
Hvolpurinn Spori kom til okkar fyrir viku síðan, en hann er 10 vikna Havanese hvolpur. Hér á heimilinu var búið að bíða eftir þessari stund með mikilli eftirvæntingu. Við fengum okkur hund fyrir 5 árum þegar við fluttum í húsið okkar, en vorum ekki með hann í nema 4 mánuði þar sem ég fékk svo mikið ofnæmi. Draumurinn um hund var samt alltaf ofarlega í huganum og fyrir um ári síðan ákváðum við að hefja leit að hundi sem ég myndi ekki hafa ofnæmi fyrir en það eru nokkrar tegundir sem valda minna ofnæmi og eru það helst hundar sem fara ekki úr hárum.
Eftir mikla leit komst ég að því að ég hef ekki ofnæmi fyrir Havanese, en það er þó einstaklingsbundið. Ég prófaði mig áfram og fékk að heimsækja nokkra hunda af þessari tegund áður en við tókum endanlega ákvörðun og þar sem ég fékk engin ofnæmisviðbrögð þá var ekki aftur snúið!
Síðasta vika hefur því farið í að kynnast þessum yndislega nýja fjölskyldumeðlim. Hann er alveg ótrúlega ljúfur og góður, fjörugur og svolítið óþekkur en það er bara gaman að því! Hann kemst nú upp með ýmislegt þar sem þessi hvolpaaugu bræða mann alveg!
Krakkarnir eru auðvitað í skýjunum með Spora, stelpurnar hafa líklega óskað sér þess daglega í nokkur ár að eignast hund svo þetta var mjög langþráður draumur hjá þeim. Ég sjálf hef elskað hunda alveg frá því ég var barn og því finnst mér það mjög ósanngjarnt að hafa ofnæmi fyrir þeim! En ég er virkilega glöð að geta haft hann Spora og yndislegt að vera aftur komin með hund á heimilið. Það er bara eitthvað svo vinalegt við að hafa hund, hundur gerir hús að heimili.