Að þykja vænt um sjálfan sig

Sjálfsumhyggja er ekki sjálfsagður hlutur. Það er ekki sjálfsagt að við hugsum vel um okkur. Það geta verið margir þættir sem hafa áhrif á það hvernig við hugsum um okkur sjálf og hvernig við hugsum til okkar sjálfra. En góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að tileinka sér sjálfsumhyggju og læra að þykja vænt um sjálfan sig.

Sjálfsumhyggja er ekki að vorkenna sér, sjálfsumhyggja er ekki að finnast maður eiga allt gott skilið af því maður á svo erfitt eða af því allir aðrir eru svo leiðinlegir.

Að sína sér samkennd er hins vegar allt annar hlutur. Að hlúa að okkur og vera til staðar fyrir okkur sjálf þegar við eigum erfitt eða þurfum á styrk að halda í erfiðum aðstæðum. Að sýna sjálfum sér samkennd er stór hluti af því að þykja vænt um sjálfan sig og sýna sjálfum sér sjálfsumhyggju. Standa með sjálfum sér.

Að rækta sjálfan sig, líkama og sál er hluti af sjálfsumhyggju. Það skipir svo miklu máli að finna sínar leiðir að því að sýna sjálfum sér þá virðingu og væntumþykju sem maður á skilið og ég ætla að deila með ykkur nokkrum leiðum sem hafa hjálpað mér.

Fyrst og fremst þarf maður að hugsa fallega til sjálfs síns og vera í tengingu við hjartað og sálina. Leyfa sér að finna og upplifa þær tilfinningar sem við berum í brjósti hverju sinni. Það getur verið auðveldara að deyfa erfiðar tilfinningar en það er mikið frelsi að leyfa þeim bara að koma upp á yfirborðið og viðurkenna þær.

Það sem ég geri daglega til þess að sinna hlúa að sjálfri mér er ekki alltaf það sama en ég ætla að deila með ykkur mínum grunngildum þegar kemur að því að iðka sjálfsumhyggju og þykja vænt um sjálfa mig.

NÆRING

Ég vel eins hollan mat og ég get. Ég hugsa um hvaða næringargildi hann hefur og hvort hann sé góður fyrir mig. Hvaða næringu gefur hann líkamanum, nærir hann frumurnar, gefur hann mér orku? Ég borða líka fallegan og litríkan mat.

HREYFING

Ég hreyfi mig til þess að líða vel. Hreyfingin mín er engin kvöð eða skylda, bara eitthvað hverju sinni sem gefur mér orku og vellíðan. Ég fer mikið í göngutúra, sund og lyfti í ræktinni. Ég er ekki týpan sem elskar hóptíma í ræktinni og ég hlusta bara á sjálfa mig, líkama og sál og vel þá hreyfingu sem mér finnst vera skemmtileg.

IMG_6644

HUGLEIÐSLA

Ég hef stundað hugleiðslu daglega í nokkur ár. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið. Í hugleiðslu næ ég að hlaða batteríin, ég hreinsa hugann, minnka streitu og verki og ég sef betur þegar ég hugleiði. Í hugleiðslu ástandi fær líkaminn tækifæri til þess að endurnýja frumur og gera við. Að hugleiða er eins og að stinga líkamanum í hleðslu þar sem hann fær allt sem hann þarf á að halda á þeim tímapunkti.

Núvitund er sú vitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi á þessu augnabliki, að því sem er, eins og það er, án þess að dæma.

Hugleiðsla er áhrifarík aðferð til þess að iðka núvitund.

Það var stórkostleg uppgötvun fyrir mig persónulega þegar ég byrjaði að hugleiða fyrir nokkrum árum síðan. Ég fann loksins leið til þess að kyrra hugann og áhrifin af hugleiðslunni voru ótrúleg. Það sem mér þótti líka alveg ótrúlega merkilegt var hversu stutt ég þyrfti að hugleiða til þess að finna fyrir jákvæðum áhrifum.

IMG_6936_Fotor

DEKUR

Já ég er SPA drottning….ég elska að fara í nudd, liggja í heitum pottum og slaka á í endurnærandi umhverfi. Það ekki að ástæðulausu að ég var fengin til að fara með konur í Lúxus SPA ferðir erlendis!

Ég fer reglulega í SPA og læt dekra við mig og svo á ég líka þetta fallega SPA heima hjá mér, en heitt bað, kertaljós og góð krem gera mikið fyrir mig.

img_6195

EINVERA

Einvera skiptir mig máli og er mér mikilvæg.

Það eru ekki allir sem skilja það að mér finnist gott að vera ein en það er líka allt í lagi.

Ég nýt þess að vera í friði, þurfa ekki að tala við neinn, þurfa ekki að hlusta á neinn, bara vera ein. Það finnst mér vera gott og gefur mér orku.

Ég fór ein til Spánar í frí fyrir sjálfa mig í heila viku. Hugleiddi og stundaði yoga á hverjum degi. Það er ein besta gjöf sem ég hef gefið sjálfri mér í lífinu hreinlega. Og ég er búin að ákveða að fara í fleiri svona ferðir í framtíðinni.

img_2231_fotor

ANDLEG NÆRING

Andleg næring skiptir mig svo ótrúlega miklu máli. Að hlusta á hjartað mitt og vera í góðri tengingu við innsæið.

Andleg næring er allt sem gefur okkur góða orku, næring fyrir sálina. Getur verið svo margt!

Samvera með þeim sem okkur þykir vænt um. Hlæja með vinkonum, fara út og gera eitthvað skemmtilegt. Lesa góða bók eða bara sitja úti í skógi og horfa á fallegu trén.

IMG_6422

VITSMUNALEG NÆRING

Vitsmunaleg næring eru verkefni sem skora á okkur og reyna á hugann. Að þurfa að hugsa í lausnum og læra eitthvað nýtt. Fara út fyrir þægindarammann, stökkva í djúpu laugina. Ég elska að skrifa og fæ þannig útrás fyrir sköpunargleðina og reyni á hugann. Ég skora líka á sjálfa mig með því að halda fyrirlestra og námskeið.

SKAPANDI VERKEFNI

Skapandi verkefni leyfa sköpunargleði okkar að njóta sín. Með því að skapa eitthvað út frá hæfileikum okkar og því sem við höfum ástríðu fyrir leyfum við styrkleikum okkar að vaxa og sjálfstraustið eykst. Ekkert hefur gefið mér jafn mikinn styrk í lífinu og að sjá hugmyndir og drauma verða að veruleika með vinnusemi, metnaði og sköpunargleði að leiðarljósi.

Mundu að FRAMTÍÐIN er allt sem þú munt SKAPA!

 

HAMINGJA

Það eru eflaust margar skilgreiningar til á hamingju enda verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvað hamingja er. Mín hamingja er að vera sátt í eigin skinni, líða vel á líkama og sál. Það gerir mig líka hamingjusama að hlúa að sjálfri mér, sýna mér sjálfsumhyggju.

Þannig að ef ég stunda það sem ég hef talið upp hér að ofan, næri líkama og sál, leyfi mér að njóta augnabliksins og eiga góðar samverustundir með þeim sem mér þykir vænt um þá er ég hamingjusöm.

IMG_6839

Það er hægt að vera mjög hamingjusamur þó maður sé að fara í gegnum erfiða tíma eða upplifir stundum erfiðar minningar og tilfinningar. Það er eitt af því sem ég þurfti að læra fyrir nokkrum árum að ég má vera hamingjusöm þó lífið sé ekkert alltaf auðvelt eða þau verkefni sem ég tekst á við hverju sinni.

Ég hef farið í gegnum mína vegferð að læra að elska sjálfa mig og þykja vænt um mig, en sjálfsumhyggja er ekki eitthvað box sem maður tikkar í eða strikar út af „To do“ listanum.

Sjálfsumhyggja er hluti af lífinu.

Auðvitað koma dagar og tímabil þar sem maður hefur minni tíma fyrir sjálfan sig en maður kannski þarf á að halda en að setja það í forgang að hafa tíma fyrir sjálfan sig getur gert kraftaverk.

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s