
Allt frá því ég var lítil stelpa hef ég haft gaman að því að pakka inn jólagjöfum. Ég er ekki viss um að mömmu hafi fundist áhugi minn eins skemmtilegur þegar ég var að taka mín fyrstu skref í innpökkun enda man ég að það endaði oft þannig að mamma pakkaði aftur inn á eftir mér……
En er það ekki alltaf þannig að æfingin skapar meistarann?
Það þarf ekki að vera með meistaragráðu í innpökkun til að gera jólagjafirnar fallegar. Innpökkun þarf heldur ekki að vera flókin. Hérna ætla ég að deila með ykkur nokkrum hugmyndum að einfaldri en fallegri innpökkun og eins og þið sjáið á myndunum þá nota ég alls ekki mikið skraut og leyfi einfaldleikanum að njóta sín.

Á myndinni hér að ofan nota ég bæði gjafaöskju og gjafapoka til að spara tíma og svo finnst mér það líka fallegt. Jólapappír er alls ekki eina leiðin í innpökkun!

Svo getur líka verið gaman að fara óhefðbundnar leiðir í innpökkuninni og leyfa hugmyndafluginu að ráð för.
Hérna ákvað ég að leyfa bangsanum að sjást enda er hann svo sætur að pakkinn verður bara krúttlegri fyrir vikið! Þessi gjöf er fyrir litla dúllu sem er ekki orðin eins árs og ég get ímyndað mér að henni muni finnast skemmtilegra að láta skrjáfa í sellófóninu heldur en að opna pakkann sem er undir bangsanum.
Eitt af því sem mér finnst sniðugt og skemmtilegt að nota við innpökkun eru skókassar. Ég safna skókössum yfir árið og pakka þeim svo inn fyrir jólin og nota sem gjafaöskjur. Það fer svo vel um jólagjafirnar í gjafaöskju og þæginlegt ef maður er að setja nokkra hluti saman.

Það er mjög einfalt að búa til gjafaöskju úr skókassa og jólapappír. Bara pakka kassanum inn, klæða hann í pappírinn:
Svo er bara að skreyta að vild.
Og notið það sem ykkur þykir fallegt, þá kemur gjöfin beint frá hjartanu.
Það er alltaf gaman að setja eitthvað persónulegt með hlutum sem maður hefur keypt, uppskrift, fallegt kort, ljóð eða eitthvað heimabakað, smákökur eða konfekt.
Oft erum við að velta því fyrir okkur hvaða gjafir henta ákveðnum aldri. Ég held að það sé alltaf erfitt að merkja hluti einhverjum ákveðnum aldri því hann er svo afstæður!
Ég myndi til dæmis alveg vilja eiga allt hérna á myndinni að neðan en ég veit líka að stelpurnar mínar 10 ára og 13 ára yrðu hæstánægðar með þetta allt.

Eitthvað mjúkt og hlýtt eins og kósý sokkar passa fyrir dömur á öllum aldri og fást í mörgum verslunum fyrir jólin. Þessir sokkar á myndinni hér fyrir ofan eru úr H&M og koma tveir saman í pakka.

Það er svo þæginlegt að nota gjafapoka eða gjafaöskju þegar maður setur nokkra hluti saman. Svo er bara að leika sér með litaþema og skreytingar.
Bleikt, hlýtt, fallegt og stílhreint……
Einfaldleikinn ræður ríkjum hjá mér í ár….
Þessi fallegu viðar jólatré fékk ég í Söstrene Grene og það er bæði hægt að nota þau sem skraut og merkimiða.
Það tekur enga stund að setja jólagjafir í sæta gjafapoka og skreyta.
Ykkur er frjálst að nota allar hugmyndir sem þið sjáið hérna og ég vona að innpökkunin ykkar verði skemmtileg stund.
Ef ykkur líkar það sem þið sjáið þætti mér mjög vænt um ef þið mynduð deila færslunni.
Þið finnið mig svo á Snapchat – bjargeyogco – en þar er alltaf eitthvað skemmtilegt í vinnslu!
Allar hugmyndir í þessum pósti eru mínar eigin og allar vörur eru í einkaeign. Engin fyrirtæki komu að vinnslu þessara hugmynda.
Fallegt hjá þér.
LikeLike