
Aðventan er minn uppáhalds árstími. Jólaundirbúningur í öllu sínu veldi, jólatréð skreytt, gjöfum pakkað inn, piparkökur bakaðar, kertaljós og kósýheit.
Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og ég sé aðventuna alltaf fyrir mér eins og í klassískri jólamynd, snjókoma, falleg jólalög og hlý og fallega skreytt stofa….með glæsilegu jólatré og spennandi jólapökkum.
En á þessum árstíma finn ég líka alltaf fyrir auknu stressi í samfélaginu, allt á fullu og pressan að vera búin að öllu fyrir einhvern ákveðinn tíma, kaupa þetta og hitt og græja og gera. Ég skil það vel að mörgum finnist þessi árstími erfiður og finni fyrir aukinni streitu og kvíða.
Jólin mín hafa alltaf verið þessi góða tilfinning í hjartanu, kærleikurinn og samveran með fjölskyldunni. Ég man alltaf eftir háskólaárunum þegar ég átti tvær litlar stelpur sem biðu með eftirvæntingu eftir jólunum en ég og pabbi þeirra þurftum að læra langt fram á kvöld og um helgar og vinna líka með skólanum til að eiga fyrir smá salti í grautinn. Það gafst því ekki mikill tími til þess að föndra eða baka piparkökur fyrir jól.
Ég saknaði þeirra og fannst það erfitt að geta ekki verið að njóta aðventunnar með þeim á meðan ég var í próflestri. Ég hugsaði afskaplega lítið um það að ég gæti ekki gefið þeim stórar eða dýrar jólagjafir en ég þráði ekkert heitar en að eiga aðeins meiri tíma til að gefa þeim. Háskólaárin liðu sem betur fer hratt og það var ekkert betra en að geta eytt með þeim meiri tíma eftir að þeim kafla lífsins lauk.

Aðventan hjá okkur er róleg og afslöppuð. Ég fer lítið í búðir og verslunarmiðstöðvar, stressa mig ekki á þrifum eða jólabakstri og eyði mestum tíma eftir vinnu í að slaka á með fjölskyldunni. Við undirbúum jólin á okkar hraða, gerum það sem við viljum hverju sinni og ég held ekki fast í einhverjar ákveðnar hefðir því ég hef komist að því að það er mjög streituvaldandi að ætla gera eitthvað á ári hverju eins og það hefur alltaf verið gert. Ég ákvað fyrir einhverjum árum síðan að hætta þeirri pressu á sjálfa mig og ef mér fannst einhverjar “hefðir” ekki gefa mér lengur gleði eða ánægju eða hreinlega valda áhyggjum eða vanlíðan að þá væru þær ekki þess virði og algjörlega óþarfar.
Ein hefð sem mér þykir afskaplega vænt um og gefur mér mikla gleði og ánægju er að við frænkurnar í móðurfjölskyldunni hittumst alltaf á aðventunni eða um jólin og eigum notalega stund saman. Í ár bauð ég þeim heim til mín þar sem við gæddum okkur á ljúffengum veitingum, spjölluðum, spiluðum bingó og vorum með smá pakkaleik.
Ég ákvað að eyða ekki tíma að þessu sinni í bakstur eða mikinn undirbúning í eldhúsinu og í samstarfi við Tertugallerí Myllunnar bauð ég upp á ljúffengar veitingar, himneskar tertur og annað góðgæti.
Það er svo ótrúlega þæginlegt að geta pantað góðar veitingar fyrir veislur hjá Tertugalleríinu, ég get staðfest það að allt sem frá þeim kemur er virkilega gott og fallegt, en eins og ég hef áður rætt hér á blogginu að þá finnst mér það skipta mjög miklu máli að matur sé ekki bara bragðgóður heldur gleðji líka augað.

Franska súkkulaðikakan frá Tertugalleríi Myllunnar og Banana og kókosbomban eru í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni enda báðar svakalega góðar og girnilegar.
Hversu flott og freistandi…

Skemmtileg nýjung frá Tertugalleríinu eru þessi snilldar rúllutertubrauð sem koma alveg tilbúin og það eina sem maður þarf að gera er að hita þau í ofni og bera á borð.
Rúllutertubrauðin koma með tvennskonar mismunandi fyllingum, skinku og aspas eða pepperoni og henta vel á hvaða veisluborð sem er.
Hérna getur þú pantað rúllutertubrauðin:
Tertugallerí Myllunnar
Önnur nýjung hjá Tertugalleríinu eru þessi snilldar salöt, skinkusalat og rækjusalat. Salötin eru væntanleg á næstu dögum en þau munu koma í 1 kg. boxum. Sparar mikla vinnu við veisluundirbúning ef manni langar að búa til brauðtertu eða rúllutertu sjálfur. Svo eru þau líka bara æðisleg með snittubrauði eða kexi.
Í frænkuboðinu í ár hafði ég heita súkkulaðisósu og ís með frönsku súkkulaðitertunni og það gerði hana bara ennþá betri, en hún er líka æði með þeyttum rjóma.
Ég vona að þú njótir aðventunnar og gerir það sem þig langar til fyrir jólin! Ekki eyða þínum dýrmæta tíma í að gera eitthvað sem allir aðrir gera eða þér finnst að þú eigir að gera af því það er hefð. Skapaðu þínar eigin hefðir og minningar og njóttu þess að gera það sem gefur þér gleði og hamingju.