Ég hugsa að ég hafi aldrei bakað jafn mikið og á síðustu vikum, þar sem við fjölskyldan erum eins og aðrir landsmenn heima í samkomubanni. Það er nóg að gera hjá okkur, börnin þurfa að sinna sínu námi að heiman og við foreldrarnir vinnu. Það gerir þó daginn skemmtilegri að baka eitthvað og við höfum prófað okkur áfram með allskonar eldamennsku og bakstur.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að bollum sem kemur frá Evu Laufey, en þær heita kotasælubollur og eru frábær grunnuppskrift að bollum og brauði sem síðan er hægt að útfæra á alla vegu. Við elskum að setja sólblóma og sesemfræ á bollurnar en við ákváðum að breyta aðeins til og búa til ostabollur sem eru æði!

Uppskrift
100 g smjör
4 dl mjólk
1 bréf þurrger – 12 g
1 msk hunang
1 tsk salt
400 g kotasæla
900 g hveiti
1 poki mozzarella ostur og 1 egg til penslunar

Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni og hunanginu saman við og
hrærið vel saman þar til blandan er volg. Setjið þá þurrgerið út í blönduna og hrærið saman. Leyfið blöndunni að standa í um 5 mínútur.
Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 10 mínútur.
Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið
eina stóra kúlu.
Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið
deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að
stærð.
Hitið ofninn í 200°C (blástur)
Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið bollurnar í höndunum og setjið rifinn mozzarella ost í deigið á sama tíma.
Leggið bollurnar á pappírsklædda ofnplötu.
Penslið bollurnar með eggi og setjið rifinn ost yfir.
Bakið við 200°C í 15 mínútur.
Síðan er bara að njóta vel!

