
Aðventan er minn uppáhaldstími og hérna eru nokkrar myndir frá desember.
Við frænkurnar hittumst í okkar árlega frænkuboði og það var yndislegt. Það sem ég er þakklát fyrir allar þessar frábæru konur í mínu lífi. Dýrmætt.
Maturinn var ekki af verri endanum hjá henni frænku minni, enda miklir listakokkar þar á bæ! Já þetta var jafngott og það lítur út fyrir að vera!
Ég fæ bara vatn í munninn við að skoða þessar myndir. Og það er allt svo fallegt og fínt hjá henni Huldu Soffíu frænku minni.
Það var meira borðað í desember…já já við saumaklúbburinn fórum á Nauthól og þar beið okkar veisla.
Við fórum mjög saddar þaðan eftir frábært kvöld þar sem var mikið hlegið. Guð blessi saumaklúbba. Nauðsynleg andleg næring fyrir þreyttar mömmur.
Stóra stelpan mín söng svo með kórnum sínum á Jólagestum Björgvins, hérna er hún á leiðinni á tónleikana. Þvílík skemmtun og frábærir tónleikar!
Sú yngri söng líka með kórnum á litlum jólatónleikum í Kópavogskirkju.
Dásamlegar englaraddir.

Hérna erum við mæðgur ásamt Lindu frænku og tengdamömmu úti að borða á Eldsmiðjunni, en við fórum þangað saman eftir danssýninguna hjá Bryndísi, hún var að sýna á glæsilegri jólasýningu með Dansstúdíó WorldClass.
Ég var með gjafaleik á blogginu í samstarfi við Búrið, Kjötkompaní og Omnom súkkulaði. Hérna er myndin sem ég tók fyrir leikinn.
Svo þurfti auðvitað að bragða á Wellington nautalundinni!
Svakalega góð! Besta nautalund sem ég hef á ævi minni smakkað.
Mér leið smá eins og ég væri að opna pakka fyrir aðfangadag…..þetta er auðvitað alvöru hátíðasteik.
Við bárum hana fram með villisveppa rjómaostasósu, laufabrauði og Campo Viejo rauðvíni…namm!
Já eins og myndirnar sýna þá gerði ég voðalega lítið annað en að borða í desember….hahaha en ég skrifaði reyndar um 70 jólakort! Þau voru frá Pixel Prentþjónustu eins og undanfarin ár. Alltaf jafn ánægð með kortin frá þeim.
Ég vona að desember hafi verið ljúfur hjá ykkur kæru lesendur.