Minni tiltekt – meiri frítími!

img_6075

Í upphafi hvers árs eru flestir að taka niður jólaskrautið, margir setja sér ný markmið, skipuleggja og hreinsa til í lífinu. Við setjum athyglina á heilsuna, skipulag og tímastjórnun. Það er alltaf gott að hreinsa aðeins til, líta yfir farinn veg og ákveða hvað við viljum leggja áherslu á, eyða tíma okkar í og hvert við viljum stefna.

img_6086

Eitt af því sem mér finnst gott að gera reglulega er að hreinsa til á heimilinu. Fara yfir hluti og losa mig við það sem ég er ekki að nota lengur. Ég hef alltaf verið skipulögð að eðlisfari og finnst virkilega gott að hafa hreint og fínt í kringum mig.

img_5905

Trúið mér – það er samt ekki alltaf hreint og fínt heima hjá mér! Og ástæðan fyrir því að ég næ ekki alltaf að halda öllu hreinu og fínu er að lífið er bara of skemmtilegt til þess að eyða því öllu í tiltekt. Ég hef bara ekki tíma í endalausa tiltekt og langar ekki til þess að eyða öllum mínum frítíma í þrif.

img_5810

En þá komum við að stóru spurningunni, hvað gerir maður ef maður vill hafa heimilið hreint og skipulagt en hefur ekki tíma eða áhuga á því að vera alltaf að taka til?

Fyrir nokkrum árum las ég mikið af greinum um mínimalisma og allskonar ráð um það hvernig hægt væri að minnka tíma sem færi í tiltekt og þar af leiðandi eiga meiri frítíma.  Sú hugmynd heillaði mig mjög mikið enda eyddi ég þriggja barna móðirin ótrúlega miklum tíma á hverjum einasta degi í að taka til, ganga frá og að reyna að halda öllu í horfi á heimilinu.

IMG_5819.jpg

Ein af mínum uppáhalds er höfundurinn Marie Kondo en hún hefur skrifað bækur og greinar um sína aðferð við að skipuleggja heimilið til þess að auka vellíðan og hamingju fólks í lífinu. Aðferðin hennar kallast KonMari og hægt er að lesa bókina til að kynna sér aðferðina betur. Marie Kondo segir að þegar heimilið er orðið snyrtilegt í eitt skipti fyrir öll, hlutirnir færri og skipulagið betra, þá rofar líka til í huganum: hugsunin skýrist, sjálfstraustið eykst og verkefnin framundan verða yfirstíganleg.

IMG_9130 (2)

Núna eru nýjir þættir með henni á Netflix þar sem hún hjálpar öðru fólki við að gera breytingar á sínu heimili til þess að auka lífsgæðin og hamingjuna og ég mæli klárlega með því að horfa á þá ef þig langar að prófa aðferðina eða kynnast henni betur.

img_5795

En eftir að ég fór að kynna mér þessi fræði sá ég alltaf betur og betur hvað það hefur mikil áhrif á mína líðan að hafa heimilið skipulagt og hreint, en heimilið er minn griðarstaður og þar vil ég geta slakað á, unnið, lifað lífinu og liðið vel. Það geri ég ekki á meðan allt er í drasli og óreiðu – það finnst mér vera streituvaldandi.

img_5939

Stærsta uppljómunin mín var að nota aðferðina hennar Marie Kondo þegar kemur að því að velja hluti sem ég hef í kringum mig. Það á við um föt, hluti á heimilinu og það sem ég eyði peningunum mínum í.

Reglan er einföld – ef hluturinn veitir mér gleði þá fær hann pláss í mínu lífi – ef ekki – þá kaupi ég hann ekki eða hann fær að fara út af heimilinu.

img_6075

Marie hvetur fólk til að taka hvern einasta hlut á heimilinu og skoða það hvort hann gefi manni gleði eða ekki og hvort maður hafi not fyrir hann. Ég hef ekki gengið svo langt að fara yfir hvern einasta hlut en ég er á góðri leið með að gera það og ég ætla að halda þessu skemmtilega verkefni áfram.

img_5954

En hvers vegna að standa í þessu?

Ég upplifi það á eigin skinni að dót hefur áhrif á mig og hvernig mér líður. Sumir hlutir gefa mér gleði og orku eins og plöntur, falleg matarstell, ljósmyndir, listaverk, föt sem mér finnst falleg og þægileg og allskonar krem og snyrtidót. Og ef þessir hlutir eiga sinn stað og eru í röð og reglu, njóta þeir sín betur.

IMG_3222

Þið kannist kannski við orðatiltækið “Less is More” og það er einmitt það sem mér finnst höfða til mín. Að fallegir hlutir fái sitt pláss og njóti sín í stað þess að vera umkringdir öðru dóti og falla í skuggann af öðrum skrautmunum. Og þarna verður hver og einn að meta fyrir sig hvað er nóg og hvað hentar, en ég finn að ég vil hafa færri hluti en fleiri.

IMG_6195.jpg

Á meðan margir hlutir gefa mér gleði og orku er á sama tíma allskonar dót sem fer í taugarnar á mér og pirrar mig. Dæmi um slíka hluti eru snúrur, smáhlutir sem eiga engan stað, hreinlætisvörur, of mikið af dóti og óreiða, föt sem ég nota ekki, blöð og ruslpóstur.

Eftir að hafa fengið góðan innblástur frá Marie Kondo með KonMarie aðferðinni og lestur á allskonar greinum um einfaldara líf byrjaði ég að fara markvisst yfir heimilið og fór að fjarlægja allt sem pirraði mig eða var ekki að gefa mér neina sérstaka gleði eða ánægju.

Og úrkoman varð eiginlega alveg ótrúleg.

Minna dót – minni tími í tiltekt – meiri frítími í staðinn.

IMG_6023 2

Hérna eru nokkur skref sem ég tók:

  1. Losaði mig við öll föt sem pössuðu ekki, voru slitin eða ég notaði ekki – gerði það sama við föt barnanna. Allur fatnaður fór í fatagáma Rauða Krossins.
  2. Minnkaði leikföng hjá krökkunum. Gaf á leikskóla og í dægradvöl barnanna.
  3. Losaði mig við allt úr eldhúsinu sem var aldrei notað – glös, plastbox, áhöld og hitt og þetta sem hafði safnast saman með árunum. Það fór í Nytjagáminn og öðlaðist vonandi nýtt heimili hjá einhverjum sem vantaði þessa hluti.
  4. Skipulagði alla skápa, geymslu og skúffur. Allt fékk að fara ef það var ekki notað eða yrði ekki notað á næstunni.
  5. Afþakkaði fjölpóst.
  6. Allt dót sem ég þarf að eiga eða nota en mér finnst ekki fallegt fær að vera inni í skáp, dæmi um það eru hreinsiefni, hreinlætisvörur á baði, snúrur, ljósaperur og batterí, áhöld í eldhúsi.
  7. Dót sem er í stöðugri notkun en gefur mér kannski ekki neina sérstaka gleði reyni ég að hafa eins lítið og hægt er og skipulagt. Það á við um útiföt, skó, skólatöskur, íþróttaföt barnanna, þvottabala og annað slíkt.
  8. Ég fór að versla inn meira meðvitað. Ef mér vantar það ekki eða það heillar mig ekki upp úr skónum – kaupi ég það ekki. Þannig eyðir maður ekki peningum í óþarfa og það verður meira pláss í skápunum fyrir það dót sem maður á nú þegar.
  9. Við fjölskyldan veljum frekar upplifun í gjafir til hvors annars heldur en dót og hluti eins og leikhúsmiða, út að borða og ferðalög. Ef við gefum einhverja hluti þá eru það hlutir sem vantar eða eitthvað sem mun raunverulega gleðja þann sem tekur við honum.

IMG_3185

Næstu skref eru að halda heimilinu skipulögðu og leyfa ekki drasli að safnast upp. Ég er í þeim fasa núna því fyrir jólin tók ég alla skápa í gegn, flokkaði, skipulagði og losaði mig við dót sem var ekki í notkun, pirraði mig eða var bara hreinlega fyrir mér.

Síðasta ár var mjög annasamt hjá okkur fjölskyldunni, mörg stór verkefni í gangi, mikið um ferðalög innan lands sem utan og ég var annan hvern mánuð að taka upp úr ferðatöskum eða pakka niður. Við gáfum okkur mikinn tíma í að ferðast og á móti gafst lítill tími til að skipuleggja skápa og losa sig við dót jafnóðum svo það var vikilega gott að taka heimilið almennilega í gegn fyrir jólin.

IMG_5960

Maður verður að fara reglulega yfir allt og losa sig við dót sem er ekki lengur í notkun. Þó ég reyni að vera mjög meðvituð um það hvað fær að koma inn á heimilið en það er alveg ótrúlegt hvað dót safnast hratt upp aftur.

IMG_6035_Fotor

Svefnherbergið er einn sá staður sem mér finnst skipta mjög miklu máli að sé notalegur og snyrtilegur. Svefnherbergið fyrir mér er staður þar sem hægt er að slaka á og fylla á orkuna. Ég vil hafa hrein rúmföt, snyrtilega búið um, ekkert óþarfa dót eða raftæki.

IMG_4013_Fotor

Friðsælt eins og ég vil hafa það!

IMG_4062

Ég hef það fyrir reglu að á fataslánni minni í svefnherberginu eru bara föt sem mér finnst falleg, ég nota og mér líður vel í. Ef ég væri með föt þar sem ég passa ekki í myndi það hafa áhrif á mína líðan og ef ég hefði föt þar sem ég nota ekki eru þau að taka dýrmætt pláss sem ég gæti nýtt undir flík sem gefur mér gleði.

Og já falleg föt gefa mér gleði og hamingju, það jafnast ekkert á við tilfinninguna að klæða sig í eitthvað fallegt og líða vel í fötunum.

IMG_4011_Fotor

Litir og hlutir sem gefa mér gleði fá pláss á heimilinu. Ég hef málað öll rými hússins í litum sem mér finnst vera fallegir og hlutir sem gefa mér gleði og ánægju fá að prýða heimilið. Hlutir sem hafa tilfinningalegt gildi fá líka sinn stað eins og þessi fallegi antík stóll sem ég fékk að gjöf frá ömmu minni.

IMG_4035_Fotor

Málið er bara að þegar búið er að skipuleggja heimilið vel er svo miklu auðveldara að halda því við og hafa hreint og fínt. Færri hlutir – minni tiltekt. Minna dót – minna áreiti.

Ég vil frekar eyða mínum frítíma með fjölskyldunni þar sem við njótum samverunnar og leikum okkur í stað þess að vera alltaf að taka til og pirra mig á óþarfa dóti sem gefur okkur enga gleði og tekur dýrmætt pláss.

IMG_9510 (2)

Þetta eru bara mínar hugleiðingar um málefnið en ekki mín skoðun á því hvernig aðrir eigi að hafa sitt heimili. Maður ætti alltaf að fylgja sinni sannfæringu og hafa heimilið sitt eins og manni líður vel með og hentar þörfum hvers og eins.

Ef þig langar að hreinsa til, fækka hlutum og skipuleggja betur eru mín ráð til þín að gera ekki allt í einu, taka góðan tíma í verkefnið og gera þetta í einhverri röð. Hver kannast ekki við að ætla að taka til í einum skáp í eldhúsinu en vera allt í einu komin með allt út úr öllum skápum á eldhúsborðið og gólfið og hafa svo ekki tíma til að ganga frá öllu á þeim tímapunkti…allavega ég!

 Ef þú vilt breytingar þá er bara að setja niður lista og forgangsraða verkefnunum, hefjast handa og hafa gaman að!

IMG_4119

Undirskrift Bjargey

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s