
Í ár ákvað ég að prófa eitthvað alveg nýtt og bauð vinkonum mínum í saumaklúbbnum upp á kalkúnabringu borna fram með eplum, trönuberjum, pekanhnetum og salati.
Ég bakaði Jóla Brie ost með hlynsírópi og pekanhnetum sem hægt var að borða með kalkúnabringunni eða setja á súrdeigssnittubrauð sem ég hafði til hliðar.
Það er mjög einfalt að baka ost, en ég set hann í eldfast mót, helli hlynsírópi yfir og set á hann pekanhnetur. Baka við 150 gráður á blæstri í um 20-30 mín þar til osturinn er orðinn mjúkur í gegn.
Ég var ekki alveg viss hvort það væri nóg að hafa bara djúsí salat og bakaðan ost með kalkúnabringunni þar sem við erum vön að hafa góða sósu með kalkún og ég gerði því einfalda sósu með og það kom virkilega vel út allt saman.
Kalkúnasósa
- Kjúklingasoð 2 dl.
- Kalkúnakraftur 2 msk.
- Rjómi 3 dl.
- Smjör
- Gráðaostur 3 msk.
- Rifsberjasulta 3 msk.
Það er mjög erfitt að gefa nákvæma uppskrift að sósu þar sem maður er auðvitað alltaf eitthvað að smakka til. Ég mæli með því að gefa sér góðan tíma í að gera sósur því það er betra að hafa tíma til að bæta og breyta ef það þarf.
Í þessarri einföldu sósu nota ég um 2 dl af kjúklingasoði sem fæst í fernum. Ég set það í pott með um 1 dl af vatni og fæ suðuna upp. Næst set ég um 2 msk af fljótandi kalkúnakrafti útí og hræri vel saman. Bæti því næst um 3 dl. af rjóma, klípu af smjöri, 3 msk af gráðaosti og 3 msk af rifsberjasultu í sósuna.
Leyfi öllu að malla saman á vægum hita og hræri reglulega í þar til sósan er orðin silkimjúk. Svo er bara að smakka til og í góðu lagi að setja salt og pipar og finna rétta bragðið.
Kalkúnabringuna elda ég í 30-40 mínútur pr. hvert kíló við 170 gráður.
Ég kryddaði hana með kalkúnakryddi og salvíu og setti vel af smjöri yfir. Ég eldaði bringuna í eldföstu móti með loki en einnig er hægt að pakka henni inn í álpappír eða vefja inn í hreint viskustykki og smyrja vel með smjöri.
Þegar bringan var fullelduð og búin að kólna setti ég hana niðurskorna yfir salatið og penslaði örlítið með berjasultu og hlynsírópi.
Í þessa uppskrift er tilvalið að nota afgang af kalkúni ef þið eigið hann til og um að gera að nota það sem ykkur finnst gott og passa vel með. Ég notaði græn epli, klettasalat, blandað salat, trönuber, pekanhnetur og vínber.
Ég dekkaði borðið með fallegum hvítum dúk frá Lín Design sem mér finnst vera einstaklega jólalegur með þessum hvítu frostrósum.
Ég setti gylltan löber yfir dúkinn og hafði gyllta undirdiska með hvíta stellinu en mér finnst það mjög hátíðlegt og fallegt að blanda saman hvítu og gylltu. Ég hafði hvítar og gylltar tauservíettur en mér finnst það alltaf gera borðið svo glæsilegt að nota tauservíetturnar og svo er það líka umhverfisvænna því þær er hægt að nota ár eftir ár.
Í eftirrétt bauð ég upp á Oreo sælkera ístertu með heitri súkkulaðisósu og rjóma en uppskriftina finnur þú hér:
Það eina sem ég breytti var að ég muldi Oreo kexkökur í botninn á hringlaga ísformi, setti ísblöndu í formið (og rest í annað box) skreytti svo með bræddu suðusúkkulaði og muldum kexkökum og frysti.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og þakka kærlega samfylgdina hér á árinu. Ég ætla að njóta með mínum nánustu og hér heima verða kósý og afslöppuð náttfatajól í bland við skemmtileg jólaboð og samveru með fjölskyldu og vinum.