
Fyrir marga er morgunverðurinn mikilvægasta máltíð dagsins. Um helgar og á frídögum finnst okkur fjölskyldunni skemmtilegt að borða saman morgunverð þó hann sé kannski frekar nær hádegi þegar maður hefur sofið aðeins út.

Um helgina fengum við okkur ljúffengan og litríkan morgunverð og ég ætla að deila með ykkur nokkrum myndum og hugmyndum af því hvað okkur finnst gott að hafa á svona morgunverðarhlaðborði þegar við gerum okkur dagamun.
Við vorum með úrval af ávöxtum, gríska jógúrt með heimagerðu múslí og berjum, ferskan nýkreistan appelsínusafa, þrjár tegundir af ristuðum beyglum, osta, kjötálegg, guacamole, rjómaost og grænt pestó.
Ég notaði fallega hvíta hördúkinn minn frá Lín DESIGN og skreytti borðið með túlípönum. Ég setti svo fjaðrir og túlípana með fallegu tauservíettunum sem ég keypti í H&M HOME um daginn en það fannst mér gera ótrúlega mikið fyrir borðið.
Mér finnst það alltaf svo skemmtilegt þegar maður sest til borðs að það sé falleg skreyting á disknum og í þetta sinn hafði ég skreytingarnar mismunandi milli diska sem setti mjög skemmtilegan og léttan svip á borðið.
Að nota fjaðrir og lítið egg gerir skreytinguna páskalega og er tilvalin hugmynd að páskaskreytingu enda eru páskarnir bara handan við hornið.
Túlípanarnir eru alltaf klassískir og minna mig svo mikið á vorið. Mér finnst það koma mjög vel út að hafa þá með í skreytingunni á servíettunum.
Svona leit borðið út áður en kræsingarnar voru bornar á borð.
Látlaust en litríkt og ljúft – minnir mig á vorið og sumarið!
Beyglur frá Myllunni hafa lengi verið í uppáhaldi hjá okkur, en núna vorum við öll að smakka í fyrsta skipti nýja tegund af beyglum frá Myllunni með jalapeno og osti.
Við vorum öll sammála um að þær eru æðislegar! Ég elska allt með osti og það kemur skemmtilega á óvart hversu gott það er að hafa líka jalapeno með, rífur aðeins í en er alls ekki of sterkt. Við prófuðum allskonar útfærslur á áleggi og það var snilld að setja á þær rjómaost með kryddblöndu og skinku, eða góðan ost og grænt pestó.
Þessi rann ljúflega niður með ferskum appelsínusafa.
Beyglur með kanil og rúsínum eru líka alltaf svo dásamlega góðar, sérstaklega með smjöri og osti!
Túlípanarnir setja sumarlegan svip á borðið og gera það svo hlýlegt og heimilislegt.
Guacamole passar svo ótrúlega vel með osti og jalapeno svo það var ekki annað hægt en að prófa það með osta og jalapeno beyglunum – kom ekki á óvart en það var sjúklega gott!
Hérna er æðisleg uppskrift af heimagerðu gucamole:
- 2 stór þroskuð avócado
- 1 hvítlauksrif
- 1/2 rauðlaukur
- 1 tómatur
- Skvetta af safa úr lime
- Smátt skorinn koríander
- Salt og pipar
Öllu blandað saman og maukað með töfrasprota.
Beygla með rjómaosti, pipar og reyktum silung er líka ótrúlega góð!
Við erum mjög hrifin af grískri jógúrt með heimagerðu múslí og berjum, en það er morgunverður sem ég fæ mér nokkrum sinnum í viku.
Það er ótrúlega einfalt og fljótlegt að búa til sitt eigið múslí og skemmtilegt að prófa sig áfram með mismunandi útfærslur.
Hérna er ein lauflétt útgáfa:
- 1 dl möndlur
- 1 dl kasjú hnetur
- 1 dl haframjöl
- 1/2 dl. sesamfræ
- 1/2 dl. sólkjarnafræ
- 1/2 dl hörfræ
- 2-3 msk kókosolía
- 2-3 msk hunang
- Hakkið möndlur og kasjú hnetur örlítið með töfrasprota, ég vil ekki hafa þær of smáar, svo ég passa mig að hakka þær ekki of mikið.
- Blandið hnetunum svo saman í skál með haframjöli og fræjum.
- Bræðið kókosolíu og hunang saman við lágan hita og blandið saman við allt hitt.
- Setjið svo á bökunarplötu og ristið í ofni við 130-150 gráður á blæstri í 20-30 mínútur.
- Passið að fylgast með og velta því að aðeins um á plötunni þegar tíminn er hálfnaður til þess að það brenni ekki. Athugið að ofnar eru mjög mismunandi og múslíið er tilbúið þegar það hefur brúnast fallega.
- Geymið svo múslíið í glerkrukku eða plastboxi og njótið vel.
Ferskir niðurskornir ávextir gera morgunverðarhlaðborðið girnilegt og fallegt og ekki er verra að hafa nýkreistan appelsínusafa með. Þessar sætu glerflöskur fann ég í Tiger.
Ég vona að þið getið nýtt ykkur einhverjar hugmyndir héðan næst þegar þið ætlið að gera ykkur dagamun og fá ykkur góðan morgunverð með vinum eða fjölskyldu.
Það er líka svo mikil snilld að eiga beyglur frá Myllunni í frysti eða taka þær með sér í bústaðinn, þá er bara að skella þeim í brauðristina og þær verða eins og nýbakaðar.
Wow… great… 👍👍👍
LikeLike