
Elsku jólin. Hátíð ljóss og friðar, svefnlausra nátta, barna á yfirsnúningi, örþreyttra foreldra. Já ég sagði það. Það elska jólin eflaust fáir jafn mikið og ég, en ég skal alveg viðurkenna það að þetta getur líka verið erfiður tími. Á mínu heimili eru þrjú yndisleg og spennt börn sem bíða eftir jólunum með mikilli eftirvæntingu. Og tíminn virðist líða endalaust hægt. Bið. Endalaus bið. Og svo þegar að stóra deginum er komið verður sprenging sem endar með miklu spennufalli.

En á aðfangadagskvöld þegar búið var að opna allar gjafirnar hefði ég getað sofnað sitjandi vegna þreytu en það eina sem komst að í huga mínum var þakklæti fyrir þessa yndislegu fjölskyldu mína.
Jólin voru langt frá því að vera eins og ég hafði séð þau fyrir mér. Síðustu ár höfum við fjölskyldan verið saman í fríi á Þorláksmessu, ég hef verið búin með allt, búið að skreyta hátt og lágt, búið að versla inn, jólafötin straujuð og tilbúin, hreint á rúmum, allar gjafir komnar á sinn stað og við höfum notið dagsins í afslöppun og fengið okkur humarsúpu um kvöldið. Í mínum huga eru það fullkomin jól. Fara inn í jólahátíðina afslöppuð og allir vel straujaðir hahaha!

En í ár var ég á spítala 5 dögum fyrir jól. Fékk mjög slæma bólgu í úlnlið og vökva inn á liðinn og gat ekki hreyft hendina. Ætla ekkert að skafa utan af því en ég grét af sársauka og fullyrti við lækninn á bráðamóttökunni að þetta væri verra en að fæða 20 marka barn án deyfingar! Hann var nú ekki að taka mikið mark á því og spurði hvort ég hefði prófað það og ég játti því og sagðist munu gera það aftur ef ég gæti losnað við sársaukann úr hendinni. Þá fór hann nú að taka mark á mér og ég fékk almennileg verkjalyf til að geta andað! Næstu 3 dagar fóru í rúmlegu í lyfjamóki og með hendina í spelku. Ég gat ekki einu sinni klætt mig sjálf. Krakkarnir heima í jólafríi og eiginmaðurinn fjarverandi vegna vinnu þó hann hafi gert sitt allra besta til að létta undir með mér. Það endaði svo að jólakortin fóru allt of seint af stað sem og pakkar til útlanda, mamma kom og pakkaði inn síðustu jólagjöfunum fyrir mig og það var allt óstraujað á Þorláksmessu. Það átti eftir að þrífa allt, opnir jólaskrautskassar á gólfum og seríur ekki einu sinni komnar í gluggana hjá krökkunum. Þá áttum við líka eftir að versla inn, skutla gjöfum, þvo jólafötin, taka af rúmunum o.s.frv. Ég keypti meira að segja 3 jólagjafir á Þorláksmessu. Ég fékk ekki árlegu humarsúpuna mína í matinn heldur hamborgara á veitingastað hahaha og ég borða ekki einu sinni hamborgara. En á þeim tímapunkti hef ég verið orðin svo sturluð af þreytu að ég borðaði hann með bestu lyst. Voru jólin samt fullkomin? Já!

Því hvað eru fullkomin jól? Jól fyrir mér þarf ekki að vera það sama og fyrir næsta manni og það er í góðu lagi. Ég held að margir séu með mjög fastmótaðar hugmyndir um það hvernig jólin eigi að vera og það þarf að halda í hinar og þessar hefðir. Ég er þar. Ég vil hafa jólin mín með hreinum straujuðum rúmfötum, hreinu heimili, kátum börnum og góðum mat. Ég vil vera búin að öllu löngu fyrir jól og vera afslöppuð síðustu dagana fyrir jól að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum til að stytta biðina.
En það fór á annan veg og það var bara allt í góðu lagi! Jólin voru fullkomin þó rúmfötin væru óstraujuð og ég fékk enga humarsúpu á Þorláksmessu.
Þau voru fullkomin því ég á bestu fjölskyldu í heimi. Eiginmann sem ég elska útaf lífinu, yndisleg börn, okkar eigið heimili og frábæra fjölskyldu. Við búum í landi þar sem er ekkert stríð, við höfum allt til alls og elskum hvort annað. Er hægt að biðja um eitthvað meira. Nei. Það er ekki hægt.

Hérna eru nokkrar myndir frá þessu skemmtilega kvöldi.


Svo var farið í pakkaopnun við mikinn fögnuð viðstaddra.
Rólegt og afslappað í tvær mínútur, svo tók þetta við…..
Stóra stelpan mín
Mjög glöð með gjafirnar
Það var ekki hægt að ná óhreyfðri mynd af syninum, hraðinn var svo mikill hahaha!
Við tókum samt smá pásu frá pakkaopnun og fengum okkur desert

Síðan var haldið áfram enda mikið verk að vinna 🙂
Við fengum svo verkfræðing innan fjölskyldunnar í að setja saman Lego híhíhí….en Linda frænka kom í heimsókn um kvöldið og var mjög til í að hjálpa litla frænda við smíðar á Minecraft virki.

Svo fékk pabbinn að dunda sér við þetta á jóladagsmorgun
Ég kom mér vel fyrir með súkkulaði í skál og ætlaði að opna jólakortin
En komst ekki lengra en að taka þessa mynd….og þá var ég eiginlega sofnuð. Þannig að ég játaði mig sigraða og fór í háttinn.
Súkkulaðið beið mín ekki daginn eftir.
Takk fyrir að lesa, ykkar
Fleiri myndir frá aðventunni okkar er að finna hér: