BJARGEY & CO.

Kímónó og skór fyrir haustið

Kímónó hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðustu árin enda flík sem hægt er að nota á mjög marga vegu. Ég fór um helgina í eina af mínum allra uppáhalds búðum, Andreu og keypti mér þennan gullfallega kímónó.

Það er alltaf gaman að kíkja í fallegar fataverslanir en mér finnst það langskemmtilegast á haustin þegar nýju haustvörurnar koma í búðirnar og manni langar í eitthvað nýtt í fataskápinn eftir sumarið.

Á þessum myndum er ég í svörtum blúndutopp úr Vero Moda og buxum úr H&M, ótrúlega þæginleg og hversdagsleg föt en svo þegar maður skellir sér í kímónóinn yfir gæti maður skellt sér út á lífið eða í hvaða veislu sem er.

Skórnir eru líka nýjir en þá keypti ég í Kaupfélaginu og féll alveg fyrir þeim, enda bæði þæginlegir og smart. Þeir eru frá Six Mix og eru með lágum hæl og mjög gott að ganga í þeim.

Nú eru spennandi ferðalög framundan hjá mér og skemmtilegir viðburðir í haust svo það er virkilega gaman að eiga fallega flík til að fara í. Ég nota kímónó sérstaklega mikið þegar ég ferðast því það er svo ótrúlega þæginlegt að hafa svona flík í ferðatöskunni, passar við allt, kjóla eða pils, stuttbuxur, samfesting eða bara buxur og bol.

Stafahálsmenin keypti ég líka í Andreu en þau finnst mér einstaklega falleg. Ég valdi stafinn minn, eiginmannsins og allra barnanna en þar sem við erum öll með stafina B, H eða I er ég bara með þrjú men en tvö á sömu keðjunni. Svo er aldrei að vita að ég bæti fleirum við eins og stjörnumerkinu mínu.

Öll fötin keypti ég sjálf og ekki í neinu samstarfi, mig langaði bara að sýna ykkur. Ég elska að skoða falleg föt á bloggsíðum og fá hugmyndir og mér finnst líka gaman að deila með ykkur því sem mér finnst vera flott og þegar ég er virkilega ánægð með flíkurnar.

Yndislega dóttir mín hún Bryndís Inga var sérstakur stílisti og tók allar myndirnar fyrir mömmu sína. Ég myndi segja að hún hafi framtíðina fyrir sér í ljósmyndun!