Við mæðgur skelltum okkur til Vestmannaeyja um helgina. Dóttirin var að keppa á Pæjumótinu í fótbolta og mamman fór með til að hvetja. Þvílíkur dásemdarstaður Vestmannaeyjar, svo ótrúlega fallegt þar.
Stolt Blikastelpa eftir sigurleik
Svo var horft á nokkra leiki, en þegar Breiðablik sendir 8 lið á eitt mót þá á maður vinkonur í mörgum liðum og lætur sér ekki nægja að spila bara sína leiki, líka að hvetja hinar áfram.
Það vantar ekkert upp á fegurðina við þennan fótboltavöll!
Hálfleikur og þjálfarinn fer yfir stöðuna. Mín er þessi þarna skælbrosandi í miðjunni! Það vantar ekkert upp á áhugann og leikgleðina hjá þessari dömu.
Eftir langan dag í boltanum er ekkert betra en að fá sér hollan og góðan kvöldverð og það gerðum við á besta veitingastað Vestmannaeyja – GOTT
Ég hugsa að ég geti ekki dásamað þennan veitingastað nógu mikið. Maturinn er svakalega góður hjá þeim, gæði í gegn! Og allt svo fallegt, ég elska fallegan og hollan mat!
Tjúllað geitaosta og kjúklingasalat
Besti kjúklingaborgari í heimi
Sjúklega gott Tortellini með kjúkling, tómötum, pestó og parmesan
Já ég var þarna í 3 daga og fór þrisvar sinnum á GOTT – það er bara ekki annað hægt!
Við fórum í dagsferð til Vestmannaeyja með krakkana fyrir tveimur árum og fórum þá út að borða á þessum veitingastað og ég hef bara varla hugsað um annað en að fara aftur hahaha! Þessi veitingastaður er á mínum topp 5 yfir bestu veitingastaðina á Íslandi.
Hérna erum við fjölskyldan á GOTT fyrir 2 árum
Það er mjög skemmtilegt að fara í dagsferð til Vestmannaeyja eða bara gista og eyða nokkrum dögum þar. Ég mæli með því að fara með krakkana á Sæheima og á Eldfjallasafnið, en það er alveg ótrúlega flott og mikil upplifun að skoða. Sundlaugin er líka mjög skemmtileg og svo er gaman að kíkja í Herjólfsdal með nesti. Það eru mjög flottar og skemmtilegar búðir í miðbænum sem eru með allskonar íslenska hönnun og fallegar vörur. Svo er auðvitað hægt að fara í bátsferðir og skoða skipin við höfnina.
Ég mæli allavega með því að skreppa til Vestmannaeyja í sumar ef ykkur langar að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum innanlands.
Ykkar Bjargey