Orlando draumur!

IMG_8306.jpg

Við fjölskyldan fórum í sannkallaða draumaferð til Orlando í Flórída um síðustu jól og áramót. Ferðin var ákveðin tveimur árum áður en það var að mörgu að huga þar sem við fórum saman öll stórfjölskyldan 16 manns!

IMG_0541_Fotor
Hluti af okkar frábæra hóp á leiðinni í Universal Studios

Þegar margir ferðast saman til Orlando er mjög gott að ákveða með góðum fyrirvara hvenær ferðin verður farin því ef maður kaupir flugmiðann um ári fyrir brottför er hægt að gera góð kaup, eða allavega fá flugsætið á lægsta mögulega verði. Við keyptum okkar flugmiða í janúar og fórum síðan í desember.

Við tók síðan mikil skipulagning, hvað væri gaman að gera og sjá og við eyddum löngum tíma í að ákveða hvaða skemmtigarðar yrðu fyrir valinu með tilliti til aldurs og áhuga þeirra sem voru með í ferðinni.

Á endanum var ákveðið að kaupa 14 daga aðgangspassa í alla Universal garðana en þá höfðum við ótakmarkaðan aðgang í þessar tvær vikur að Universal Studios, Islands of Adventures, The Wizarding World of Harry Potter sem er á milli þessarra tveggja garða og Volcano Bay sem er vatnsrennibrautagarður.

IMG_8326_Fotor99

Að vera inni í þessum skemmtigörðum er svo mikil klikkun. Svo sjúklega gaman og mikið stuð, en líka ótrúlega krefjandi því það er svo mikið af fólki allstaðar, raðir til tunglsins og til baka og maður þarf að labba ótrúlegar vegalengdir yfir daginn þegar maður er að koma sér milli staða.

Bara það að komast inn í garðinn sjálfan tók oft um klukkutíma frá því að maður fékk bílastæði og var kominn inn. Þetta er svolítið eins og að fara í gegnum flugvöll, það er vopnaleit og allur farangurinn þinn skoðaður, fingraförin tekin af öllum og farið yfir það hvort maður eigi ekki örugglega þessi börn sem maður kemur með inn í garðinn. Þetta er allt gott og blessað og veitir manni ákveðið öryggi að vita af því að öryggisgæslan er ströng, en maður minn hvað þetta gat tekið langan tíma…skiljanlega þegar það eru hundruðir þúsunda annarra gesta að fara inn í garðinn á sama tíma.

IMG_8657_Fotor

Síðan gleymir maður því bara hvað það er troðið þarna inni og manni er illt í fótunum eftir að hafa gengið marga kílómetra og hvað það eru langar raðir þegar maður sér börnin sín skemmta sér svona ótrúlega vel.

Og ég meina það svo innilega að það var bara dásamlegt að sjá hvað þau höfðu gaman að þessu. Og við fullorðna fólkið ekki síður, maður verður bara eins og lítið barn þarna á jólunum, svo ótrúlega skemmtilegt allt saman.

IMG_8403

Í Universal Studios eru tækin í bíómyndaþema og þau eru svo ótrúlega flott og mikið í þau lagt. Tek það sem dæmi að þegar við fórum í Transformers rússíbanann eða tækið, þá sest maður í vagn sem keyrir um með mann í gegnum ótrúlegan sýndarveruleika og það er eins og maður sé raunverulega inni í bíómyndinni. Ég fæ bara gæsahúð af því að rifja þetta upp, það var algjörlega mögnuð lífsreynsla að upplifa þessa snilld.

IMG_8628_Fotor

Eitt af því sem við lærðum á því að fara svona oft í garðana þar sem við vorum með þennan 14 daga passa var að það er snilld að kaupa svona glös og poppfötur, en þá getur maður fyllt drykki á þau ókeypis á mörgum stöðum í garðinum og fengið áfyllingu á poppið fyrir lítið. Við vorum líka alltaf með einhver orkustykki og nóg af vatni í bakpoka því börnin vildu fara úr tæki í annað tæki allan daginn og höfðu lítinn tíma til að setjast niður og borða.

IMG_8647.jpg

Auðvitað fengum við okkur yfirleitt einu sinni að borða á meðan við vorum í görðunum, það er mikið úrval af allskonar veitingastöðum þar. En þegar maður má engan tíma missa í rússíbönum og öllum hinum skemmtilegu tækjunum er gott að vera líka með eitthvað á sér til að borða á meðan maður stendur í röð.

IMG_8627.jpg

Jurassic Park svæðið í Universal var í miklu uppáhaldi hjá okkur, en þar voru ótrúlega skemmtileg tæki. Það er geggjað að fara á bát í gegnum svæðið með öllum risaeðlunum sem öskra á mann og sprauta vatni og það er raunverulega eins og maður sé staddur í bíómyndinni sjálfri. Ferðin endar svo á vatnsrússíbana þar sem maður fellur niður um nokkra metra!

Við fórum nokkrar ferðir í þessi vatnstæki en ég mæli með því að fara í þau í lok dags því maður verður rennandi blautur í gegnum öll fötin þrátt fyrir að við höfðum verið með regnslár yfir okkur sem eru seldar í garðinum. Eftir fyrstu ferðina vorum við alltaf með aukaföt á krakkana í bakpokunum og trúið mér þau voru alltaf notuð.

IMG_8633

HULK rússíbaninn var geggjaður – trúið mér ég þorði ekki að fara í hann sjálf og sat niðri fyrir framan hann með hjartað í buxunum á meðan ofurhugarnir létu sig vaða. Ég sat þar sem ég sá fólkið koma út eftir að hafa farið í marga hringi og fólk var annað hvort grænt í framan og skelfingu lostið eða skellihlægjandi! Mitt lið var í síðarnefnda hópnum og hljóp beint aftur í röðina til að fara aðra ferð!

IMG_8396.jpg

JAWS vakti mikla lukku og allt svæðið þar í kring, virkilega flott og skemmtilegt að skoða sig um þar.

IMG_8321.jpg

Þessi tvö voru bara ánægð með að vera í kjafti hákarls, kannski af því hann var úr plasti!

IMG_8331.jpg

Það var mikið að sjá og skoða í þessum ótrúlegu skemmtigörðum og það hefði aldrei verið hægt að komast yfir allt á einum degi.

The Wizarding World of Harry Potter er sjúklega flottur garður og enginn Harry Potter aðdáandi ætti að láta hann framhjá sér fara ef hann er staddur í Orlando.

Það er algjörlega mögnuð upplifun að fara með lestinni í garðinn, en þetta er alvöru lest með allskonar uppákomum á leiðinni og að koma út úr lestinni inni í The Wizarding World of Harry Potter er eins og að stíga inn í alvöru ævintýraheim.

Þessi unga dama var í eigin draumaheimi að skoða allt í Harry Potter veröldinni enda búin að lesa bækurnar og var nýbúin að taka próf úr bókunum og vinna verkefni um söguna í skólanum. Þvílík upplifun.

Í garðinum er hægt að fara í allskonar leiktæki, leysa þrautir og galdra og upplifunin er svolítið eins og að vera inni í Harry Potter sögunni. Síðan er hægt að fara inn í kastalann og hitta allskonar sögupersónur, dreka og galdrafólk.

IMG_8389_Fotor

Ef það er eitthvað sem ég elska við að vera stödd í USA er að fara á Cheesecake Factory. Ég hreinlega elska þennan stað. Allt þetta mexíkóska sem þeir bjóða uppá er ótrúlega ferskt og gott og síðan fékk ég guðdómlega gott sjávarrétta pasta í einni ferðinni okkar þangað sem ég gleymdi reyndar að taka mynd af…en mæli klárlega með!

IMG_8207_Fotor.jpg

Það tilheyrir svo auðvitað að smakka hjá þeim geggjuðu ostakökurnar en ein sneið dugir 5 manna fjölskyldu vel í desert!

IMG_0610 (2)

Það var svo yndislegt að vera innan um plámatrén og í sólinni í desember, en við vorum mjög heppin með veður í þessar þrjár vikur sem við vorum í Orlando. Suma daga fór hitinn niður í 18 gráður og þá var frekar kalt, svona peysuveður en flesta daga var hitinn um 24 gráður og fór alveg í 30 gráður einhverja daga. Við fengum líka á okkur rigningu og þrumuveður tvo daga en það var ekkert mál, við eyddum þeim bara í búðunum.

IMG_8195_Fotor.jpg

Orlando kom okkur skemmtilega á óvart, þetta var fyrsta ferðin mín þangað og krakkanna líka en við féllum alveg fyrir Flórída lífinu. Það var ekki amalegt að slaka á við sundlaugabakkann í desember þegar við erum vön að vera í frostinu og myrkrinu heima á Íslandi.

IMG_8191.jpg

Þar sem það eru plámatré og sól er ég mjög sátt!

IMG_8444

Ljúfa lífið við sundlaugabakkann…

IMG_9111_Fotor.jpg

Kosturinn við að kaupa svona 14 daga passa inn í Universal garðana var að það fylgdi með að fara í Volcano Bay sem er vatnsrennibrautagarður. Við nýttum okkur það tvisvar sinnum og það var svo gott að láta þreytuna aðeins líða úr sér á sólbekkjunum þar og í öldulauginni.

IMG_9194_Fotor.jpg

Það voru líka ófáar ferðir farnar í rennibrautirnar enda hver annarri flottari og skemmtilegri. Ég fór nú alveg nokkrar ferðir í rennibrautirnar þó ég láti rússíbana alveg í friði!

Hérna sjáið þið rennibraut sem fer í gegnum eldfjallið í miðjum garðinum og svo er öldulaugin þar beint fyrir neðan.

IMG_9110

Það var mikið fjör hjá okkur í öldulauginni!

Volcano Bay er líka mjög fallegur garður með mikið af gróðri og blómum.

IMG_9175

Garðurinn er vel skipulagður og öll aðstaða til fyrirmyndar, en eitt af því sem okkur fannst algjör snilld er að þú þarft ekki að standa í löngum röðum þar til þess að komast í rennibrautirnar. Við innganginn færðu armbandsúr sem þú notar til að skrá þig inn í brautirnar og svo pípir úrið þegar röðin er komin að þér og þú ferð beint inn.

IMG_9178.jpg

Það er eitthvað fyrir alla í þessum fallega garði, bæði rosalegar rennibrautir fyrir spennufíkla og svæði með litlum rennibrautum og vatnstækjum fyrir þau allra yngstu og svo er allt þar á milli.

IMG_9201

Við áttum alveg yndislegan tíma saman í Flórída og hlökkum mikið til þess að fara þangað aftur einn daginn. Ef ég ætti að velja eitt orð yfir þennan stað þá er það fjölskylduparadís. Það finna allir eitthvað við sitt hæfi þarna og úrvalið er endalaust af skemmtigörðum, veitingastöðum, verslunum og allskonar afþreyingu fyrir alla.

IMG_9202.jpg

Undirskrift Bjargey

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s