
Já það er kominn mánuður síðan ég lét í mér heyra hérna en ég er búin að vera í kærkomnu sumarfríi með fjölskyldunni þar sem við erum búin að ferðast um landið okkar fallega og fara á svo ótrúlega marga skemmtilega staði.
Við fórum í æðislega ferð til Vestmannaeyja í júní og ég varð bara að gera sér færslu um hana því ferðin var algjör draumur í alla staði. Við vorum í fimm daga og náðum að skoða og upplifa ótrúlega margt fjölbreytt og skemmtilegt.
Tilefni ferðarinnar var Orkumótið í fótbolta þar sem sonurinn fór að spila með Breiðablik, en þar sem þetta var þriðja fótboltamótið sem við höfum farið á í Vestmannaeyjum þá vissum við hvað við vildum ná að gera og sjá áður en við færum aftur heim og bættum því dögum við mótið til þess að geta notið þess að vera saman í fjölskyldufríi líka.
Við heimsóttum marga góða veitingastaði, fórum í geggjaða kayak ferð, keyrðum um eyjuna og fórum í gönguferðir, í siglingu, að spranga, fórum í sund, heimsóttum Eldheima og sjávardýrasafnið Sea Life Trust.
Við fórum beint úr Herjólfi á veitingastaðinn GOTT en hann er alveg í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni. Geggjuð salöt og sjúklega gott Nachos með fersku guacamole og osti.
Við mælum líka mjög mikð með bakaríinu og kaffihúsinu Vigtin Bakhús við höfnina en þar fengum við æðislegar Pretzel og bakkelsi áður en við fórum í kayak ferðina.
Við fórum í kayak ferðina með leiðsögumanni frá Kayak & Puffins en ferðin var algjörlega meiriháttar í alla staði.
Það var svo magnað að vera í svona mikilli nálægð við klettana, fuglalífið og náttúruna. Þetta er allt öðruvísi upplifun heldur en að fara á bát um svæðið þó það sé gaman líka.
Hrafnhildur skemmti sér ótrúlega vel og fannst hún vera komin til útlanda þar sem hún hefur ekki prófað kayak áður og þetta var allt svo nýtt og mikil upplifun.
Það er alveg magnað að fara svona nálægt klettunum og sjá þessa ótrúlegu náttúrufegurð með eigin augum.
Við fórum alveg að Klettsvík og inn í Klettshelli sem er ótrúlega fallegur.
Að sjá þessa liti í klettunum inni í hellinum er alveg magnað!
Listaverkasýning í boði náttúrunnar.
Ég mæli svo ótúlega mikið með því að skella sér í kayak ferð í Vestmannaeyjum, þetta var alveg frábært og krakkarnir skemmtu sér mjög vel.
Náttúrufegurðin þarna er engu lík!
Við getum svo sannarlega mælt með því að fá sér pizzu á Pítsugerðinni í Vestmannaeyjum, en þar voru æðislegar og djúsí pizzur sem glöddu svanga ferðalanga oftar en einu sinni í ferðalaginu.
Ég er mikil áhugamanneskja um góðar pizzur og þessar komust alveg á topp fimm listann hjá mér yfir bestu pizzurnar á Íslandi.
SLIPPURINN er fjölskyldurekinn veitingastaður í Vestmannaeyjum sem ég féll algjörlega fyrir!
Ég myndi segja að það væri þess virði að gera sér ferð til Vestmannaeyja bara til þess að njóta þess að borða þar. Þau nota staðbundið íslenskt hráefni við matargerðina og meðal annars heimaræktað grænmeti frá Vestmannaeyjum.
Maturinn var himneskur og þvílík upplifun fyrir bragðlaukana.
Ég fékk mér humar í forrétt sem var æðislegur. Í aðalrétt fékk ég mér lamb með með rabbabara, gulrótum, heslihnetum og lambasoðsósu sem fékk algjörlega fullt hús stiga ef ég ætti að gerast matargagnrýnandi.
Í eftirrétt fékk ég mér skyr með hundasúrum, karamellu og ristuðum höfrum – og trúið mér þó þetta hljómi kannski undarlega þá var þetta algjör veisla. Ég er ennþá að hugsa um þennan eftirrétt og er meira að segja búin að reyna að búa þetta til heima. Reyndar ekki með hundasúrum en ég gerði mitt besta allavega!
Það sem mér fannst líka frábært við SLIPPINN er að barnamatseðillinn er alls ekki hefðbundinn og börnin fengu til dæmis lambalæri í einfaldri útgáfu. Síðan var vanilluís í eftirrétt með karamellu og Nóa Kroppi hjá krökkunum sem sló alveg í gegn.
Fótboltamótið var algjört ævintýri frá upphafi til enda, en sonurinn gerði sér lítið fyrir og varði víti í úrslitunum svo þetta var sannkallað Víti í Vestmannaeyjum! Þeir félagarnir tóku svo bikar heim svo það var mikil gleði og hamingja.
Við heimsóttum svo safnið Sea Life Trust, en það vill svo skemmtilega til að við heimsóttum einmitt líka Sea Life í Orlando í vetur svo það var gaman að sjá þessi söfn á tveimur ólíkum stöðum í heiminum.
Annar skemmtilegur og heimilislegur veitingastaður að heimsækja í Vestmannaeyjum er ÉTA, en það er skyndibitastaður nálægt höfninni.
Sundlaugin í Vestmannaeyjum er líka mjög skemmtileg fyrir fjölskyldur en þar eru flottar rennibrautir og klifurveggur. Mjög fínir heitir pottar og innilaug.
Ég held að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi í Vestmannaeyjum, en við skemmtum okkur ótrúlega vel og þessi ævintýraferð verður lengi í minnum höfð. Þangað til næst – takk fyrir okkur Vestmannaeyjar!