
Við fjölskyldan fórum í yndislegt vetrarfrí til Orlando í febrúar og vorum svo heppin að ná að fara í ferðina okkar áður en skellt var í lás og Bandaríkjunum lokað, en það var raunveruleikinn nokkrum dögum eftir að við komum heim aftur til Íslands.
Stór draumur rættist i ferðinni en hann var að fara í nýja Disney skemmtigarðinn Star Wars Galaxy’s Edge sem er klárlega flottasti skemmtigarður sem við höfum farið í um ævina. Það eitt að ganga þar um er eins og að vera staddur í miðri Star Wars kvikmynd.
Í garðinum eru tvö tæki sem eru eins og að fara í gegnum Star Wars veröld. Annað þeirra er Fálkinn – Millennium Falcon þar sem sex manns fara saman inn í geimskip og fljúga svo í gegnum sýndarveröld út í geim og lenda að sjálfssögðu í stjörnustríði með tilheyrandi látum.

Hitt tækið er Rise of the Resistance og ég held bara hreinlega að engin orð fái því lýst hversu magnað það er! Það tók um 45 mínútur frá því við fórum inn um innganginn að tækinu þar til við vorum komin í gegn. Þetta var gjörsamlega sturluð upplifun frá upphafi til enda.
Fyrst fórum við í gegnum göng sem leiddu okkur að geimskipi sem flutti okkur í aðaltækið. Á leiðinni hittum við allskonar persónur úr Star Wars og vissum lítið hvað biði okkar. Geimskipið stöðvaðist svo eftir stutta ferð og þegar dyrnar opnuðst fórum við inn í stóran sal þar sem her af Stormtroopers tóku á móti okkur.
Þetta var ótrúleg upplifun en það eru um 80 leikarar í búningum inni í þessarri veröld í allskonar hlutverkum en það má með sanni segja að þetta er flottasta leikrit sem við höfum nokkurntímann séð!
Þegar við vorum búin að fara í gegnum salinn vorum við leidd inn í klefa þar sem búið var að „handtaka okkur“. Þangað inn komu persónur úr Star Wars sem voru að ræða saman um það hvað ætti að gera við okkur og á þeim tímapunkti var þetta orðið svo raunverulegt að krökkunum stóð ekki alveg á sama!
Úr klefunum vorum við svo færð í tækið sjálft en þar sátum við saman í vagni sem fór með okkur í gegnum ótrúlega Star Wars veröld og ég verð bara að láta þetta myndband af You Tube fylgja með svo þið getið séð hvernig það er að fara þarna í gegn:
Algjörlega sturlað!
Næst tók við hjá syninum að búa til sitt eigið geislaverð, en það er boðið upp á það í garðinum og einnig er hægt að búa til sitt eigið vélmenni.
Fyrir ykkur sem stefnið á heimsókn í þennan garð þá ætla ég að nýta tækifærið og benda ykkur á að það þarf að panta tíma í þetta í gegnum Disney appið og þeir mæla með að gera það þremur mánuðum áður en maður hugsar sér að heimsækja garðinn. Við rétt náðum að panta tíma með tveggja mánaða fyrirvara.
Hann fékk að velja sér hlutina í sverðið sjálfur og svo var kennsla í því hvernig sverðið er smíðað. Virkilega skemmtilegt og geislasverðið er að sjálfsögðu með ljósum og hljóðum. Það má líka vera flott miðað við hvað það kostar….hóst…hahaha!
Geislasverðið er glæsilegt og okkar maður ekkert lítið sáttur með það!
Það var ekki leikið með margt annað í ferðinni en geislasverðið og svo tók við skemmtilegt púsluspil að koma sverðinu heim – það kemst ekki í ferðatösku! Það fylgir með því flott taska en svo pökkuðum við því inn í bóluplast og pappa svo það myndi ekki skemmast og það skilaði sér sem betur fer heilt heim til Íslands.
Í Star Wars Galaxy’s Edge er hægt að hitta persónur úr Star Wars og láta taka af sér myndir með þeim og margt annað í boði eins og að borða á allskonar skemmtilegum Star Wars veitingastöðum.

Nokkur góð ráð frá mér fyrir þá sem stefna á heimsókn í Star Wars Galaxy’s Edge
- Vertu með vatn og eitthvað matarkyns í bakpoka. Við mættum 06:45 í garðinn og vorum í röð i tvo klukkutíma til þess að komast inn og í fyrsta tækið. Það getur verið heitt og því er nauðsynlegt að allir drekki vel í röðinni.
- Þú verður að vera með Disney appið til þess að geta skráð þig í stafræna röð í flottasta tækið – The Rise of the Resistance. Röðin opnaði kl. 08:00 í appinu og á nokkrum sekúndum voru öll sætin farin, við fengum númerið 81 en það komust bara 102 hópar í tækið þennan dag.
- Skoðaðu kort af garðinum og You Tube myndbönd áður til þess að sjá hvað þið viljið prófa og skoða – það er ekki hægt að komast yfir allt á einum degi svo það er gott að forgangsraða eftir áhuga.
- Það er klikkað mikið af fólki þarna og bara gott að hafa það í huga að það þarf ekki að ná að gera allt – líka slaka á og njóta!
Það er allt lagt í að gera þennan garð raunverulegan og meira segja plönturnar eru eins og í nýjustu kvikmyndunum.
Þessi garður er bara ein stór upplifun frá upphafi til enda og ég get lofað ykkur því að þangað fer ég aftur með fjölskyldunni. Við foreldrarnir skemmtum okkur ekkert síður en börnin þarna inni og eigum öll frábærar minningar frá þessum skemmtilega degi.
May the force be with you!