
Páskarnir eru dásamlegir. Þá bjóðum við vorið velkomið og kveðjum veturinn fyrir fullt og allt þó hann hlusti kannski ekki alltaf! En það er tilvalið að njóta þess að vera í fríi, fara í góðan göngutúr og gera vel við sig í mat….eða köku. Krakkarnir eru auðvitað mjög spenntir fyrir páskaeggjunum en ég er meira spennt fyrir góðri tertu í desert.
Þessi varð til í huganum þegar ég smakkaði súkkulaðistykki með fylltum Appolo lakkrís, ég bara vissi að ég yrði að gera tertu úr þessu!
Hérna kemur uppskriftin:
Marengsbotnar:
220 gr. púðursykur
100 gr. sykur
5 eggjahvítur
Þeytið eggjahvíturnar og bætið púðursykrinum og sykrinum saman við og stífþeytið.
Smyrjið á bökunarpappír í 3 jafna hringi og setjið á bökunarplötu, ég hafði einn hring á hverri plötu. Ég hafði hana semsagt þrefalda en þið getið líka bara haft hana með 2 botnum ef þið viljið. Bakið við 140 gr. í 50 mín á blæstri.
Fylling og skreyting
4 stykki af súkkulaði með fylltum Appolo lakkrís
1 stór rjómi – þeyttur
Brytjið súkkulaðið í litla bita, setjið helminginn á milli botnanna með rjómanum og helminginn ofan á tertuna í lokin þegar kremið er komið á.
Súkkulaðikrem
60 gr. smjör
150 gr. suðusúkkulaði
50 gr. flórsykur
3 eggjarauður
Bræðið smjörið og suðusúkkulaðið saman við vægan hita. Þeytið eggjarauðurnar og flórsykurinn saman þar til blandan verður létt og ljós. Hellið svo súkkulaðinu saman við og blandið vel saman.
Þegar kremið er tilbúið setjið þið það á toppinn á kökunni og skreytið með Appolo lakkrís súkkulaðibitunum.
Þá er tertan tilbúin á páskaborðið, æðisleg með góðu kaffi eða sem desert eftir páskamáltíðina. Njótið vel!
Ég skreytti borðið með gulum túlípönum, postulíns páskaeggjum og páskaservíettum úr Söstrene Grene.
Þessar voru bara einu númeri of sætar
Gleðilega páska!