Námskeið og einstaklingsviðtöl

Bjargey Ingólfsdóttir

B.A. félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands

Craniosacral Therapy frá Upledger á Íslandi

EASO ECPO Patient Council 

Í nokkur ár hef ég deilt minni lífsreynslu að fara frá því að vera örmagna á líkama og sál yfir í það að vera heilbrigðari, hamingjusamari og sátt í eigin skinni. Ég hef verið opinská um líf mitt sem einstaklingur sem lifir með sjúkdómnum offitu og sagt frá minni vegferð að betri heilsu með því að læra að elska sjálfa mig skilyrðislaust, lifa heilbrigðum lífsstíl og fara í efnaskiptaaðgerðina magaermi.

Ég starfa með evrópsku samtökunum EASO ECPO – European Coalition for People living with Obesity sem eru samtök fólks sem lifir með sjúkdómnum offitu. Sólveig Sigurðardóttir sem heldur úti miðlinum Lífsstíll Sólveigar er forseti samtakanna og saman vinnum við að margvíslegum verkefnum, þar á meðal útgáfu tímaritsins URHealth 4 life.

Markmið samtakanna European Coalition for People living with Obesity er að fræða almenning og fagfólk um sjúkdóminn offitu og hef ég fengið það tækifæri að fara á vegum samtakanna um allan heim á ráðstefnur, málþing og námskeið þar sem ég hef deilt minni sögu og vegferð sem einstaklingur sem lifir með offitu og hvaða leiðir ég hef farið til þess öðlast betri heilsu og lifa heilbrigðu lífi í sátt við sjálfa mig.

Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af aukinni fitusöfnun í líkamanum. Flókið samspil líffræðilegra þátta, erfða, atferlis, félagslegra- og umhverfisþátta taka þátt í stjórnun orkujafnvægis og söfnunar orkuforða. Offita getur leitt til margvíslegra sjúkdóma og skerðingar á lífsgæðum. Meðferð einstaklings með offitu kallar á heildræna nálgun þar sem huga þarf að daglegum lífsháttum, næringu, matarvenjum, hreyfingu, andlegri líðan og svefni.

Heimild: Embætti landlæknis og Félag fagfólks um offitu

Námskeið

Í samstarfi við Erlu Gerði Sveinsdóttur lækni kem ég að námskeiðunum Fræðsla fyrir aðgerð og Fræðsla eftir aðgerð sem voru í Heilsuborg en eru núna rafræn. Ég deili minni reynslu og vegferð með þátttakendum námskeiðanna á fyrirlestrum og svara spurningum.

Nýtt undirbúningsnámskeið fyrir aðgerð hefst 18. febrúar 2021. Námskeiðið er fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hvort efnaskiptaaðgerð geti hentað þeim sem meðferð við offitu. Námskeiðið fer fram á netinu og felur í sér fræðslu frá skurðlækni, lækni sem hefur sérhæft sig í meðferð offitu, næringarfræðingi og einstaklingum sem hafa sjálfir farið í gegnum aðgerðarferlið. Námskeiðið hentar einnig þeim sem vilja læra meira um sjúkdóminn offitu og meðferð hans þar á meðal lyfjameðferð.

Undirbúningur fyrir efnaskiptaaðgerð felst í stórum atriðum í tvennu. Annarsvegar að taka vel upplýsta ákvörðun um hvort þetta er rétta inngripið og rétti tíminn og vita hvað felst í þessari ákvörðun til langtíma. Hinsvegar að vera í sínu besta mögulega formi líkamlega og andlega þegar aðgerð er gerð. Það þýðir til dæmis að líkaminn sé vel nærður og þeir sjúkdómar sem til staðar eru séu í sínu besta jafnvægi.

Erla Gerður læknir tekur á móti skráningum á námskeiðið en hægt er að senda henni tölvupóst á netfangið erlagerdursveins@gmail.com.

Einstaklingsviðtöl

Samhliða námskeiðunum býð ég upp á einstaklingsviðtöl sem eru ætluð sem stuðningur við þátttakendur námskeiðanna og þá sem eru að hugsa um það að fara í efnaskiptaaðgerð. Viðtölin eru einnig fyrir þá sem hafa nú þegar farið í efnaskiptaaðgerð og/eða einstaklinga sem lifa með sjúkdómnum offitu og vilja stuðning á sinni vegferð.

Í einstaklingsviðtölunum aðstoða ég fólk við að gera sína persónulegu áætlun og að setja sér raunhæf markmið. Ég er til staðar fyrir einstaklinginn og veiti bæði stuðning og hvatningu.

Í fyrsta viðtali förum við yfir sögu einstaklingsins og hvaða þættir það eru sem hann/hún þarf helst aðstoð með. Við skoðum saman alla grunnþætti góðrar heilsu, svefn, matarræði, andlega líðan og hreyfingu. Í framhaldinu getur einstaklingurinn ákveðið hvort hann vilji eða þurfi áframhaldandi stuðning á sinni vegferð.

Hægt er að bóka einstaklingsviðtal með því að senda mér tölvupóst á netfangið bjargeyogco@gmail.com

Fyrsta viðtal er 90 mínútur og kostar 14.000 kr.

Eftir það eru viðtölin 60 mín. og kosta 10.000 kr.

Hamingjubók – dagbókin þín

Árið 2019 gaf ég út dagbókina Hamingjubók með það að markmiði að fleiri gætu nýtt sér þá aðferð sem ég notaði til þess að læra að treysta innsæinu og þekkja sjálfa mig betur. Allir þátttakendur námskeiðanna fá bókina í upphafi námskeiðs en þeir einstaklingar sem eru eingöngu að koma í viðtal en ekki á námskeiðin geta keypt eintak af bókinni hjá mér.

Ég hafði nokkrum árum áður en ég gaf bókina út byrjað að halda dagbók fyrir sjálfa mig sem ég kallaði Hamingjubók og fann hversu mikið það hjálpaði mér við að hugsa heildrænt um heilsuna mína. Bókina notaði ég til að huga að öllum grunnþáttum heilsu, svefni, hreyfingu, næringu og sjálfsumhyggju.

Ég beindi athyglinni að styrkleikum mínum og gaf mér tíma til þess að rækta þá hæfileika í gegnum skapandi verkefni. Ég veitti því athygli hvernig mér leið og ég skrifaði niður daglega tilfinningar mínar og hugsanir. Ég skrifaði í Hamingjubók hvað ég væri þakklát fyrir á hverjum degi og fannst það hjálpa mér mikið að fá útrás fyrir hugsanir og tilfinningar með þessum skrifum. Ég ákvað að setja mér lítil raunhæf markmið til að ná betri árangri og það gaf mér mikinn kraft að sjá hversu mörgum markmiðum ég hafði náð eftir nokkrar vikur og mánuði.

Ég fór að sjá heildarmyndina betur og hvaða þættir það væru sem hjálpuðu mér að líða betur. Smátt og smátt fór ég að vera orkumeiri, líða betur á líkama og sál og að lokum fór ég að sjá draumana mína rætast einn af öðrum.

Ég fann leið til þess að elska líkama minn skilyrðislaust eins og hann er.

Vera heilbrigðari og lifa í sátt með sjúkdómnum offitu með því að fara leiðina að hjartanu mínu, skref fyrir skref, einn dag í einu.

Þú getur það líka því hjartað þitt hefur öll svörin sem þú leitar að.

Bjargey Ingólfsdóttir

bjargeyogco@gmail.com

B.A. félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands

Craniosacral Therapy frá Upledger á Íslandi

EASO ECPO Patient Council 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s