
Í febrúar fór ég af stað með einstaklingsráðgjöfina Leiðina að hjartanu eftir að hafa verið með fjölmörg námskeið síðustu ár og gefið út Hamingjubók sem er gott verkfæri að hafa á ferðalaginu sem Leiðin að hjartanu er.
Það má með sanni segja að síðustu mánuðir hafa verið ótrúlega annasamir og krefjandi en á sama tíma óendanlega lærdómsríkir. Ég fór af stað í þetta verkefni með þá sýn að ég yrði með nokkur viðtöl á viku samhliða fyrirlestrunum mínum á námskeiðum og vinnu fyrir ECPO. Það fór svo að ég hef verið fullbókuð frá upphafi og það er biðlisti eftir tímum. Ég lengdi vinnudagana og fór frá þeirri hugmynd að vera með nokkur viðtöl á viku í nokkur viðtöl á dag og tók mér svo frídaga inn á milli til að hlaða orkuna mína. Önnur verkefni hafa fengið að sitja á hakanum og bíða betri tíma.
Núna er ég fullbókuð fram að sumarfríi og þarf að gefa mér meiri tíma í mína hleðslu og endurheimt. Það skiptir ölli máli fyrir mig að setja heilsuna mína í fyrsta sæti því ef ég hef ekki tíma til að sinna mér get ég ekki gefið af mér og verið til staðar fyrir aðra. Þetta gildir alveg jafn mikið um vinnuna mína á skrifstofunni og stærsta verkefnið mitt í lífinu – móðurhlutverkið.
Ég hélt rafrænan fyrirlestur fyrir 110 manns á námskeiði í vetur og þar sem ég var að fara „hitta“ allt þetta frábæra fólk í fyrsta skipti gerði ég kynningu á sjálfri mér.
Hvað geri ég?
Það fyrsta sem kom upp í huga minn er móðurhlutverkið.
Ég er móðir þriggja dásamlegra barna og það að hafa fengið það hlutverk að vera mamma þeirra er stærsta og mikilvægasta hlutverk sem mér hefur verið falið.
Ég er sjálfstætt starfandi ráðgjafi með Leiðina að hjartanu og býð upp á námskeið, fyrirlestra og einstaklingsráðgjöf. Ég starfa einnig við auglýsingagerð á samfélagsmiðlum og fæ þar útrás fyrir sköpunargleðina og áhugamálin. Ég elska að stílisera myndatökur og búa til fallegt efni fyrir fyrirtæki til að nota á sínum miðlum. Það skemmtilegasta sem ég geri er að búa til fallega umgjörð og taka myndir og ég er svo lánsöm að hafa fengið tækifæri til þess að vinna við áhugamálið mitt í nokkur ár.
Eitt af því sem ég hef orðið vör við meðal mæðra í samfélaginu okkar er að það er eins og það sé ekki nógu stórt hlutverk að vera mamma. Eins og við þurfum á einhvern hátt að vera gera allt annað á sama tíma því ef þú ert „BARA“ mamma þá er það á einhvern hátt ekki nóg?
Það er eins og kröfurnar séu orðnar svo miklar að þú þurfir að vera vinna eða vera í námi samhliða fæðingarorlofi eða að minnsta kosti vera að skrifa bók eða stofna fyrirtæki á sama tíma.
Ef móðir er spurð „hvað gerir þú?“ á meðan hún er í orlofi þá er svarið oft á þessa leið – „ég er nú bara í fæðingarorlofi“
Eins og það sé eitthvað „BARA“ við það taka að sér umönnun ungabarns. Allir sem hafa farið í fæðingarorlof vita að það er mjög mikil vinna og það eru engar kaffipásur eða mötuneyti sem hægt er að fara í þegar hungrið fer að segja til sín.
Og þetta heldur áfram eftir að formlegu fæðingarorlofi lýkur. Ef móðir ákveður að vera lengur heima til að sinna sjálfri sér, barni/börnum og heimili byrja spurningarnar að koma;
„Hvenær ferðu aftur að vinna?“
„Bíddu er barnið byrjað á leikskóla en þú ert ennþá heimavinnandi?“
„Er barnið þitt ekki byrjað í grunnskóla? Af hverju ert þú einnþá heima?“
Hvenær gerðist það að við gerðum svo lítið úr því mikilvæga hlutverki okkar sem mæður að við settum orðið BARA fyrir framan þetta mikilvæga hlutverk?
BARA mamma.
Móðurhlutverkið er nefnilega ekkert BARA.
Móðurhlutverkið er ALLT.
Þegar ég horfi á hlutverkin mín í lífinu þá er það móðurhlutverkið sem skiptir mig mestu máli. Það er ekkert mikilvægara fyrir mig í lífinu en að vera til staðar fyrir börnin mín. Tíminn með þeim er svo dýrmætur að ég vil ekki skipta á honum fyrir neitt annað. Ég hef oft þurft að setja allskonar verkefni til hliðar til þess að geta haft meiri tíma fyrir fjölskylduna og ég mun aldrei sjá eftir einni mínútu.
En ég er líka mamma sem veit að ég þarf tíma fyrir heilsuna og sjálfa mig. Þessi tími er nauðsynlegur til þess að ég geti sinnt móðurhlutverkinu og allri þeirri vinnu sem fylgir af heilum hug. Ég get að minnsta kosti ekki verið til staðar fyrir aðra ef ég keyri um á tómum tanki, það er ég búin að læra af reynslunni.
Ástæða þess að ég vildi ræða þessi hlutverk er sú að eftir að ég fór að taka einstaklingsviðtöl við fólk sem kemur úr ólíkum áttum, vinnur ólík störf og býr við ólíkar aðstæður hef ég tekið eftir því að mjög margir nota orðið BARA fyrir þau störf sem þau vinna eða hlutverkin sem þau hafa. Svona eins og það sé ekki nóg á einhvern hátt.
Hvaða hlutverki sem þú sinnir í lífinu er ekkert bara. Við erum öll mikilvægar manneskjur í lífi annarra og leggjum okkar af mörkum til samfélagsins. “
Er eðlilegt að við skilgreinum okkur út frá því við hvað við vinnum?
Vinnan okkar er stór hluti af lífinu og með henni leggjum við okkar af mörkunum til samfélagsins. En við erum meira en vinnan okkar. Við erum manneskjur sem gegnum mörgum hlutverkum í lífinu og vinnan er eitt af þeim.
Hérna eru nokkur dæmi sem ég hef fengið að heyra frá ólíku fólki þegar ég hef spurt:
„Hvað gerir þú?“ (birt nafnlaust með leyfi)
“Ég er nú BARA nemi í háskóla. Já en svo vinn ég með skóla á Subway til að ná endum saman því námslánin duga ekkert. Já og svo er ég líka mamma, á tvö börn”
“Ég er ekkert að vinna…er BARA heimavinnandi eins og er. Við eigum langveikt barn sem þarf stöðuga umönnun. Svo á ég þrjú önnur börn og mann sem vinnur mikið í burtu frá heimilinu.”
“Ég er að vinna á spítala. En ég er BARA sjúkraliði. Langar að læra meira en ég hef ekki efni á því að fara aftur í skóla. Vinn aukalega við þrif í heimahúsum til að geta leyft mér eitthvað. Langar ekki að segja endalaust nei við börnin mín þegar þeim langar að fara í bíó eða leyfa okkur að fá okkur ís um helgar eða eitthvað “
“Ég er BARA að afgreiða í apóteki. Er í fjarnámi líka til að klára stúdentinn. Ég bý með mömmu minni sem er öryrki og hún þarf aðstoð við heimilisstörfin og ég sé um að versla inn fyrir heimilið og þannig”
Elsku þú – þú ert nóg.
Það er ekkert BARA við það vera háskólanemi.
Það er ekkert BARA við það vera heimavinnandi.
Það er ekkert BARA við það að vera sjúkraliði.
Það er ekkert BARA við það að vera ritari.
Það er ekkert BARA við það að vera mamma.
Það er ekkert BARA við það vera ljósmyndari.
Það er ekkert BARA við það að afgreiða í apóteki.
Það er ekkert BARA við það vera dagmamma.
Það er ekkert BARA við það að reka fyrirtæki.
Það er ekkert BARA við það að vinna í hlutastarfi.
Það er ekkert BARA við þig.
Nema kannski það að við erum öll BARA manneskjur að reyna gera okkar besta í þessu sem við köllum líf.
