
Hér kemur fyrsta uppskriftin á nýju heimasíðunni minni Bjargey & co. Á myndinni er hristingurinn hjá fallegu myndinni minni frá Gunnarsbörnum.
Þessi uppskrift er einföld og fljótleg enda elska ég þannig uppskriftir. Ég verð að viðurkenna að ég hef smá ástríðu fyrir góðum hristingum, því það er fátt jafn frískandi og ískalt boozt með góðu ávaxtabragði. Það spillir svo ekki fyrir að krakkarnir elska boozt og hægt er að koma allskonar hollustu ofan í þau (án þess að þau viti hahaha) því það sést ekkert hvað er í þessu þegar það er búið að blanda þessu saman.
Í þessum ofurhristingi er:
- 2 dl. möndlumjólk
- 1 banani
- 2 dl. frosin jarðaber
- 2 msk tröllahafrar
- 2 msk chia fræ
- 1/2 msk kókosolía
Öllu blandað saman í blandara og skellt í fallegt glas. Uppskriftin dugar fyrir tvö glös svo þú getur deilt gleðinni með þér. Mjólkina getur þú líka haft að eigin vali, þó ég noti möndlumjólk er hægt að nota kókosmjólk, ab mjólk eða jafnvel skyr og setja þá smá vatn á móti. Það er ótrúlega sniðugt að nota trefjar eins og haframjöl eða fræ með hristingum, það fær meltinguna til að vinna betur og við fáum góð næringarefni með þeim.
Síðan er alltaf hægt að breyta og bæta að vild, hér að neðan bætti ég t.d. bláberjum útí og þá verður til himneskur berjahristingur. Ég mæli með að eiga svona boozt glös heima því þá er hægt að skella hristing í þau og grípa með sér þegar maður er á hraðferð eða til að gefa krökkunum þegar þau eru á leið á æfingar. Ég þvæ þau bara eftir notkun, þurfa alls ekkert að fara í ruslið!
Verði ykkur að góðu!