Hlustaðu á hjartað þitt

IMG_3867

Hlustaðu á hjartað þitt…..því það hefur öll svörin sem þú leitar að.

Síðustu mánuði hef ég verið leitandi. Leitandi að svörum við stórum spurningum. Hver er tilgangur minn á þessari jörð, hvað á ég að vera gera, hvert er ég að fara.

Í öllum hraðanum, lífinu sjálfu hef ég oft verið týnd. Stundum finnst mér ég alls ekki passa inn í rammann, þið vitið þennan fyrirfram ákveðna ramma sem við reynum flest eftir bestu getu að troða okkur inní. Samt er ekki pláss fyrir okkur öll þarna.

Ég ákvað að fara út fyrir rammann, hætta mér út fyrir þægindarammann, öryggið. Því ég hef komist að því að ég vil ekkert vera inni í þessum bjánalega ramma.

Ég var að deyja úr streitu. Ekki líffræðilega nema þá í þeim skilningi að ég var virkilega að ganga fram af líkama mínum með álagi. En ég var að deyja innanfrá. Hjartað mitt var kramið og það var enginn önnur en ég sjálf sem kreisti það og alltaf fastar og fastar. Ég var svo upptekin af því að vera eins og ég hélt að allir aðrir vildu að ég væri að ég gleymdi bara að vera ég sjálf.

IMG_0936

Ég hef nefninlega komist að því að við höfum ekki lengur tíma til að lifa. Vera hér og nú, ná andanum. Við erum alltaf á leiðinni eitthvert annað, eitthvað lengra. Klára þetta nám eða hitt, fá gráðu, gráður…nýja vinnu, betri vinnu, meiri vinnu.

En hver er tilgangurinn með því? Hvenær komumst við á þann stað að segja við okkur sjálf, ég er á toppnum og ég ætla að vera þar. Stoppa. Njóta. Vera.

Afhverju þurfum við alltaf að fara lengra? Er grasið alltaf grænna hinum megin?

Ég hef verið að glíma við langvarandi veikindi. Augu mín eru alltaf að opnast meira og meira fyrir þeirri staðreynd að því get ég ekki breytt með því að sveifla töfrasprota. Ég get haldið áfram að hamast eins og hamstur í hjóli og trúað því að ef ég haldi áfram að berjast muni ég sigra. Sigra sjúkdómana. Kveðja þá fyrir fullt og allt.

En því meira sem ég berst, með viljann að vopni því verr líður mér. Og dag einn ákvað ég að hætta að berjast. Ákveða að vera sátt við sjálfa mig eins og ég er. Ég valdi mér ekki þessa sjúkdóma, þeir komu bara með í pakkanum. Hluti af mér. Ég gæti ákveðið að vera bara veik. Leyfa sjúkdómunum að taka yfir líf mitt. En það myndi ég aldrei gera. Lífið er of gott til að eyða því í volæði.

Ég ákvað að sættast við sjálfa mig eins og ég er.

Ég er hætt að berjast. Hætt að leita. Því um leið og ég hætti að hlaupa áfram og hlustaði á hjartað mitt fékk ég öll svörin sem ég leitaði að. Ég er alveg eins og ég á að vera. Ég þarf ekki að breyta neinu. Ég ætla að vera ég sjálf og engin önnur.

Ég ætla bara að vera.

Vera hér og nú.

Vera til staðar fyrir sjálfa mig og þá sem ég elska.

Elska sjálfa mig eins og ég er – það tók mig ekki nema 35 ár að geta það.

Hjartað mitt mun vísa mér veginn og ég er að hlusta.

IMG_3866 (1)

Undirskrift Bjargey

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s