
Dásemdar drengurinn okkar hann Ingólfur Birgir varð 9 ára á sunnudaginn og við héldum að sjálfsögðu upp á afmælið hans og áttum góða stund með fjölskyldunni sem kom í veisluna.
Það sem þessi gleðigjafi gefur okkur mikið á hverjum einasta degi. Hann er mjög rólegur og jarðbundinn en mikill húmoristi og finnst fátt skemmtilegra en að segja okkur brandara og fyndnar sögur. Hann er góður vinur og hér er alltaf fullt hús af strákum sem vilja leika svo það er alltaf mikið fjör í kringum hann.
Hann er mjög heimakær og vill mjög oft frekar vera heima heldur en að fara eitthvað út jafnvel þó það standi eitthvað skemmtilegt til. Honum finnst samt mjög gaman að ferðast með okkur fjölskyldunni og er mjög ævintýragjarn og dýravinur mikill.
Myndin af honum hérna að ofan verður alltaf dýrmæt minning fyrir mig, en ég tók hana í Universal Studios um jólin á meðan við biðum í 5 kílómetra langri röð…..eftir að komast að í eitthvað tryllitæki þarna í garðinum. Þegar ég var búin að taka myndina vildi hann fá að hvísla að mér og sagði „mamma, ég ætla bara að segja þér að þetta er besti dagur lífs míns“.
Og þá var ég bara búin að gleyma því hvað röðin var löng.
Við deilum því áhugamáli að vera alveg heilluð af sjónum og ströndinni og hérna áttum við yndslegar stundir saman á South Beach í Miami rétt fyrir áramót.
Hann fékk svo líka að upplifa stóran draum í Flórída um jólin – að synda með höfrungum. En ég hafði farið með systrum hans að synda með höfrungum á Spáni fyrir nokkrum árum en þá var hann of ungur til að geta fengið að synda með og fékk bara að horfa á. En við fjölskyldan fórum öll saman núna og honum fannst þetta algjörlega geggjað.
Þeim kom mjög vel saman, voru bara að spjalla um daginn og veginn.
9 ára afmælisveislan fyrir fjölskylduna var haldin hér heima á afmælisdaginn sjálfan og við buðum uppá ljúffengar veitingar í samstarfi við Tertugallerí Myllunnar.
Okkur finnst alltaf gott að hafa afmælisveislurnar frekar snemma á daginn og hafa þá einhvern góðan mat í boði og svo eitthvað sætt í eftirrétt.

Tapas og kokteilsnitturnar voru ótrúlega góðar eins og alltaf en við höfum margsinnis boðið upp á snittur frá Tertugalleríi Myllunnar í veislum hjá okkur.
Laxasnitturnar voru geggjaðar! Svo ótrúlega ferskar og matarmiklar.
Hvítlauks hummus kokteilsnitturnar eru vegan og nýja uppáhaldið mitt!
Þær eru með hvítlauks hummus, sólþurrkuðum tómötum, döðlum, perum og þurrkuðum apríkósum – algjört sælgæti.
Tapas snitturnar með tapas skinku, camembert, rifsberjahlaupi og vínberi eru einnig í miklu uppáhaldi hjá mér.
Algjörlega ómótstæðilegar!
Roast-beef snitturnar eru líka klassískar og matarmiklar, slá alltaf í gegn.
Svo ótrúlega girnilegar og fallegar á veisluborðið.
Ég var ekki með miklar skreytingar í veislunni þar sem sonurinn hafði ekki mikinn áhuga á því en ég setti þessa fallegu túlípana sem ég fékk frá mömmu nokkrum dögum fyrir afmælið á veisluborðið.
Blóm gera allt fallegra og túlípanar hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Þeir minna mig á vorið og fyrst að febrúar er alveg að verða búinn ætla ég að fara leyfa mér að hlakka til vorsins.
Bestu brauðtertur sem ég hef smakkað eru frá Tertugalleríinu og það eru allir í fjölskyldunni sammála! Það er vandræðalegt að segja frá því að það er yfirleitt slegist um síðustu sneiðina!
Brauðterturnar eru jafn góðar og þær eru fallegar….svo glæsilegar á veisluborðið. Við vorum með brauðtertu með laxi sem var æðisleg og kláraðist upp til agna.
Og mína allra uppáhalds með rækjum…
Rúllutertubrauðið með skinku og aspas fyllingu var samt lang vinsælast í þessu afmæli…
Algjör snilld!
Kemur tilbúið frá Tertugalleríi Myllunnar og það eina sem maður þarf að gera er að hita í ofni og þá er það tilbúið! Svakalega gott.
Við vorum auðvitað með eitthvað sætt og gott í eftirrétt, en það tilheyrir alveg í svona afmælisveislum.
Franska súkkulaðikakan rann ljúflega niður með rjóma….
Og uppáhalds bomban okkar allra í fjölskyldunni….
Banana og kókosbomban var geggjuð eins og alltaf. Marengs, rjómi, bananar og súkkulaði…þarf ég að segja meira!
Veislan heppnaðist ótrúlega vel og við vorum alveg í skýjunum með veitingarnar, ég get alltaf treyst því að fá allt upp á tíu hjá Tertugalleríi Myllunnar.
Sonurinn fór alsæll að sofa enda búin að eiga frábæran afmælisdag með fjölskyldunni og svo glaður með allar fínu afmælisgjafirnar. Sérstaklega fiskana og fiskabúrið…já já það er alveg búið að fjölga um heila sex nýja syndandi fjölskyldumeðlimi hér á bæ…
Næsta afmæli er svo bara á morgun hjá okkur fjölskyldunni þar sem ég undirrituð fagna þrjátíu og eitthvað árum….hver er svosem að telja!

En ég hef ákveðið að fresta afmælinu um nokkra daga eða vikur – auðvitað ekki afmælinu sjálfu en veisluhöldum þar sem ég þarf að hvílast fyrir smá aðgerð sem ég fer í á föstudaginn. En ég var alveg frekar mikið svekkt að geta ekki haldið afmælisveisluna sem ég var búin að plana og bjóða í en lífið fer ekki alltaf eins og maður hafði planað það svo ég ætla bara að halda uppá afmælið með pompi og prakt þegar ég hef náð heilsu á ný. Engar áhyggjur – það verður svo sannarlega fagnað enda fagna ég hverjum einasta degi eins og ég eigi afmæli!
Lífið er bara svo skemmtilegt þegar maður lifir því eins og það sé veisla dag eftir dag!