotor
Uppáhalds súkkulaðið mitt frá Omnom Chocolate er Milk of Madagascar en það fer með öll skilningarvit í himneskt ferðalag!

Ég er svo heilluð af þessarri hugleiðsluaðferð að ég mun kenna hana á námskeiðinu mínu Besta útgáfan af sjálfri þér, en þar mun ég fara yfir mismunandi aðferðir við hugleiðslu og hvernig ég nota hana í daglegu lífi.

IMG_6312_Fotor
Ég elska að lesa góðar bækur sem fá mann til að hugsa aðeins og velta fyrir sér hvernig maður sjálfur velur að lifa sínu lífi, en ein þeirra bóka sem veitti mér innblástur til þess að halda áfram að hlusta á mitt innsæi er bókin Soulful Simplicity eftir Courtney Carver.

Ég var að fá vinnubókina mína úr prentun i dag, en hana fá allir þátttakendur á námskeiðinu. Það var mjög skrítin en góð tilfinning að halda á vinnubókinni í fyrsta skipti, finna lyktina af pappírnum og sjá mitt nafn á forsíðunni. Vinnubókin er nefninlega afrakstur mikillar vinnu síðustu mánaða hjá mér, og að sjá hana verða svona raunverulega er algjörlega magnað!

IMG_6299_Fotor.jpg

Á námskeiðinu deili ég minni reynslu af því að missa heilsuna harkalega og enda í örmögnun og kulnun yfir í það að verða heilbrigð á líkama og sál og lifa í sátt við sjálfa mig eins og ég er.

Það tók mig langan tíma að byggja mig upp aftur, en ein af þeim aðferðum sem hjálpaði mér hvað mest er hugleiðsla, en með henni náði ég andlegu jafnvægi auk þess að minnka líkamlega verki og vanlíðan. Hugleiðsla hjálpar mér að sofa betur og eykur einbeitingu til muna svo auðveldara er fyrir mig að setja mér markmið og ná þeim.

IMG_6324_Fotor

Eitt það skemmtilegasta við hugleiðslu og iðkun á núvitund er að það er hægt að fara svo margar leiðir. Það er engin ein hugleiðsla sem hentar öllum og ég hef prófað margar leiðir og fundið út hvað hentar mér best.

Það fer líka bara eftir aðstæðum og dögum hvað ég hef tíma til þess að gera, en það er alveg heilug stund hjá mér að hugleiða á hverjum degi. Stundum set ég bara á mig heyrnartól heima með slökunartónlist og hugleiði þó það sé enginn friður og ró á heimilinu á því augnabliki – bara loka augunum og tengi mig við sjálfa mig.

IMG_2257

Ég elska að hugleiða úti í náttúrunni og finna hvernig ég tengist náttúrunni, ég fæ allan þann kraft þaðan sem ég þarf á að halda. Ef ég er orkulaus er það besta sem ég geri að fara út og anda að mér fersku lofti, vera innan um tré og steina, fjöll og sjó.

Ég fæ líka einhvern ólýsanlegan kraft í sólinni og ég myndi segja að það toppi allt hjá mér að hugleiða á ströndinni, finna sólina hita upp líkamann, hlusta á sjávarniðinn, finna hvernig öldurnar koma með orku og taka svo burtu það sem maður sjálfur vill losna við eins og áhyggjur eða tilfinningar sem liggja þungt á manni.

IMG_1803_Fotor.jpg

Hugleiðslu á ströndinni mun ég leiða og kenna í ferðunum mínum og leyfa konunum sem koma með í þær ferðir að upplifa þessi mögnuðu áhrif sem hugleiðsla undir berum himni hefur á líkama og sál. Fyrir þær sem vilja og þora munum við jafnvel skella okkur í smá sjósund eftir hugleiðsluna en það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað það gerir fyrir mann að stíga örlítið út fyrir þægindarammann og ögra sjálfri sér!

IMG_2482_Fotor

Að lesa veitir mér mikla hugarró og ef ég finn að hugurinn er friðlaus þá finnst mér gott að lesa skemmtilegar bækur. Ég elska góðar spennusögur, hef drukkið í mig flesta skandinavíska krimma um leið og þeir lenda í bókabúðunum og ég laðast mjög að bókum sem fá mig til að hugsa og fara í smá sjálfsskoðun.

Þegar ég fór í dásamlegu jógaferðina mína til Tossa de Mar fyrr á árinu, keypti ég mér bók í fríhöfninni áður en ég lagði af stað í ferðalagið til að hafa eitthvað að lesa í fluginu á leiðinni út. Ég greip með mér bókina Tvö hundruð sextíu og einn dagur eftir Kristborgu Bóel, en í bókinni segir hún frá lífi sínu eftir skilnað og lýsir ástarsorg á einstakan hátt. Ég hló og grét til skiptis og ég hugsa að flugfreyjurnar hafi verið farnar að fylgjast vel með konunni í 23F en þær vissu auðvitað ekkert að ég var bara að lifa mig svo inn í bókina að það var ekkert hægt að halda aftur af tilfinningunum. Í fyrsta skipti á ævinni varð ég svekkt yfir því að lenda á áfangastað, ég bölvaði því í hljóði að flugið væri ekki aðeins lengra svo ég gæti klárað síðasta kaflann.

Þannig að ef þið eruð ekki búin að lesa bókina hennar Kristborgar sem er ein mögnuð kona og frábær penni þá mæli ég með því að þið lesið hana, hugleiðið, fáið ykkur gott súkkulaði og kaffi, kveikið á kertum og bara verið svolítið góðar við ykkur sjálfar í haustlægðinni sem liggur yfir landinu.

Það eiga allir skilið ást og umhyggju, þú líka!

IMG_6338_Fotor

Svo kíkið þið endilega á námskeiðið mitt ef ykkur langar að fara á skemmtilegt sjálfstyrkingarnámskeið, hugleiða á ströndinni og borða mikið af ljúffengu Omnom súkkulaði sem ég nota í súkkulaðihugleiðslunni og bara lifa og njóta í sólinni.

Undirskrift Bjargey

 

 

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s