
Það var svo sannarlega ilmur af vori í Glasgow en ég flaug þangað á Sumardaginn fyrsta og eyddi vikunni þar, fyrst í fríi með eiginmanninum en svo fór ég á ráðstefnu og var þar í fjóra mjög annasama daga.
Ferðin var algjör draumur í alla staði og ég ætla að deila með ykkur nokkrum myndum og ferðasögunni í stuttu máli.
Fallegu blómin á kirsuberjatrjánum….
Ráðstefnan sem ég var á hét ECO2019 en ég fór út á vegum samtaka sem heita ECPO – European Coalition for People living with Obesity og ég mun á næstunni segja ykkur betur frá samtökunum og því sem ég er að vinna að með þeim.
Við hjónin eyddum tveimur dögum í að skoða borgina og njóta. Við prófuðum nokkra æðislega veitingastaði enda er úrvalið ótrúlega mikið og gaman að prófa mismunandi staði.
Topolabamba er æðislegur mexíkóskur staður, skemmtileg suðræn stemning þar og geggjaður matur!
Við eyddum örugglega nokkrum klukkutímum þar, bara að smakka allskonar rétti og fullt af mismunandi kokteilum.
Það er bara svo ljúft að vera í fríi og þurfa ekkert að spá í því hvað tímanum líður!
Við settum Topolabamba efst á listann yfir staði sem við ætlum aftur á næst þegar við förum til Glasgow.
Zizzi er skemmtilegur ítalskur staður með öllu þessu klassíska, pizzum, pasta, kjötbollum og geggjuðu hvítlauksbrauði.
Revolution er æðislegur veitinga- og skemmtistaður í miðbænum með geggjaða drykki og góðan mat. Hann er virkilega fallega innréttaður og mjög gaman að borða þar.
Við hjónin fórum svo eitt kvöldið á stað sem heitir Mother India en hann er æðislegur indverskur staður.
Þar fengum við algjörlega geggjaðan mat!
Alvöru indverskur matur eins og hann gerist bestur og virkilega notalegur staður.
Hótelið sem við gistum á heitir Radison Red og það fær mín bestu meðmæli fyrir utan morgunverðinn, ég var ekki mjög ánægð með hann. En herbergin, aðstaðan og þjónustan alveg frábær! Ótrúlega góð rúm og allt svo hreint og fínt.
Útsýnið frá herberginu var með því flottara sem ég hef séð en ég horfði yfir ráðstefnuhöllina. Og það var æðislegt að geta verið með þetta útsýni þegar ég var að vinna í tölvunni á milli fyrirlestra og funda.
Blóm og kampavín frá eiginmanninum, hann kann að gleðja sína!
Það er fátt sem gleður mig jafn mikið í þessum heimi og falleg blóm og því var ég heldur betur komin í himnaríki í Glasgow Botanic Gardens!
Í samstarfi við Lindex á Íslandi valdi ég mér nokkrar flíkur fyrir ferðina og þessi fallega bleika kápa er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Í garðinum eru mörg mismunandi gróðurhús og það er bara í einu orði dásamlegt að ganga þarna um og skoða blómin og plönturnar.
Og ilmurinn þarna inni….himneskur!
Plöntur gera mig bara svo ótrúlega hamingjusama! Ef ég gæti búið í gróðurhúsi þá myndi ég örugglega gera það.

Ég mæli svo sannarlega með því að sleppa einum degi í búðum ef þið eruð á leiðinni til Glasgow og fara og skoða Botanic Gardens, sérstaklega ef þið eruð svona blóma og plöntuaðdáendur eins og ég!
Garðurinn sjálfur er líka æðislegur með allskonar trjám og blómum.
Trén eru svo falleg í blóma á vorin.
Glasgow er svo sannarlega í blóma um þessar mundir og það var æðislegt að vera í borginni á þessum árstíma. Ég hef yfirleitt alltaf farið til Glasgow að hausti til eða rétt fyrir jólin svo þetta var virkilega skemmtileg tilbreyting.
Við George Square er gaman að sitja og horfa á mannlífið, en ég naut þess í botn að fá smá sól!
Fallegt að sjá allt græna grasið og þessar fallegu byggingar í borginni.
Sumarið er komið í Glasgow!
Ég elska þessa borg, en þetta var í fimmta sinn sem ég heimsótti hana og svo sannarlega ekki í það síðasta. Það er náttúrulega bara snilld að flugið þangað er ekki nema tveir tímar!
Við George Square er Jamie’s Italian og ég kíkti þangað og fékk mér sjávarrétta pasta sem var himneskt! Litríkur matur er líka mitt uppáhald.
Mæli með Jamie’s Italian í Glasgow, hann hefur aldrei klikkað í mínum ófáu heimsóknum þangað í gegnum tíðina.
Ein spegla selfie á Jamie’s Italian, en vaskarnir þar eru sjúklega flottir! Á dögum eins og þessum þar sem ég labbaði borgina þvert og endilanga ásamt því að kíkja í búðir er nauðsynlegt að vera í góðum fötum og íþróttaskóm. Ég valdi mér Basic leggings og mjúkan bómullarbol úr Lindex en það skiptir mig ótrúlega miklu máli að fötin mín séu þægileg á ferðalögum en auðvitað verða þau líka að vera smart!
GoMA – Gallery of Modern Art er skemmtilegt safn sem ég hef svo ótrúlega oft gengið framhjá en aldrei gefið mér tíma til að fara inn í og skoða svo ég tók mér tíma í þetta sinn. Það skemmtilega við Glasgow er einmitt að það er frítt inn á öll söfn og það er tilvalið að njóta lista og menningar og nýta sér það.
Ég sá svo sannarlega ekki eftir því að fara inn í GoMA en þakglugginn þar inni er guðdómlega fallegur!
Eins og ég var áður búin að nefna þá er endalaust úrval af skemmtilegum veitingstöðum í Glasgow en minn allra uppáhalds staður þar heitir ASK ITALIAN og þar fást bestu pizzur í heimi!
Svo fallegur staður og maturinn sá allra besti. Ég er án gríns að hugsa um að bóka aðra ferð til Glasgow bara til að fara út að borða á ASK ITALIAN.
Mæli endalaust með þessum stað ef þið eruð á leiðinni til Glasgow!
Annað sem ég mæli mjög mikið með að skoða í ferð til Glasgow er KELVINGROVE safnið. Þar eru mörg dásamlega falleg listaverk og að ganga þar um er veisla fyrir augað!
Við Sólveig vorum saman á ECO2019 ráðstefnunni en við vinnum báðar fyrir ECPO – European Coalition for People living with Obesity og okkur var boðið í kvöldverð og skemmtun á Kelvingrove safninu eitt kvöldið og það var mögnuð upplifun!
Þetta er svo ótrúlega fallegt safn og gaman að fá að borða þar inni og hlutsta á fallega tónlist.
Það var búið að lýsa allt safnið upp með allskonar ljósum og þetta var eins og ganga í gegnum ævintýraheim!

Ég bara elska þetta safn! Þetta er þriðja heimsóknin mín þangað og mér finnst það alltaf jafn geggjað.
Þetta kvöld var klárlega einn af hápunktum ferðarinnar, alveg mögnuð upplifun.
Allur ECPO hópurinn fór líka út að borða saman eitt kvöldið á æðislegan stað í miðbænum sem heitir ANCHOR LINE en hann er í ótrúlega fallegu húsi eins og þið getið séð á þessarri mynd.
Það eru svo margar fallegar byggingar í Glasgow, þetta er klárlega ein af þeim.
Við Sólveig saman úti að borða á ANCHOR LINE.
Maturinn var góður en félagsskapurinn var enn betri!
Þessi ferð var eitt ævintýri frá upphafi til enda og hvað það gerir manni gott að fara í nýtt umhverfi, skoða og njóta.
Svona á lífið að vera!