
Íslenska ferðasumarið er svo sannarlega byrjað. Við erum öll frelsinu fegin eftir að hafa verið meira en minna heima síðustu mánuði vetrar. Í vor þegar samkomubanni lauk var ljóst að Íslendingar ætla svo sannarlega að taka sumarið með trompi. Fólk er farið af stað í fjallgöngur, í náttúrulaugar, að prófa ný hótel og veitingastaði og ferðavagnarnir eru mættir á Þjóðveg 1.
Ég skellti mér í fyrsta ferðalag sumarsins um Hvítasunnuhelgina og ferðaðist um Norðurland með góðum vinkonum. Það var algjörlega endurnærandi að fara í húsmæðraorlof eftir langan og erfiðan vetur.
Það var algjörlega mögnuð upplifun að fara að Goðafossi aleinar…ekki einn einasti ferðamaður. Það var mjög gaman að fá þetta einstaka tækifæri til þess að upplifa þessa ótrúlegu náttúrufegurð einar en á sama tíma mjög ljúfsár tilfinning. Mikið vildi ég óska þess að kórónuveira væri ekki til og við gætum haft ferðamennina hjá okkur til þess að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.
Goðafoss er svo magnaður. Orkan er svo sterk og öflug á þessum fallega stað.
Fjöllinn, himininn, vatnið og svarti sandurinn…
Ég hef alltaf heillast af öllu vatni og elska að skoða fossa, vötn og náttúrulaugar. Það er svo ótrúleg tilfinning að finna kraftinn og orkuna frá vatninu og náttúrunni fara um líkamann og gefa hverri einustu frumu næringu.
Sjóböðin á Húsavík, GeoSea eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Það eru einhverjir töfrar sem eiga sér stað þarna, bergvatn og jarðsjór sem gefa líkamanum steinefni og orku. Ég hef farið nokkrum sinnum í sjóböðin og finn alltaf hversu mikil áhrif þau hafa á líkamann hjá mér.
Fallegra útsýni er síðan ekki hægt að finna!
Húsavík er fallegur bær að heimsækja, mjög skemmtilegt svæði við höfnina, iðandi mannlíf og góðir veitingastaðir. Við fjölskyldan höfum heimsótt Húsavík nokkrum sinnum og okkur fannst æðislegt að fara í hvalaskoðun og á Hvalasafnið.
Við vinkonurnar fengum okkur að borða á veitingastaðnum Sölku eftir endurnærandi ferð í sjóböðin. Æðislegur staður sem ég mæli svo sannarlega með.
Á meðan ferðalaginu stóð gisti ég á Akureyri sem er alltaf jafn skemmtilegur staður að heimsækja. Það er líka svo þægileg fjarlægð frá Akureyri að mörgum perlum Norðurlands og gaman að fara þaðan í dagsferðir.
Á Akureyri finnst mér alltaf jafn gaman að skoða Lystigarðinn og það er alveg orðin hefð hjá mér að fara á Greifann þegar ég kem norður og fá mér humarsúpuna hjá þeim. Hún er sú allra besta.
Heimsóknin í Lystigarðinn var eins og stutt heimsókn til Kaupmannahafnar, það var eitthvað við stemninguna og góða veðrið sem gerði það að verkum að okkur vinkonunum fannst við hreinlega komnar til útlanda.
Yndislegur garður og fallegur sumardagur á Akureyri.
Það er fátt betra fyrir sálina en gott veður, sól og falleg blóm með góðri vinkonu.
Við fengum okkur svo súrdeigs pizzu á veitingastaðnum Verksmiðjunni á Akureyri sem ég hef einmitt ekki heimsótt áður og hann var mjög fínn. Alltaf jafn gaman að prófa eitthvað nýtt.
Næsta ferðalag var svo í Mývatnssveit þar sem við keyrðum um sveitina, prófuðum veitingastaðinn Gamla Bæinn og fórum í Jarðböðin.
Jarðböðin í Mývatnssveit eru ótúlega falleg.
Ég get nú sagt ykkur frá því að þarna hef ég baðað mig síðan ég var unglingur, en þá var ég að vinna á sumrin í Mývatnssveit og við vinkonurnar fórum í lónið á kvöldin eftir vinnu og vorum þar oft langt fram á nótt en þá voru ekki búningsklefar eða aðgangseyrir…bara lónið og fjöllin allt í kring.
Það er alltaf jafn gaman að koma í Jarðböðin, og einmitt kjörið tækifæri núna að skella sér á meðan það er ekki troðfullt af ferðamönnum. Við vinkonurnar ræddum það einmitt hvað við erum heppnar að búa á Íslandi og hafa þetta fallega land til að skoða og njóta.
Ég er svo ótrúlega spennt fyrir þessu ferðasumri, við ætlum að vera dugleg að heimsækja nýja staði og okkar gömlu góðu. Suðurlandið er á dagskrá hjá okkur næstu helgi, og síðan Vestmannaeyjar í lok júní. Snæfellsnesið er líka komið á listann og svo á það bara eftir að koma í ljós hvaða ævintýri bíða okkar fjölskyldunnar í sumar.