EM ævintýrið okkar

IMG_5314 (3)

Eins og öll þjóðin höfum við fjölskyldan fylgst með íslenska landsliðinu á EM. Þvílík skemmtun og þvílíkir snillingar sem strákarnir í landsliðinu eru!

Við horfðum á leikina í sjónvarpinu og hvöttum, öskruðum, sungum og grétum gleðitárum þegar við unnum leikinn gegn Austurríki. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að ég ætti eftir að gráta yfir fótboltaleik. En tilfinningarnar voru svo sannar og sterkar og það var bara ekki annað hægt en að hrífast með þessum ótrúlega árangri.

Þegar við horfðum á leikinn gegn Englandi vorum við mikið að pæla í því af hverju við hefðum ekki drifið okkur út til Frakklands að horfa á leikinn og styðja landsliðið. Á meðan við horfðum á leikinn í sófanum heima fundum við stemminguna í gegnum sjónvarpið, áhorfendapallarnir gjörsamlega titruðu! Ég hugsaði með mér hvað það væri örugglega klikkað að vera þarna úti og taka þátt í gleðinni og sagði við manninn minn að ef við myndum vinna leikinn gegn Englandi færum við á leikinn gegn Frakklandi! Og við unnum!!

IMG_5440

Við tók mikil spenna og drama næstu tvo daga að reyna að fá miða á leikinn. Það hófst að lokum og við lögðum af stað í ferðalag til Frakklands. Það var ekki auðvelt að fá hagstætt flug svo við flugum til Þýskalands og keyrðum yfir til Frakklands í 5 klukkutíma.

Þvílík stemming í París! Íslendingar úti um allt og mikið fjör.

IMG_5290

Við tókum elstu stelpuna okkar með sem er 12 ára og mikil áhugamanneskja um fótbolta. Hér erum við þrjú við Sigurbogann í París á leiðinni á leikinn.

IMG_5295 (2)

Við fórum að Rauðu myllunni og hittum þar mjög marga íslendinga þar sem var sungið og trallað fyrir allan peninginn!

IMG_5289

Flottu ferðafélagarnir mínir!

IMG_5321

Það voru nokkrir með okkur þarna á Stade de France! Ekki nema 10.000 Íslendingar og nokkrir Frakkar haha!

IMG_5439

Það var alveg meiriháttar að horfa á leikinn með þessu útsýni! Það er eiginlega bara ólýsanlegt hvernig þessi upplifun var. Gleðin, sorgin og bara allt! Tilfinningarússíbani á 90 mínútum. En við gáfumst aldrei upp, strákarnir börðust eins og ljón í seinni hálfleik og íslensku stuðningsmennirnir voru frábærir allan tímann. Það fóru allir raddlausir út af þessum leikvangi.

IMG_5337 (2).jpg

Eftir leikinn var sungið og fagnað í langan tíma. Að taka þátt í Víkingaklappinu undir stjórn fyrirliðans er stund sem ég mun aldrei gleyma. Stolt og gleði blandað saman með einhverjum ólýsanlegum krafti þegar þjóð stendur saman sem eitt. Við upplifðum okkur sem sanna sigurvegara þrátt fyrir að hafa tapað þessum leik. Íslenska landsliðið hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar með þvílíkri baráttu og hæfileikum en með virðingu og gleði að leiðarljósi.

IMG_5440

TAKK fyrir mig, þessi stund var ógleymanleg.

Áfram Ísland!

IMG_5315.JPG

Leave a comment