
Í vor fór ég á vegum Evrópusamtakanna ECPO – European Coalition for People living with Obesity á Masterclass námskeið og ráðstefnu í Brussel. Í leiðinni fékk ég frábært tækifæri til þess að skoða þessa stórkostlegu borg, en ég hafði aldrei komið til Brussel áður og hún kom mér virkilega skemmtilega á óvart!
Snemma í maí var sumarið ekki komið til okkar á Íslandi og því var dásamlegt að komast í sólina og góða veðrið í Brussel. Það var alveg kærkomið eftir veturinn að geta setið úti í sólinni á veitingastöðum og notið þess að borða litríkan mat og horfa á iðandi mannlífið á götum borgarinnar.
Við Sólveig sem vinnum saman hjá ECPO fórum samferða til Brussel og við náðum að skoða aðeins borgina áður en ráðstefnan hófst. Við áttum okkar uppáhalds kaffihús á horninu við Lúxemborgartorgið – Place du Luxemburg en það er staðsett á milli hótelanna sem við gistum á og nánast við hliðina á hótelinu þar sem námskeiðið og ráðstefnan var haldin.
Staðurinn heitir VESTER BAR en þar fæst besta og girnilegasta geitaosta salat í allri veröldinni! Síðasta kvöldið okkar eftir ráðstefnuna fórum við þangað með fleirum úr ECPO samtökunum okkar og þá fékk ég mér lambakjöt og grænmeti sem var algjörlega geggjað!
Það voru líka himneskar pönnukökur á matseðlinum sem ég varð bara að smakka!
Við Lúxemborgartorgið er mikið líf og fjör en einu sinni í viku er þar matarmarkaður sem var ótrúlega gaman að skoða, allt ferskt og beint frá býli, allt frá jarðaberjum til osta og rauðvíns…endalaust úrval og virkilega gaman að skoða og upplifa.
Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá okkur í ECPO og mér fannst ég læra mjög mikið af því að fá að taka þátt í Masterclass námskeiðinu og að fá að sitja ráðstefnuna og hlusta á allt sem fram fór þar. Ég hef bara mína reynslu að byggja á þegar kemur að því að leggja mitt af mörkum til samtakanna og því virkilega gott að fá faglega fræðslu og sjá hvernig allt saman virkar hjá svona stórum samtökum.
Eitt af þeim stóru verkefnum sem ECPO hefur verið að vinna að síðustu misseri er herferð sem kallast People First. Markmið herferðarinnar er að vekja fólk til umhugunar um það hvernig og hvaða orð það notar þegar það talar við fólk og hvetur fagfólk til þess að tala af virðingu við sína skjólstæðinga.
People First Language for Obesity er mikilvæg herferð sem vinnur gegn fordómum en rannsóknir sýna að fólk sem lifir með offitu verður fyrir gríðarlega miklum fordómum í samfélaginu og ekki síst innan heilbrigðiskerfisins.
Það skiptir nefninlega gríðarlegu miklu máli að fólk sem leitar sér aðstoðar vegna offitu fái faglega hjálp og stuðning en ekki skammir og vanvirðingu frá þeim sem það leitar til. Það ætti að liggja í augum uppi að hið síðarnefnda mun ekki hjálpa einstaklingnum í sinni vegferð að betri heilsu og lífsgæðum en því miður er staðreyndin sú að á degi hverjum verður fólk fyrir fordómum vegna líkamsþyngdar og útlits bæði í samfélaginu og innan heilbrigðiskerfisins.
Ég skrifaði niður smá hugleiðingar á Facebook á meðan ég var í Brussel og ég ætla að birta þær hér fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa og fræðast um hvað ég er að fást við hjá ECPO.
Virkilega skemmtilegir dagar hjá mér hérna í fallegu borginni Brussel þar sem ég hef fengið það frábæra tækifæri að taka þátt í mjög áhugaverðum verkefnum, námskeiði og ráðstefnu á vegum EASO – European Association for the Study of Obesity.
Í dag er unnið að stefnumótun með stjórnmálafólki og ráðamönnum frá allri Evrópu. ECPO samtökin sem ég vinn með taka virkan þátt í allri ráðstefnunni þar sem við sem lifum með offitunni fáum að koma með hugmyndir, ræða málefnið út frá reynslu og taka þátt í stefnumótun.
Ég ætla ekki að hafa þetta langt í bili, en megin inntakið hér í dag er að offita er flókinn krónískur sjúkdómur sem hefur ógnandi áhrif á líf og heilsu einstaklingsins sem glímir við hann.
Hvernig getum við sem samfélag unnið að forvörnum, leiðum til meðhöndlunar á offitu, útrýmt fordómum og stöðvað þá þróun að offita er vaxandi vandamál í heiminum öllum?
Enginn hefur svörin. Ekki færustu læknar, sérfræðingar og prófessorar öllum sviðum – ekki einu sinni World Health Organisation sem hefur sína fulltrúa hér í dag.
En við getum öll tekið þátt, samfélagið allt ætti að styðja við þetta málefni sem varðar okkur öll og framtíð komandi kynslóða.
Ég trúi því að með fræðslu getum við breytt svo ótrúlega mörgu. Fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks, ráðamanna og almennings.
Við þurfum faglega fræðslu því þó það sé marg sannað að vandamálið sé mun margþættara en að borða minna og hreyfa sig meira þá trúir meirihluti fólks því að það sé lausin. Ég og töluvert fleiri milljónir einstaklinga höfum afsannað þá kenningu.
Við getum byrjað á okkur sjálfum. Útrýmum fordómum. Lifum heilbrigðu lífi. Sýnum okkur sjálfum og öllum öðrum þá virðingu og kærleika sem við eigum skilið.
Ég hef ekki lausnina frekar en færustu læknar og sérfræðingar en ég ætla að enda þennan pistil minn á minni uppáhalds setningu í öllum heiminum þó hatrið muni sigra á laugardaginn.
All you need is love
Þegar ráðstefnunni var lokið hafði ég tvo klukkutíma áður en ég þurfti að vera komin upp á flugvöll og þar sem ég hafði ekki haft mikinn tíma til að skoða borgina í ferðinni ákvað ég bara að fara í góðan göngutúr og skoða fallegu garðana og byggingarnar.
Algjört listaverk þessi fallega kirkja.
Það er mikið ævintýri að skoða sig um í Brussel og borgin minnir mig á margan hátt á París, ótrúlega fallegar byggingar og listaverk.
Annar skemmtilegur staður sem ég mæli með að prófa ef þið eruð á leiðinni til Brussel er Mer du Nord – en hann er skemmtilega öðruvísi veitingastaður þar sem maður kaupir ferskan fisk beint úr borðinu og hann er eldaður fyrir þig á staðnum á meðan þú bíður. Síðan er bara að njóta!
Geggjaður matur og töff staður sem ég mun hiklaust fara aftur á í næstu ferð til Brussel.
Það vantar ekkert upp á fallegu blómabúðirnar í Brussel, ég átti pínu erfitt með að geta ekki tekið nein blóm með heim. En það var líka bara gaman að njóta þess að skoða þau og finna af þeim ilminn.
Borgin er skemmtilega litrík og fjölskrúðug, ég hef sjaldan komið til borgar þar sem flóra mannlífsins er jafn fjölbreytt og byggingar ólíkar.
Ég veit fátt skemmtilegra en að rölta bara um göturnar og skoða mismundandi byggingar, kíkja í allskonar búðir og bara njóta þess að upplifa eitthvað allt annað en maður hefur á Íslandi.
Ótrúlegar andstæður í byggingarstíl….
Það vantar ekkert upp á úrvalið af góðum sælkeraverslunum í Brussel, og ég stóðst nú ekki mátið að smakka þessi guðdómlega góðu jarðaber hjúpuð með eðal súkkulaði.
Belgískar vöfflur eru líka á hverju horni en ég lét mér nægja í þetta sinn að taka bara mynd af úrvalinu!
Það var líka skemmtileg upplifun að skoða allar girnilegu súkkulaðibúðirnar, mjög auðvelt að gleyma sér þar inni skal ég segja ykkur!
Og blómabúðirnar auðvitað, þær eru jú klárlega minn helsti veikleiki.
Við erum ekkert að grínast með það hversu girnilegar þessar súkkulaðibúðir eru!
Og ilmurinn þarna inni….hreinn unaður! Ef hægt er að komast í súkkulaðivímu…þá hef ég klárlega prófað það í Brussel….hahaha!
Við Sólveig röltum líka um miðbæinn og kíktum í nokkrar búðir…
Og skoðuðum fallegar byggingar…hversu fallegt?
Ég hef það á tilfinningunni að þetta verði ekki mín síðasta heimsókn til Brussel en þangað til næst ætla ég bara að lifa á góðum minningum um þessa frábæru ferð, ég finn ennþá ilminn af súkkulaðinu og blómunum bara við það að skoða myndirnar frá ferðinni.