

Nú er ein vika í að Bryndís Inga fermist í Kópavogskirkju og því er fermingarundirbúningur á fullu hjá okkur fjölskyldunni enda í mörgu að snúast fyrir stóra daginn hennar. Hún tók að sér smá auglýsinga verkefni fyrir ELKO í vikunni en það var tekin upp sjónvarpsauglýsing í herberginu hennar þar sem hún lék sjálfa sig.
Í auglýsingunni var hún að prenta myndir úr sniðugum Polaroid prentara sem tengist við síma og prófaði nýtt krullujárn en fermingarbörnin sem tóku þátt í auglýsingunni voru öll að gera einhverja skemmtilega hluti sem tengjast áhugamálum þeirra í sínu raunverulega umhverfi.
Hún skemmti sér mjög vel enda spennandi verkefni og það verður mjög gaman að sjá útkomuna þegar auglýsingin fer í loftið.
En þar sem auglýsingin var tekin upp í herberginu hennar ákváðum við að búa fallega um rúmið og notuðum þessi flottu rúmföt frá Lín DESIGN, en hún er búin að eiga þau í svolítinn tíma og elskar þau!
Rúmfötin heita Fjalla Eyvindur og Halla og eru úr mjúku jersey bómullarefni. Efnið er eins og mjúk náttföt viðkomu og það er smá teygja í því sem gerir þau svo einstaklega þæginleg og kósý.
Skemmtilegur texti á rúmfötunum sem gerir þau svo töff. Síðan er hægt að fá náttföt í stíl, en það er mjög mikið úrval af kósý náttfötum á unglinga hjá Lín DESIGN.
Herbergið hennar Bryndísar er undir súð sem gerir það svo einstaklega notalegt. Ég væri alveg til í að eiga þetta svefnherbergi sjálf.
Fallegir ljósir litir sem lífga upp á herbergið, en okkur mæðgum finnst gaman að blanda saman ólíkum púðum og teppum með rúmfötunum.
Takk fyrir innlitið, en við mæðgur ætlum að halda áfram að undirbúa ferminguna og munum sýna ykkur myndir frá stóra deginum þegar að því kemur.
Njótið helgarinnar,