
Þegar við héldum upp á 8 ára afmæli Hrafnhildar höfðum við fiðrilda- og blómaþema, en ég leyfði henni alfarið að ráða því hvernig skreytingar yrðu. Hún vildi hafa bleika köku með blómum og skreyta hana sjálf, hafa fiðrildamúffur og skinkuhorn.
Mér finnst mjög gaman að skreyta veisluborð, en ég reyni að kaupa sem minnst af einnota skrauti, nýti það sem ég á heimafyrir og blanda saman gömlu og nýju.
Fiðrildin eru úr sykri, en ég fékk þau í versluninni Allt í köku, en ég fer alltaf þangað fyrir afmæli, það er bara svo mikið úrval hjá þeim og ég finn alltaf eitthvað sætt hjá þeim. Ég féll fyrir þessum gamaldags bláa kökudiski, en ég fékk hann í lítilli búð á Garðatorgi sem heitir Nur. Myndin af bollakökunum er bara afmæliskort sem ég skellti í IKEA ramma.
Hér sést kökudiskurinn betur, en þessi mynd er samt ekki úr afmælinu, langaði bara að sýna ykkur þetta krútt aðeins betur. Það er bara eitthvað svo sætt við svona litla diska og krúttlegar kökur. Þær eru auðvitað betri á bragðið!
En aftur að afmælinu, hérna er afmælisprinsessan, glöð með daginn sinn.
Og veitingarnar allar komnar á borðið, þetta var svona klassískt fjölskylduafmæli. Skinkuhorn, rice crispies, heitur réttur, kjúklingasalat, marengsterta, afmæliskaka og múffur. Fallega fánalengjan er úr Allt í köku.
Afmæliskökuna hannaði afmælisbarnið alveg sjálf og skreytti! Ég sýndi henni bara hvernig hún ætti að sprauta rósir og svo gerði hún það sjálf! Mjög flott hjá henni.
Takk fyrir innlitið!
Vona að þið getið nýtt einhverjar hugmyndir héðan 🙂