
Snillingurinn okkar varð 10 ára í febrúar og hann hélt skemmtilega Star Wars afmælisveislu fyrir fjölskylduna.
Hann er mjög mikill Star Wars aðdáandi og var um það bil að fara yfir um af spenningi þegar veislan var haldin því tveimur dögum síðar vorum við á leið í ævintýraferð til Orlando þar sem til stóð að fara í nýja Disney skemmtigarðinn Star Wars Galaxy’s Edge.

Það var mjög auðvelt fyrir mig að skreyta með Star Wars þema fyrir þessa veislu, en ég átti til heima svartan dúk frá Lín Design sem ég setti á veisluborðið, stráði gylltum stjörnum yfir og notaði myndir úr herbergi sonarins til að búa til réttu stemninguna. Myndirnar eru frá SKER hönnunarhúsi en þær hefur hann átt í nokkur ár og eru þær í miklu uppáhaldi.
Ég keypti nokkrar blöðrur í Partýbúðinni en mér fannst það alveg tilheyra á fyrsta stórafmælinu að fá 10 ára blöðrur til að leggja áherslu á þennan áfanga!
Það kom ekkert annað til greina frá afmælisbarninu en að hafa Star Wars köku í veislunni og ég pantaði hana og allar hinar veitingarnar frá Tertugalleríi Myllunnar.
Mér finnst alltaf gott að blanda saman einhverju góðu matarkyns og svo sætum kökum í veislum, en þá finna allir eitthvað við sitt hæfi.
Tapas snitturnar frá Tertugalleríi Myllunnar eru svo mikil snilld á veisluborðið, bragðgóðar og fallegar fyrir augað. Þessar eru í algjöru uppáhaldi hjá mér með tapas skinku, Camembert osti og vínberi.
Við fjölskyldan elskum brauðterturnar frá Tertugalleríinu og það kom ekkert annað til greina en að hafa þær á veisluborðinu og skreyta aðeins í anda Stjörnustríðs!
Kjötbollurnar vinsælu eru einfaldasti veislumatur sem hægt er að bjóða uppá svona fyrir utan það að panta bara tilbúið frá Tertugalleríinu….
Það er engin sérstök uppskrift af þessum dásamlegu bollum, bara IKEA kjötbollur í pott og hitað saman með bláberjasultu og sweet chili sósu. Ég nota yfirleitt eina krukku af bláberjasultu á móti einni lítilli flösku af sweet chili sósu. Líka hægt að setja saman í eldfast mót og hita í ofni. Bollurnar eru bæði góðar heitar og kaldar og í veislum hef ég þær yfirleitt kaldar þar sem ég hef útbúið þær löngu áður en veislan byrjar.
Ég var lengi búin að láta mig dreyma um að smakka þessa æðislegu skúffubita frá Tertugalleríinu en þeir eru geggjaðir! Mjög gott súkkulaðbragð og þeir eru dúnmjúkir og bráðna í munni. Við skreyttum þá með Star Wars LEGO köllum en það er um að gera að nota það sem til er heima í skreytingar.

Afmælisdrengurinn var alsæll með veisluna og afmælisdaginn sinn, en hann er mikill sælkeri eins og foreldrar sínir og hafði sterkar skoðanir á því hvaða veitingar hann vildi hafa í afmælisveislunni.
Þar sem Star Wars afmæliskakan var með svo flottri mynd tímdum við ekki að stinga afmæliskertunum í hana og settum kertin á Marengsbombuna sem kom ótrúlega vel út!
Það var ekki fræðilegur möguleiki að fá Spora til að horfa framan í myndavélina þar sem kjötbollurnar á veisluborðinu voru aðeins of freistandi en ég læt samt mynd fylgja af þeim félögunum í afmælisveislunni þar sem þeir eru bara einu númeri of sætir!
Þetta var yndislegur afmælisdagur og alltaf jafn gaman að fagna með fjölskyldunni. Erfiðast er að skoða þessar myndir af gómsætu veitingunum því nú langar mig bara í eina væna sneið af tertu og nokkra kleinuhringi!
Ég er svo að vinna í færslu um nýja Star Wars Galaxy’s Edge skemmtigarðinn í Orlando en ferðin þangað var ógleymanleg og þessi garður er svo sannarlega toppurinn fyrir alla sanna Star Wars aðdáendur!